Fara í efni

VISTKREPPA EÐA NÁTTÚRUVERND

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.10.18.
Maðurinn er búinn að nota jörðina sem ruslahaug í tíu þúsund ár. Þetta gekk án teljandi vandræða í níu þúsund og átta hundruð ár en það verður ekki sagt um síðustu tvö hundruð árin eða frá því að vélknúin iðnbylting hófst. Á þessa leið ritar Jim Antal, bandarískur guðfræðingur og baráttumaður, í bók sinni Climate Church, Climate World. Og hann botnar þessa hugsun með því að benda á að samhliða sífellt ágengari tækni við að nýta auðlindir jarðar – og hafi þá oftar en ekki verið látið undir höfuð leggjast að spyrja um sjálfbærni - að ógleymdri sprengingu í mannfjölda, þá séu margfeldisáhrifin af þessari þróun nú að koma í ljós með svo hrikalegum hætti að lífi á jörðinni sé raunverulega ógnað. 


Og enn vitna ég í Jim Antal þegar hann minnir á, að þegar tortímingarmáttur kjarnorkunnar hafi orðið lýðum ljós um miðja síðustu öld, hafi þeirri hugsun vaxið ásmegin að þörf væri á nýjum siðferðisviðmiðum bæði í friði og stríði. En ekki nóg með þetta. Nú væru menn að vakna upp við þá skelfilegu martröð að koltvísýringssprengjan, CO2, hafi á sinn hljóðláta hátt verið að springa allar götur frá því að iðnbyltingin hófst. Mannkynið hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir því. Þar til nú.


Sennilega erum við flest byrjuð að rumska. En það er ekki nóg, segja kunnáttumenn, það þarf að greina vandann, fylgjast með honum þróast, samfélagið þarf í alvöru að skilja hættuna, þá fyrst megi vænta raunverulegra aðgerða. Í þessu samhengi var spurt í fyrirsögn greinar sem birtist í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum: „Hefur loftslagsógnin náð eyrum stjórnmálamanna og og almennings?” Hið ósagða í greininni er, að sennilega og því miður sé ekki hægt að svara spurningunni afdráttarlaust játandi.
Sá sem spurði var Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrum stjórnmálamaður með meiru.

Hjörleifur á flestum, ef ekki öllum, öðrum hérlendis innistæðu fyrir umvöndun sinni. Fyrir nær hálfri öld hafði hann komið auga á hina hljóðlátu tortímingarsprengju koltvísýringsins. Í bók sinni Vistkreppa eða náttúruvernd, sem út kom árið 1974, gerir hann rækilega grein fyrir rannsóknum á því sem þá var þegar farið að kalla gróðurhúsaáhrif. Segir hann að þrátt fyrir tímabundna kólnun upp úr miðri 20. öld, að hluta til vegna vaxandi mengunar af mannavöldum, séu „athafnir  mannsins farnar að hafa mjög róttæk áhrif á veðurfarsþáttinn í visthvolfi plánetu okkar“ og greina megi augljós hættumerki: „Aukning á koldíoxíði í andrúmsloftinu er talin leiða til svokallaðra gróðurhúsaáhrifa, sem byggjast á því að koldíoxíð hleypir sýnilegu ljósi óhindrað til jarðar, en endurkastar innrauðri hitageislun, sem berst frá jörðu, svipað og gler í gróðurhúsi og virkar þannig sem hitaeinangrari. Niðurstaðan er því minni hitageislun frá jörðu út í geiminn og hækkað hitastig í neðstu loftslögunum.”

Hlýnun jarðar var að sjálfsögðu mál málanna á nýafstaðinni Arctic Circle ráðstefnu, hinni sjöttu sinnar tegundar sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, stendur fyrir. Framtak Ólafs Ragnars er stórmerkilegt og hlýtur að teljast til afreksverka eins og þau gerast mest. Sífellt fjölgar þeim sem sækja þennan vettvang til að afla upplýsinga og miðla upplýsingum um breytingar á vistkerfunum á norðurhveli jarðar og afleiðingum þeirra fyrir jörðina alla.

Þessar ráðstefnur sækja færustu vísindamenn heims, stjórnmálamenn og fulltrúar félagasamtaka, að ógleymdum einstaklingum með brennandi áhuga á því sem þarna er til umræðu. Skipulagðar eru málstofur, hver annarri áhugaverðari, samhliða allsherjarfundum ráðstefnunnar, og skipta þær hundruðum. Sjálfur var ég fenginn til að stýra pallborðsumræðu höfuðbiskupa Norðurlandanna og er áhugi þeirra á málefninu og skilningur á mikilvægi þess vonandi tímanna tákn.

Arctic Circle er merkilegt framlag Íslands til umræðu sem er mannkyninu öllu lífsnauðsynleg í óhugnanlega bókstaflegri merkingu. Valkostirnir eru vistkreppa eða náttúruvernd eins og Hjörleifur Guttormasson sagði fyrir tæpri hálfri öld. Því miður reyndist hann sannspár eins og í mörgu öðru sem hann hefur vakið máls á og snýr að samskiptum manns og náttúru.