Fara í efni

VÖLD FORSETAEMBÆTTISINS HAFA EKKI VERIÐ AUKIN

Tíu ár eru síðan Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands. Af því tilefni hafa verið viðtöl við hann í fjölmiðlum. Þar hefur hann sagt margt ágætt. Tvennt hef ég þó staldrað við þar sem ég er honum ósammála, meira að segja mjög ósammála.

Í fyrsta lagi hef ég miklar efasemdir um þá áherslu, sem hann leggur á völd embættis síns. Vald forsetaembættisins er honum greinilega ofarlega í huga. Í viðtali í einhverjum fjölmiðlinum sagði Ólafur Ragnar að hvergi á byggðu bóli hefði forseti eins mikið "frelsi og svigrúm" og hann hefði sjálfur. Hann hefði umboð sitt frá þjóðinni beint og milliliðalaust. Ég spyr á móti, umboð til hvers? Því fer afar fjarri að forsetinn hafi umboð til að fara sínu fram að eigin geðþótta, frelsi hans og svigrúmi eru nefnilega settar mjög strangar skorður. Þær skorður markast að sjálfsögðu af lögum og stjórnarskrá, einnig hefðum og af þeirri umræðu sem fram fór við forsetakjörið. Eftir því sem ég man best var þar ekki gefið grænt ljós á að gera forsetaembættið að valdaembætti.

Í öðru lagi á ég erfitt með að skilja þá yfirlýsingu forseta Íslands að með því að fella fjölmiðlalögin úr gildi vorið 2004, hafi forsetanum verið fært aukið vald – neitunarvald gagnvart Alþingi. Þetta er að mínum dómi alrangt. Margir höfðu um það efasemdir að Alþingi hefði rétt til þess að fella fjölmiðlafrumvarpið úr gildi; þinginu bæri að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forsetinn neitaði að staðfesta lögin, sbr. 26. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir, m.a.:” Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.”
Margir litu svo á að samkvæmt þessu orðalagi hefði Alþingi ekki heimild til annars en að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég var í hópi þeirra sem var því fylgjandi að fella lögin úr gildi og taldi að markmið stjórnarskrárinnar væru í heiðri höfð með því móti þótt vissulega mætti gera ágreining um það hvort orðalag 26. greinar stjórnarskrárinnar byði upp á þetta. Ég rökstuddi þessi sjónarmið mín á sínum tíma og held mig enn við þá afstöðu sem ég tók þá.
Hvað um það, niðurstaðan varð sú að þetta var gert. Lögin voru numin úr gildi. En það var Alþingi sem tók ábyrgð á brottnámi laganna, ekki forsetinn. Það er fráleitt að leggja þann skilning í ákvörðun Alþingis um að nema fjölmiðlalögin úr gildi með nýju frumvarpi - eins og gert var - sem viðurkenningu á því að forseta Íslands hafi þar með í reynd  verið veitt neitunarvald! Nær væri að segja að Alþingi hefði tekið sér vald gagnvart túlkun viðkomandi greinar stjórnarskrárinnar. Því má bæta við að vorið 2004 var ekki rætt um þessi mál á þeirri forsendu sem forsetinn gerir nú og fráleitt að vísa til hennar núna í því samhengi sem forsetinn gerir.
Að svo mæltu óska ég Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta lýðveldisins alls góðs og velfarnaðar í starfi.