Fara í efni

FRJÁLSLYNDI EKKI SAMA OG FRJÁLSHYGGJA

Jón Steinar Gunnlaugs - bókarkápa
Jón Steinar Gunnlaugs - bókarkápa
Ég ætla ekki að gerast boxari innan kaðlanna hjá Jóni Steinari Gunnlaugsssyni , nýbökuðum sjálfsævisöguritra, en augljóst er að nýútkomin bók hans gerir meira en gára vatnið, sem reyndar aldrei hefur verið neitt sérlega lygnt í kringum Jón Steinar.

Kannski er það vegna þess að fólki af minni kynslóð er eiginlegt að bera virðingu fyrir bókum og finnst að það sem sagt er á bók skuli standast, að mig langar til að leiðrétta eina litla skekkju sem snýr að mér í hinni nýútkomnu bók, Í krafti sannfæringar .
Höfundur segir nefnilega að hann hafi heyrt mig í viðtalsþætti í sjónvarpi  lýsa sjálfum mér sem blöndu af sósíalista, anarkista og frjálshyggjumanni. "Ekki man ég hvernig honum tókst að raða þessu saman í þættinum ", segir Jón Steinar. Ekki að undra því þetta hef ég aldrei sagt!

Ég hef hins vegar lýst því svo að rætur lífssýnar mínar liggji í sósíalisma, þ.e. er jöfnuði og lýðræði, anarkisma, þ.e. andstöðu við valdstjórn og síðan frelsi einstaklingisins og frjálslyndi og í því sambandi hef ég jafnan bent á guðföður bresks 19. aldar líberalisma, John Stuart Mill, sem vildi að hver maður væri fjáls svo fremi hann skaðaði ekki aðra.
Þess má og geta að John Stuart Mill var helstur talsmaður réttinda kvenna á sinni tíð í breskum stjórnmálum, þ.e. um og uppúr miðri 19. öld.

Þetta á ekkert skylt við frjálshyggju á okkar dögum þótt heimspekilegar rætur frjálshyggjunnar nái vissulega inn í þessar lendur líka, þ.e. líberalismann og reyndar einnig anarkismann.

Þessu hef ég margoft gert grein fyrir og tíni ég hérað neðan,  af handahófi, til þrjár slóðir þar sem ég skýri þessi sjónarmið nánar. Af þessu má sjá - og reyndar allri framgöngu minni í stjórnmálum fyrr og síðar  - að frjálshyggjumaður hef ég ALDREI verið og ekki að undra að það hafi vafist fyrir frænda mínum, Eimreiðarmanninum, Jóni Steinari Gunnlaugssyni að koma því heim og saman að svo gæti hafa verið.
Ég legg hins vegar mikið upp úr frelsi einstaklingsins og tel frjálslyndi til dyggða enda hef ég óbeit á kreddum og hjarðhegðun.

Til gamans má geta þess að Eimreiðarhópurinn hér á landi - báknið burt hópur þeirra Jóns Steinars, Davíðs, Friðriks Sophussonar, Geirs Haarde, Hannesar Hólmsteins, Þorsteins Pálssonar, Brynjólfs Bjarnasonar, Kjartans Gunnarssonar  .... -  hefði í Bandaríkjunum ekki verið kenndur við líberalisma eða frjálslyndisstefnu heldur íhaldsstefnu og hinir róttæku frjálshyggjumenn einsog framangreindir einstaklingar hefðu verið kallaði ný-íhaldsmenn, neo- conservatives.

Þannig að menn fari varlega í að hafa frjálslyndisstimpilinn af okkur vinstri mönnum!  Okkar rauði þráður er að verja frelsi einstaklingsins. Það hafa menn ekki alltaf skilið á vinstri vængnum. En það er önnur saga. Og miklu lengri saga en svo að hún verði sögð í örpistli einsog þessum. En kannski verður hún einhvern tímann sögð.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/voldin-hafa-faerst-til-audmanna

https://www.ogmundur.is/is/greinar/vart-saemandi-ofstaeki

https://www.ogmundur.is/is/greinar/reglustrikufolkid-og-leo-tolstoy