Vinstri grænn af öfund?
Mikil drift og hugmyndaauðgi hefur einkennt ráðherratíð framsóknarkonunnar Valgerðar Sverrisdóttur. Ég vil einungis tína til fáein dæmi þessu til sönnunar.
Af miklum rausnarskap gaf hún dugmiklum ein
Af enn meiri rausnarskap gaf hún dugmiklum SÍS-drengjum Búnaðarbankann með húð og hári við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Þessa gjörð mun enginn leika eftir henni heldur.
Af miklum dug, krafti og fyrirhyggju kom hún framkvæmdunum við Kárahnjúka í gang en þær hafa nú þegar, sem alkunna er, sýnt sig að vera mikil lyftistöng fyrir land og þjóð – að ekki sé talað um erlenda verkamenn sem hafa fengið að starfa í góðu yfirlæti og austfirsku fjallalofti, og jafnvel þegið fyrir ómakið laun samkvæmt íslenskum lágmarkstöxtum eins og þeir gerast bestir hjá Alþýðusambandi Íslands.
Af mikilli framsýni hefur hún hafið markaðsvæðingu raforkugeirans og fyrstu skrefin á þeirri braut gefa góðar vísbendingar um að viðkomandi geiri muni styrkjast og eflast með hærri orkureikningum til heimilanna sem aftur mun skapa enn frekara svigrúm til rausnarlegra raforkusamnigsgjafa til handa nýjum, stórauknum, og fjölbreyttum áliðnaði útlendinga.
Í ljósi alls þessa hljótum við framsóknarmenn að spyrja: af hverju er Vinstri grænum svona uppsigað við hana Valgerði? Af hverju eru þeir alltaf að hamast á henni og hennar verkum? Ég er sannfærður um að það er öfundin, sú ólukkans kerling, sem ræður orðum þeirra og æði. Eða af hvaða óeðlilegu hvötum öðrum ættu þeir að vera uppi á móti öllum þeim góðu hlutum sem nú eru að gerast í okkar ágæta, hlutlausa, friðsama og vopnlausa samfélagi?
Þorkell Hrafnkelsson frá Dratthalastöðum
Sæll Þorkell.
Þakka þér bréfið. Þú ert ekki einn um aðdáun á afrekum Valgerðar ráðherra. Orðunefnd tók, fyrir hönd forseta Íslands, ákvörðun um að sæma Valgerði Stórriddarakrossi um síðustu áramót fyrir þessi afrek sem þú nefnir.
Kv. Ögmundur