Fara í efni

VÖKNUM!

Vaknið - í frystinn
Vaknið - í frystinn


Fréttastofa  Rúv er búin að segja okkur fréttir af „hugmyndum" Péturs H. Blöndals, þingmanns frjálshyggjuarms Sjáftæðisflokksins, um  að rukka legusjúklinga á Landspítalanum. Frá þessu greina fjölmiðlar eins og hverri annarri frétt, svo sem um  áform Reykjavíkurborgar að malbika.
Hér er hins vegar verið að tala um grundvallarbreytingu á samfélagsgerðinni. Ég vildi óska að fjölmiðlar tækju þannig á málinu.

Og innnaríkisráðherrann vill einkavæða innviðina og tilgreinir flugvelli, hafnir og vegi. Þarf ekki að ræða þetta? (Sjá vef innanráðuneytisins.)

Fjármálaráðherrann, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill hefja einkavæðingu síðasta bankans í ríkiseign, Landsbankans, nokkuð sem fjármálageirinn hefur kallað að vinda ofan af ríkisvæðingu. Leiðsögumenn okkar út í hrunið eru ekki hógværari en þetta. Háttvirtir fjölmiðlar, Er þetta í góðu í lagi? Eru ekki hér einhver spor sem hræða?

Og hvað með fund forsætisráðherra með fjárfestingarspekúlöntum  í London í vikunni sem leið? Er  inntak þess fundar ekki umræðunnar virði? Er rétt að höfða til allra fjárfesta, bara að þeir eigi pening , þá séu þeir velkomnir?  Það var að skilja á orðum forsætisráðherrans.

Flest teljum við eftisóknarvert að fá vandaða erlenda aðila í samstarf og þá hugsanlega einnig færandi fjármagn til uppbyggingar á tilteknum sviðum efnahagslífsins. Í slíku samstarfi skipta ekki aðeins fjármunir máli heldur einnig tengsl og þekking. 

En svo er hitt að spyrja þarf hvort hér innanlands séu ekki fyrir hendi nægir fjárfestingarpeningar til að halda áfram uppbyggingu atvinnulífsins. Síðasta gleðilega dæmið þar um var stofnun risafyrirtækis á sviði ferðaþjónustu, Iceland Tourism Fund. Þar koma lífeyrissjóðir við sögu. Á þeirra vegum er fjármagn sem vill komast á beit.

En til hvers ættum við að fá eigendur að Landsbanka  Íslands úr einkageiranum, hugsanlega erlenda? Erlendir eigendur Landsbanka myndu vissulega koma með gjaldeyri færandi hendi en ætla má að til þess væri leikurinn gerður af þeirra hálfu að geta flutt gjaldeyri af landi brott - og hugsanlega annað og meira. Gleymum ekki að í Landsbankanum eru mikilvægar auðilndir veðsettar.

Er ekki nauðsynlegt að spyrja í hverju Sigmundur Davíð vill að spekúlantarnir fjárfesti? Orku Íslands?  Óveiddum fiski? Eða vegakerfinu, einsog innanríkisráðherrann boðar? Þetta er samhengið sem þarf að skoða, þ.e. hvað líklegt er að gerist þegar opnað er á einkavæðingu innviða samfélagsins og síðan beðið um fjárfestingarfjármagn.

En fyrirsögnin? Hún er okkur öllum til áminningar.