Fara í efni

UTANRÍKISMÁLAUMRÆÐAN: BETUR MÁ EF DUGA SKAL


Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði, flutti áhugavert erindi um Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna á opnum umræðufundi í Háskóla Íslands í dag. Erindi sitt flutti hún á fyrsta fundinum í röð funda um utanríkismál sem háskólarnir í landinu efna til að undirlagi utanríkisráðherra. Aðrir fyrirlesarar voru Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ og Alyson J.K.Bailes, gestakennari við HÍ, fyrrum framkvæmdastjóri sænsku rannsóknarstofnunarinnar SIPRI og sendiherra Breta í Finnlandi fyrr á tíð (ef ég heyrði rétt).
Ég nefni nafn Bjargar sérstaklega því mér þótt erindi hennar vera eina innleggið sem fjallaði um innihald en ekki bara umgjörð.
Fundaröðin hefur verið kynnt sem mikilvægt innlegg í stefnumótandi umræðu um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Ef þessi fundur er vísbending um það sem koma skal þá þurfa háskólarnir á Íslandi heldur betur að taka sig á vilji þeir á annað borð bjóða upp vandaða gagnrýna og vekjandi umræðu um utanríkismál, stöðu Íslands og stefnumótun á sviði utanríkismála. Þessi umræðufundur reis ekki undir væntingum og var langt frá því að vera á dýptina. Fyrst og fremst var fjallað um stofnanlega umgjörð utanríkisstefnunnar en ekki tekist á við þau mál sem helst brenna á okkar samtíma og mikilvægt er að efna til umræðu um..
Þannig var vísað til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar án þess að rædd væru þau brennandi átakamál sem þar hafa verið til umfjöllunar og sundrað hafa heiminum.
Vísað var til Evrópusambandsins án þess að ræða þau mál sem þar hefur verið tekist á um. Nefni ég þar umræður og átök um framtíð velferðar- og grunnþjónustu.
Vísað var til NAT'Ó án þess að rætt væri um stefnu þess bandalags, breyttar áherslur og hlutverk í breyttum heimi.
Þegar undirritaður óskaði eftir því að forsætisráðherra  og utanríkisráðherra tjáðu sig um það efni sagðist forsætisráðherrann þurfa að víkja af fundi en myndi án efa eiga orðastað við mig um þetta efni á Alþingi! Utanríkisráðherrann vék að fyrirspurn minni undir lok fundarins en svaraði henni ekki. Sagði að þessir fundir væru fyrst og fremst til að "örva háskólasamfélagið" en stjórnvöld myndu ekki koma beint að þessum fundum...
Á þessum fundi sem haldinn var í Hátíðasal Háskóla Íslands var tæpt á siðferðilegum álitamálum en því miður á mjög óhlutlægan hátt. Utanríkisráðherra sagði að við ættum að verja líf og limi en ræddi slíkt ekki í neinu hlutlægu samhengi, svo sem með tilvísan í Írak, Afganistan, Palestínu eða önnur áþreifanlega dæmi. Umfjöllunin um flesta efnisþætti var á þessum nótum á fundinum, skautað á yfirborðinu og vikist undan öllu því sem tengist pólitískri umræðu samtímans. Þrátt fyrir ágætt erindi Bjargar Thorarensen og með þeirri undantekningu, fannst mér með ólíkindum hve umræðan um Öryggisráðið var yfirborðsleg. Engin gagnrýnin analýsa á samþykktum ráðsins í tímans rás. Látið var nægja að tala um smáþjóðir annars vegar og stórveldi hins vegar. Þannig taldi Ingibjörg Sólrún, utanríkisráðherra, upp smáríkin í Evrópu sem ekki hefði sest í Öryggisráðið og spurði hvort  við vildum vera eins og þau og ekki axla ábyrgð. Virtist engu máli skipta í hennar huga – og sagði hún það – hvaða stjórn sæti að völdum á Íslandi. Við ættum bara að vera í Öryggisráðinu.

Í mínum huga skiptir öllu máli hvaða stefnu yrði framfylgt þar sem annars staðar þar sem við getum haft áhrif. Það er innihald en ekki umbúiðir sem máli skiptir.
Baldur Þórhallsson, prófessor, tók í erindi sínu mjög undir áherslur sem fram hafa komið hjá ISG um Evrópusambandið og  framboðið í Öryggisráðið. Hvað síðara atriðið snerti sagði hann að annars vegar væru þeir sem teldu að við hefðum ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa að framboði og setu í ráðinu, hins vegar hinir sem vildu að við öxluðum ábyrgð. Baldur glreymdi hinum pólitíska þræði, þ.e.a.s. stefnu Íslands og hvernig við best verðum fjármunum í þágu alþjóðasamfélagsins. Sú umræða virðist hafa farið framhjá Baldri. Dæmi um slík viðhorf má finna HÉR og  HÉR og HÉR og HÉR og HÉR og HÉR og HÉR og miklu víðar á þessari síðu einnig í umræðu á þingi og víðar.