FANN RÍKISSTJÓRNIN BAKDYR Á REYKJANESI?
Guðlaugur Þór þórðarson, sem starfar í umboði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, hefur sætt mikilli gagnrýni í þjóðfélaginu að undanförnu fyrir að innleiða ný gjöld og álögur á sjúklinga og fyrir markvissar tilraunir til að einkavæða heilbrigðisþjónustuna.
Nú er ekki svo að skilja, að ekki megi gera skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni. Þvert á móti þarf allt skipulagsform þar að vera í stöðugri endurskoðun. Þess vegna hef ég verið í hópi þeirra sem hafa viljað gaumgæfa hugmyndir ráðherrans sem nú eru til umræðu. Sá hængur er hins vegar á að tillögurnar virðast ekkert eiga vera til umræðu heldur sé ráðherrann búinn að taka ákvörðun umræðulaust um þá þætti sem umdeildastir eru!
Hvers vegna skyldi Guðlaugur Þór ekki hafa treyst sér til að efna til opinnar umræðu um kosti og galla hugmynda sinna? Gæti það verið vegna þess að óhreint mjöl er í pokahorninu; að það sem okkur er sagt vera gert til hagræðis og einföldunar sé þegar allt kemur til alls þjónusta við peningamenn sem eina ferðina enn eru að leita leiða til að hagnast á kostnað skattborgarans?
Lengi hefur verið vitað að Róbert nokkur Wessman hefur verið að reyna að þröngva sér inn í heilbrigðisþjónustuna. Þannig „gaf" hann á sínum tíma Háskólanum í Reykjavík stórar fúlgur til að komast til áhrifa á heilbrigðissviði skólans. Síðan voru getgátur um að í framhaldinu væri horft til einkasjúkrahúss. Væri þar komin skýring á ummælum Guðlaugs Þórs um að einkaaðilar ættu að sinna kennslu- og rannsóknarhlutverki ekki síður en opinberir aðilar og að sjálfsögðu ætti að greiða götu þeirra inn eftir spítalagöngum landsins.
Og viti menn! Ekki alls fyrir löngu sást Róbert á sprangi um ganga sjúkrahússins í Reykjanesbæ. Það er einmitt sú stofnun sem á að fá verkefnin sem Guðlaugur Þór er nú að færa frá Hafnarfirði við lokun St. Jósefs Spítala. Þessi verkefni eiga semsagt að fara á Reykjanesið þar sem téður Róbert bíður með opinn faðminn!
Þetta staðfestir bæjarstjórinn, Árni Sigfússon, í viðtali á mbl.is í gær: Jú, Róbert Wessman er vissulega „ágætlega inni í myndinni" segir bæjarstjóri, greinlega ánægður með flokksbróður sinn í heilbrigðisráðuneytinu.
Ég hvet alla til að hlusta á þetta viðtal. Síðan skulum við bretta upp ermarnar og gera Guðlaugi Þór, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni grein fyrir því að við erum búin að fá nóg af því að láta gróðapunga féfletta okkur.
Viðtalið er hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/08/baerinn_vill_verja_sjukrahusid/
Eftirfarandi eru nokkrar tilvísanir í skrif um skylt efni hér á síðunni. Greinarnar eru þó miklu fleiri. Ég sleppi flestum greinum með tilvísun til Samfylkingarinnar. Þær voru skrifaðar á þeim tíma sem ég taldi eitthvert lið vera í Samfylkingunni. Með öðrum orðum, áður en ég gerði mér grein fyrir að hún lét sér í léttu rúmi liggja þótt heilbrigðisþjónustan væri boðin út og einkavædd. Það var dapuleg uppgötvun.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gudlaugur-thor-rangfaerir
https://www.ogmundur.is/is/greinar/samfagnar-oll-samfylkingin-heilbrigdisradherra https://www.ogmundur.is/is/greinar/heilbrigdisthjonustunni-radid-heilt
https://www.ogmundur.is/is/greinar/peningar-eda-mannud
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gudlaugur-thor-og-thogli-felaginn
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjalfstaedisflokkur-undirbyr-einkavinavaedingu-a-landspitala
https://www.ogmundur.is/is/greinar/adferdafraedin-vid-einkavaedingu-heilbrigdiskerfisins
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjalfstaedisflokkurinn-byrjadur-ad-einkavaeda-heilbrigdiskerfid
https://www.ogmundur.is/is/greinar/landspitali-sveltur-a-medan-einkavaedingin-er-undirbuin
https://www.ogmundur.is/is/greinar/varnadarord-forstjora-landspitala-haskolasjukrahuss
https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-adforin-ad-heilbrigdiskerfinu-ad-hefjast
https://www.ogmundur.is/is/greinar/heilbrigdisradherra-a-ahorfendabekk