VINSTRIHREYFINIGIN GRÆNT FRAMBOÐ ENDURFLYTUR FRUMVARP UM FJÁRMAGNSTEKJUSKATT
Þingflokkur VG vinnur nú að endurskoðun á frumvarpi sínu um samræmingu á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti sem tvívegis hefur verið flutt í þinginu af hálfu þingflokksins. Þingflokkurinn hefur hamrað á því hróplega ranglæti sem í því felst að skattleggja launafólk með 36,72% álagningu (að frádregnum persónmufrádrætti) fyrir launaterkjur sínar en 10% fyrir tekjur af fjármagni og arði. Samkvæmt tillögum VG yrði skattlagning á fjármagnstekjur í þessum áfanga hækkaðar í 18%. Þingflokkurinn gerði ráð fyrir því í tillögum sínum að árleg skattleysismörk fyrir fjármagnstekjur yrðu 120 þúsund krónur. Skyldi þetta gert til að hlífa smáparendum. Athyglisvert er að næðu tillögur VG fram að ganga mætti ætla að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafa fjármagnstekjur nú yrðu undanþegnir skatti, eða eins og segir í greinargerð með frumvarpi VG: “Gera má ráð fyrir að ...rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt (yrðu) undanþegin skattinum. Þótt hlutfallið sé hátt er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem hefur yfirleitt sínar tekjur af launavinnu.”
Í greinargerð með frumvarpi VG koma einnig fram eftirfarandi upplýsingar (skattprósentum breytt til samræmis við það sem nú er): “Vinnandi fólk greiðir af launum sínum (36,72%) að samanlögðum tekjuskatti og útsvari ... Tekjur þeirra auðugustu í landinu, þ.e. þeirra sem eiga fjármagnið og þeirra sem þiggja hluta tekna sinna af hlutabréfakaupum eða kaupréttarsamningum, eru aftur á móti mestmegnis fjármagnstekjur. Af þeim greiða þeir, eins og fyrr segir, aðeins 10% skatt."
Þetta endurspeglar þann veruleika sem fram kemur í viðtali Morgunblaðsins í dag við Indriða H. Þorláksson, ríkisskattstjóra, um hlutfallið á milli launatekna og fjármagnstekna í þjóðfélaginu og mismunun í skattlgningu.
Í prýðilegu viðtali Brjáns Jónassonar í Morgunblaðinu í dag, kemur fram að rúmlega 6.600 framteljendur á Íslandi hafi hærri fjármagnstekjur en aðrar tekjur, og tæplega 2.200 hafi engar aðrar tekjur en af sölu hlutabréfa, arði, leigu og öðru sem fellur undir fjármagnstekjur. Fjöldi þeirra sem hafa hærri fjármagnstekjur en aðrar tekjur hefur aukist um 33,5% frá árinu 2000.
Þessar upplýsingar eru sláanadi og trúi ég ekki öðru en að á komandi þingi fái tillögur VG um að samræma álagningarhlutföll mismunandi skattstofna meiri stuðning en verið hefur á tveimur undangengnum þingum. Það er engin afsökun fyrir aðgerðarleysi lengur.
Þingskjal VG er HÉR