Fara í efni

GUÐLAUGUR, GOSIÐ OG LÝÐHEILSUSTÖÐ


Mikið er það annars ánægjulegt hve áhugasamur Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, er um lýðheilsumál. Í fréttum í kvöld kom fram að sérstaklega væri honum mikið mál að styrkja Lýðheilsustöð. Ný löggjöf á döfinni þar að lútandi, starfshópar stofnaðir og bókstaflega allt á fullu.  Þetta minnir mig svolítið á lúðrablásturinn á fréttamannafundunum þegar Lýðheilsustöðin var sett á laggirnar; stofnun sem á meðal annars átti – og á  - að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um lýðheilsumál. Til dæmis um skattlagningu á hollustuvörum og óhollustunni einnig. Síðasliðið vor var virðisaukaskattur og vörugjöld færð niður á matvöru. Langmest á gosdrykkjum. Lýðheilsustöð mótmælti. Guðlaugur Þór og félagar lögðu við hlustir. Ekki eftir boðskap Lýðheilsustöðvar. Þeir hlustuðu á framleiðendur og sölumenn gosdrykkja. Allt er þetta nú gleymt og grafið? Líka í minni fjölmiðla. Nema þeir hafi ekki áhuga á að muna. En heyrði ég það rétt hermt í fréttum að það væru kaupmenn sem ættu að koma meira að rekstri og stjórnun Lýðheilsustöðvar samkvæmt nýboðuðu frumvarpi? Skyldu það vera forsvarsmenn gosdrykkjaiðnaðarins?

Sjá HÉR og HÉR og HÉR og HÉR