Fara í efni

UNDARLEG (FLUGVALLAR)UMRÆÐA

Borgarstjórn 1
Borgarstjórn 1

Kosningabaráttan - ekki síst í Reykjavík - hefur orðið málefnasnauðari en efni standa til. Menn tala um að leysa þurfi húsnæðisvandann og efla þurfi leigumarkaðinn. Og áherslan hefur verið á markað. Það er hins vegar engin lausn og sakna ég þess að ekki sé talað meira um mikilvægi þess að auka framboð á húsnæði á vegum Félagsbústaða og setja þar fram raunhæf markmið. Það skal þó sagt að Dögun hefur sett fram sannfærandi áætlun í þessu efni og ber að þakka það.

Sama um leikskólann. Þar hefur skort á málefnalega umræðu um hvernig eigi að efla þetta skólastig og ná þar gjaldfrelsi. Einnig hefur skort umræðu um hvernig eigi að brúa bilið frá fæðingarorlofi til leikskóla sem er brýnt mál eins og VG hefur ítrekað bent á og gert að forgangsatriði góðu heilli. Tekjutenging Dögunar sem millibilsástand er í senn raunsæ og sanngjörn en að sjálfsögðu á þetta skólastig að verða gjaldfrjálst þegar upp er staðið.  

Annars vil ég hér staldra við ummæli sem voru látin falla á Sprengisandi Sigurjóns Egilssonar á uppstigningardagsmorgun. Þar vísaði sá ágæti maður Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík, til samkomulags sem ég undirritaði sem þáverandi innanríkisráðherra  og hafi meðal annars falið í sér lokun norðaustur/norðvestur brautar. Honum láðist hins vegar að geta þess að þetta samkomulag frá fyrirhluta árs 2013, var að engu gert því það var háð skýrum fyrirvörum sem ekki hefur verið staðið við.

Hálfu ári eftir að ég undirritaði samkomulagið var málið sett í allt annað ferli þegar núverandi innanríkisráðhera og fulltrúar Reykjavíkurborgar ýttu Isavia ( umsýsluaðila ríkisins) út úr samráðsferlunum og fengu þar í staðinn einstakan rekstraraðila í fluginu, Icelandair Group, til að „leita sáttar" sem verktakar gætu sætt sig við í ljósi þeirrar stöðu sem upp var kominn eftir að ljóst var að ríkjandi öfl í borginni voru, samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum, í myljandi minnihluta í flugvallarmálinu.
Mér býður í grun sá yfirgnæfandi meirihluti sem vill flugvöllinn óhreyfðan, hafi lítinn áhuga á að eyðileggja Skerjafjörðinn til að rýma fyrir byggingarlandi og þóknast þannig  verktakabransanum eins og heyrst hefur að gæti orðið „lausn".  

Nú tala frambjóðendur um „sáttanefnd" og „sáttaferli" og vísa þannig í framvinu mála eftir að innanríkisráðherra og borgaryfirvöld hlupu frá samkomulaginu sem undirritað hafði verið og tryggilega skilyrt - einnig með tilliti til neyðarbrautarinnar sem áður er nefnd. Að þessari meintu sátt er unnið, sem kunnugt er, af hálfu nefndar undir formennsku þeirrar ágætu konu Rögnu Árnadóttur,  og á hún að leita að breyttu flugvallarsvæði með aðstoð aðkeyptra sérfræðinga.

Bagalegt er að þetta skuli ekki hafa fengið þá umræðu sem málefnið hefði verðskuldað. En fyrir vikið mega komandi borgaryfirvöld vita að umboð þeirra er nánast ekkert í málinu og standa eftir 70 þúsund undirskriftir sem vilja flugvöllin óhreyfðan og að verktakar ráði ekki skipulagsmálum í Reykjavík, sem því miður hefur verið um of.

Ég bið áhugasama um málefnið að lesa eftirfarandi https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-samkomulag-um-reykjavikurflugvoll

og https://www.ogmundur.is/is/greinar/samkomulagid-er-ekkert-samkomulag    

og https://www.ogmundur.is/is/greinar/enginn-flugvollur-ekkert-samkomulag