Fara í efni

VINIR ÍSLANDS, SANNGIRNI OG "EINKATRIPP"

Ég verða að segja að VG, eða réttara sagt einstaka þingmenn þess valda mér vonbrigðum. Fyrir örfáum misserum vorum við Íslendingar stærstir, bestir og klárastir í heiminum og við sýndum veröldinni hvernig á að gera hlutina. Í dag erum við orðnir minnstir og aumastir og "Vinir" okkar níðast á okkur. Bretar og Hollendingar gerðu landinu stóran greiða með því að stöðva íslensku bankana og verst var að þeir gerðu það ekki fyrr. Íslenskum yfirvöldum var fyrirmunað að gera það í tíma. Að sjálfsögðu á þjóðin að greiða breskum og hollenskum innistæðueigendum til baka það sem hún lofaði að tryggja, það þarf engan dómstól til að úrskurða um það. Hvers vegna er hægt að mismuna innstæðueigendum eftir þjóðerni? Þetta er spurning um lágmarks reisn.
Það er hins vegar undir okkur sjálfum komið og hreint innanríkismál, hvort við náum eignum upp í þetta af "glæpamönnunum" sem stjórnuðu bönkunum. Íslendingar báðu AGS um aðstoð vegna þess að þjóðin var gjaldþrota í orðsins fyllstu merkingu. Þess vegna er ekki rétt að segja að AGS hafi verið beitt gegn okkur. AGS setti þau skilyrði að Íslendingar greiddu Icesave-tryggingarnar, sem þeir höfðu lofað þegar heimild til innlána var veitt í þessum löndum. Þetta eru ekki ósanngjörn skilyrði og Íslendingum vel viðráðanleg. Ég hef stutt VG fram til þessa en það eru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég er reyndar afar ánægður með störf formannsins og flestra þingmanna flokksins en alls ekki allra. Val á ráðherrum tókst ekki nógu vel og ástæða til að efast um skynsemi sumra. Ég verð t.d. að segja að Jón Bjarnason er fallegastur þegar hann heldur kjafti. Þá eru nokkrir þingmenn VG á einkatrippi og hugsa um það helst að baða sig í kastljósi fjölmiðlana. Þar fara fremst Liljurnar báðar. Þær virðast vera í stjórnarandstöðu við helstu mál stjórnarinnar og virðast tilbúnar til að eyðaleggja ágæta félagshyggjustjórn, Jóhönnu og Steingríms.
Pétur

Sæll og þakka þér bréfið Pétur. Jón Bjarnason vilt þú að þegi. Liljur segir þú vera á "einkatrippi". Gleymdirðu kannski einhverjum í þessari upptalningu? Kannski þeim sem ritar nafn sitt undir þetta bréf? Ég er nefnilega sammála Jóni Bjarnasyni og kannast ekki við neitt "einkatripp" hjá nefndum þingkonum VG. Ég kannast við það eitt að þær, sem aðrir þingmenn VG, lýsi rökstuddum skoðunum sínum eins og þú sjálfur ert að gera með þessu bréfi og ítreka ég þakkir fyrir það.
Með kveðju,
Ögmundur