YFIRLÝSING SVANDÍSAR: FORMSATRIÐI EÐA PÓLITÍK?
Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún minnir á stefnu VG í raforkumálum og varar við því að halda út á einkavæðingarbrautina með grunnþjónustu samfélagsins. Svandís segir að með yfirlýsingu sinni vilji hún vekja athygli "á stórvarasamri stefnu og hættulegu fordæmi..." Mér er kunnugt um að Svandís sendi yfirlýsingu sína forsvarsmönnum OR fyrir stjórnarfund þar á bæ í gær jafnframt því sem yfirlýsingin var send fjölmiðlum. Svandís er nú á erlendri grundu og hafði því þennan hátt á þar sem hún átti ekki kost á því að sitja stjórnarfundinn. Eftir því sem ég hef fregnað var yfirlýsing hennar þó ekki tekin fyrir á þessum stjórnarfundi. Mun meirhlutanum ekki hafa þótt formsatriði erindis Svandísar nógu skýr. Þetta er mjög skiljanleg afstaða. Um að gera að halda sig fast í formsatriðin þegar hin stóru prinsippmál eru annars vegar, eða hvað? Skyldi málið kannski fremur hafa snúist um pólitík en form hjá meirihlutanum í stjórn OR? Mér er ekki alveg grunlaust um að svo hafi verið.
Eftrifarandi er yfirlýsing Svandísar Svavarsdóttur:
"Yfirlýsing SvandísarÞað er afdráttarlaus afstaða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að grunnþjónusta samfélagsins skuli vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. Með nýjum samningi um kaup á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja yrði brotið blað í orkumálum Íslendinga. Þetta krefst víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu og lýðræðislegrar afgreiðslu á Alþingi og hjá sveitarfélögum.
Áform fyrri ríkisstjórnar um að einkavæða 15,2 % i Hitaveitu Suðurnesja hafa engu viðnámi mætt hjá stjórnvöldum þrátt fyrir breytta samsetningu ríkisstjórnar og nú stefnir í að gengið verði enn lengra og að 32% veitunnar verði í eigu einkaaðila. Ef fram fer sem horfir er lýðræðislegu aðhaldi innan Hitaveitu Suðurnesja stefnt í uppnám og almannahagsmunir fyrir borð bornir.
Með þessari yfirlýsingu er vakin athygli á stórvarasamri stefnu og hættulegu fordæmi og þess krafist að ekki verði hróflað við grunnþáttum samfélagslegrar þjónustu.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ber að beita sér í þágu almennings og þar með leggjast gegn einkavæðingu orkugeirans. Í því ljósi ætti stjórn OR að hafa frumkvæði að umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig megi tryggja að orkufyrirtæki haldist í almannaeigu en gangi ekki kaupum og sölum á hlutabréfamarkaði eins og nú stefnir í varðandi Hitaveitu Suðurnesja."