Fara í efni

VIRKJUM LEIKGLEÐINA


Samstaða er hugtak í uppáhaldi hjá mér. Enda þess fullviss að það er samstaðan sem öllu öðru fremur skilaði okkur áleiðis á 20. öldinni, mesta framfaraskeiði mannkynssögunnar. Þegar samvinna og samstaða tekst með einstaklingum vex hver og einn þeirra umfram sjálfan sig - saman fá þeir áorkað meiru en þeir hefðu gert hver á  sínum báti.

Samstaða þýðir ekki að fylgja eigi hópi gagnrýnislaust. Sagan kennir einmitt að fátt er varasamara en undirgefni og fylgispekt. Þjóðfélagshrun nú - sem og fyrr á tíð - á meðal annars skýringu í því að stigið er á dómgreind einstaklinganna, þeim gert að lúta boðvaldi. Dómgreind og sjálfstæði þeirra er hins vegar sjálf forsenda lýðræðisins. Ef einstaklingsfrumkvæðið er kæft og sjálfstæð hugsun fær ekki að blómstra hverfur líka leikgleðin. Hún er okkur öllum mikils virði. Við viljum ánægt fólk, glaðbeitt og upplitsdjarft. Þannig samstöðu viljum við - af fúsum og frjálsum vilja, án beislis og méls.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur allar forsendur til að lifa vel og lengi. Forsenda þess er að hún láti ætlunarverk sitt aldrei líða úr minni: Að vera baráttusveit velferðarsamfélags í vörn og í sókn; að auka gagnsæi í vinnubrögðum og stuðla þannig að upplýstu kröftugu lýðræði. Hún verður að muna að stjórnarmeirihlutinn sem hún hvílir á horfir til þessara þátta fyrst og fremst - um þessi gildi sameinuðumst við síðastliðið vor.
Þessi sjónarmið mín og afstöðu reyndi ég að skýra í Spegli RÚV síðastliðinn föstudag:
http://dagskra.ruv.is/ras1/4489464/2009/12/18/1/