Fara í efni

VINIR KVADDIR

Páll Sigurðsson, fyrrum ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti, er fallinn frá en í haust lést kona hans Guðrún Jónsdóttir, læknir.

Mér þótti vænt um að hitta Pál að máli á samkundu sem efnt var til nýlega í tilefni af afmæli heilbrigðisráðuneytisins. Hann var hinn hressasti, eldklár til höfuðsins en líkaminn sennilega farinn að gefa sig. Í minningargreinum les ég að hugur hans hafi verið kominn vel á veg í humátt á eftir Guðrúnu konu sinni.

Tilefni þessara skrifa er að votta Páli og Guðrúnu virðingu mína og þá væntumþykju sem ég erfði úr foreldragarði, jafnframt því sem ég vil færa fjölskyldu þeirra hjóna samúð.

Eitt það erfiðasta við veirufár og samkomubann er hve erfitt það er að kveðja ástvini. En þeim mun ríkari ástæða er að koma samúðarkveðjum á framfæri með öðrum hætti.

Það er hér með gert.