Fara í efni

EN HVAÐ FINNST HÖFUNDI REYKJAVÍKURBRÉFS UM ÞENNAN MANN?


Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um síðastliðna helgi er athyglisvert. Það fjallar um stjórnarhætti í Rússlandi og þá sérstaklega undir Pútín núverandi  Rússlandsforseta. Spurt er hvort í fæðingu sé fasískt ríki í Rússíá. Greining Reykjavíkurbréfs á ástandinu í Rússlandi virðist mér vera trúverðug.

Greining Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins

Þar segir: "Fall Sovétríkjanna var heimsviðburður. Þeir, sem lengi höfðu fylgzt með á vettvangi alþjóðamála gátu ekki séð fyrir sér, að veldi kommúnista í Sovétríkjunum hryndi til grunna. Það gerðist hins vegar innan frá. Yeltsín varð hetjan. En í stjórnartíð Yeltsíns gerðist tvennt: Nokkrir einstaklingar náðu undir sig helztu auðæfum rússnesku þjóðarinnar í krafti svonefndrar einkavæðingar, sem bandarískir sérfræðingar hjálpuðu til við að koma á og stjórnleysi varð algjört.
Þegar horft er á þróun mála utan frá hefur Pútín unnið að tvennu; annars vegar að ná aftur þeim auðæfum, sem bæði rússnesku ólígarkarnir og vestræn stórfyrirtæki náðu undir sig og hins vegar að koma festu á stjórn þessa víðfeðma lands. Forsetanum hefur tekizt að koma ólígörkunum á kné. Þeir eru ekki lengur það afl, sem þeir voru í Rússlandi. Honum hefur líka tekizt að ná rússneskum auðlindum úr höndum vestrænna stórfyrirtækja með því að setja þeim afarkosti. Og loks hefur hann komið á einhvers konar festu í stjórnarháttum.
En hvernig hefur hann gert það?
Frá sjónarhóli Garrí Kasparovs, sem dvalið hefur hér á landi síðustu daga í fríi með íslenzkum vinum sínum, hefur Pútín gert þetta með því að gera Rússland að mafíuríki."
Og rússneska mafían og vestræn fyrirtæki hagnast á velvildarbandalagi þeirra í millum segir Kasparov.

Hverjir hugsa einsog Pútín?

En ég spyr, hverjir aðrir skyldu tala pólitískt tungumál Pútíns Rússlandsforseti, sem vel að merkja var fyrr á tíð yfirmaður KGB í Austur- Þýksalandi? (Hverju bjuggust menn eiginlega við af slíkum manni með hliðsjón af ferli hans?). Sá maður sem helst sver sig í pólitíska ætt við Pútín er að sjálfsögðu George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sonur Bush fyrrum forseta og yfirmanns CIA, bandarísku leyniþjónustunnar. Bush núverandi forseti á sem kunnugt er í heilögu stríði gegn hryðjuverkaöflum heimsins, les: Öllum þeim sem ógna hagsmunum Bandaríkjanna, les aftur, bandarískra auðhringa og hernaðarhagsmuna. Einnig hann hefur gripið til fasískra vinnubragða. Í baráttunni gegn "andstæðingnum" er allt leyfilegt: Að hlera og njósna, fangelsa án dóms og laga (sbr.Patriot Act), stunda mannrán og beita pyntingum. Undir hans stjórn var kjarnorkuvopnakapphlaupið að nýju sett á fullan skrið (sbr. uppsögn ABM samningsins) og sérstök krafa sett fram um að Bandaríkin yrðu ætíð undanþegin hvers kyns ákærum um stríðsglæpi! Í stjórnunarstöður í bandaríska utanríkisráðuneytinu í valdatíð Bush hafa verið settir til áhrifa ofstækismenn og má nefna þar ófá dæmi, John Bolton var t.d. gerður að sendirherra hjá SÞ, maður sem hataðist út í þá stofnun og í utanríkisráðuneytið menn á borð við Richard Perle sem "þakkaði Guði fyrir dauða Sameinuðu þjóðanna", "Thank God for the death of the UN." í grein í bresku stórblaði á meðan hann enn var innsti koppur í búri í bandaríska utanríkisráðuneytinu. (Sjá tilvísanir að neðan)

Bandarískur fasismi

Listinn er óendanlegur. Spyrja má hvort Morgunblaðið hafi kynnt sér stefnuskrá New American Century, samtakanna sem allir helstu stuðningsmenn Bush forseta áttu hlut að undir síðustu aldamót. Ef þetta voru/eru ekki fasísk samtök þá veit ég ekki hvað fasismi er og þá ekki heldur neitt um sagnfræði. Þó var reynt að kenna mér hana í nokkur ár við háskólann í Edinborg á öldinni sem leið. Þar las ég m.a. um fasisma á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, aðferðafræði Hitlers og félaga. Ég þykist skilja mæta vel spurningar og vangaveltur Morgunblaðsins sem fram koma í eftirfarandi klausu úr fyrr ívitnuðu Reykjavíkurbréfi:

Adolf og nútíminn – hvernig verður spurt?

"Sú var tíðin, að forystumenn lýðræðisríkja á Vesturlöndum sóttu Adolf Hitler heim en þegar upp var staðið kom í ljós, að glæpamaður hafði setið í stól kanslara Þýzkalands. Er hugsanlegt að framtíðin eigi eftir að leiða í ljós, að Kasparov hafi haft rétt fyrir sér? Að Rússlandi sé í raun stjórnað af mafíu gamalla KGB-manna og stuðningsmanna þeirra? Það er ekki hægt að útiloka það."
Nú spyr ég hvort einhvern tímann verði sagt: "Sú var tíðin að Íslendingar gengu á eftir því við bandarísk stjórnvöld að verja Ísland, en þegar upp var staðið kom í ljós að pólitískir glæpamenn fóru þá með völdin í Bandaríkjunum." 
 
Sjá nánast ótrúleg ummæli Johns Boltons HÉR og HÉR
Sjá einnig hér tilvísan í New American Century HÉR og  HÉR
Sjá einnig HÉR og HÉR og HÉR