VIRKJUM SKYNSEMINA - EKKI VAXTASKRÚFUNA
Vextir á Íslandi hafa nú verið hækkaðir eina ferðina enn. Seðlabankinn hækkar stýrivexti og bankarnir hækka síðan sína vexti vélrænt. Til sanns vegar má færa að vélræn tengsl séu á milli stýrivaxta og útlánavaxta bankanna – að því gefnu að öll hlutföll haldist óbreytt. Margur maðurinn klórar sér hins vegar í höfðinu yfir þeirri mótsögn að bankarnir hækki vexti og gjöld um leið og þeir skýra frá methagnaði og spyr í framhaldinu hvort ekki sé eitthvert svigrúm til lækkana á vöxtum og þjónustugjöldum, mitt í þessari miklu gósentíð.
Seðlabankinn segir nauðsyn bera til að hækka vexti til að draga úr eftirspurn og ná þannig fram verðbólgumarkmiðum sínum. Nú er það svo að verðbólgan mælir ekki neyslu heldur verðlag. Neysla er hins vegar talin geta haft áhrif á verðlagið: Því minni eftirspurn, þeim mun lægra verð. Og öfugt, því hærra verð, þeim mun minni eftirspurn.
Allt er þetta rétt. Spurningin er hins vegar á hvorum endanum eigi að byrja. Eðlilegt er að spurt sé hvort seljendur vöru og þjónustu hafi ævinlega ótakmarkaðan rétt til þess að hækka verð svo lengi sem eftirspurn leyfir; hvort verðið sé alltaf rétt, bara ef varan selst. Ef þetta stenst, þá er aðferð Seðlabankans og bankanna líka rétt: Að gera lánin svo dýr að verðlagið sprengi þanþol almennings, kaupgetan minnki, þar með dragi úr eftirspurn, vörur lækki í verði og verðbólgan hjaðni.
En gengur þetta á öllum sviðum, til dæmis gagnvart fólki sem er að kaupa sér húsnæði? Þegar á heildina er litið, á það ekki margra kosta völ. Öll þurfum við jú þak yfir höfðuðið. Spyrja má hvort ekki sé kominn tími til að beina sjónum að seljendum vöru og þjónustu þegar verðbólgan er annars vegar og spyrja um ábyrgð þeirra og í framhaldinu krefja þá um verðlækkanir svo ná megi því markmiði að keyra verðbólguna niður? Margt bendir til þess að margir þeirra sem eru í aðstöðu til að stýra verðlaginu hafi sýnt vítavert ábyrgðarleysi á undanförnum árum. Þannig hafi hagstætt gengi til dæmis ekki skilað sér inn á búðarborðið í verðlagi á innfluttum vörum og álagning á ýmsum vörutegundum sé einnig vítaverð.
Eftir stendur þó vandinn með eftirspurnina. Auðvitað þarf á einhvern hátt að hafa hemil á henni. Vandinn er hins vegar sá að sumir sýna ráðdeild og sníða sér stakk eftir vexti, draga úr neyslu eftir því sem kostur er, aðrir halda neyslu sinni óbreyttri svo lengi sem þeir hafa aðgang að fjármagni. Allir þurfa hins vegar að súpa seyðið af verðbólgunni í þverrandi kaupgetu og skelfilega háum vaxtakostnaði.
Sú spurning vaknar hvort ekki eru til aðrar leiðir en vaxtahækkanir til þess að draga úr verðbólgu. Vaxtahækkanir bitna á öllum einstaklingum og fyrirtækjum, líka þeim sem óþarft er að hræða frá óþarfa lántöku. Væri til dæmis ráð að Seðlabankinn réðist í markvissa og upplýsandi auglýsinga- og kynningarherðferð þar sem við værum frædd um kostnaðinn við lántökur? Í stað þess að fæla okkur frá lántökum með svo háum vaxtakostnaði að fjárhag alls almennings og margra fyrirtækja er í voða stefnt, þá verði virkjaður sá drifkraftur sem jafnan hefur reynst best þegar til lengri tíma er litið. Sá drifkraftur heitir skynsemi. Ég er sannfærður um að upplýst, yfirveguð umræða um kostnað af lántöku og samspilið á milli tekna og útgjalda er vænlegri til árangurs en vaxtaskrúfan. Hún eyðileggur líka út frá sér, nokkuð sem skynsemin gerir aldrei.