Vindarnir eru að snúast
Birtist í Morgunblaðinu 25.10.2003
Á fimmtudag urðu stórpólitísk tíðindi í heiminum. Yfirstjórn bresku járnbrautanna ákvað eftir ítarlega rannsókn að þjóðnýta viðhald og viðgerðir á breska járnbrautarkerfinu. Þetta þýðir að átján þúsund starfsmenn færast frá einkafyrirtækjum til ríkisins. Þetta er niðurstaða ríkisstjórnar sem hefur lýst því yfir að hún sé ríkisstjórn einkarekstrar alls staðar þar sem því verði við komið. Þetta er ríkisstjórn sem hefur lýst því yfir að hún sé ekki sósíalísk ríksisstjórn. Niðurstaða hennar var að þjóðnýtingin myndi auka öryggi í lestarkerfinu og spara stórkostlega fjármuni. Þetta er auðvitað sigur skynseminnar yfir kreddunni. Hin tröllaukna tilraun Thatcher var framkvæmd og niðurstaðan er skýr. Það er fásinna að einkavæða samfélagsþjónustu, þar sem ekki er hægt að koma við daglegri samkeppni og þar sem öryggi, umönnun eða aðrir langtímahagsmunir eru grundvöllur starfseminnar. Þetta verða allir að skilja og láta ekki blindast af tískustraumum dagsins. Vindarnir eru að snúast og við finnum að vindarnir frá útlöndum eru að hlýna, skynsemin er að sigra á ný, einræði heimskunnar er á undanhaldi.