Fara í efni

ÁFANGI Á LANGRI VEGFERÐ

Radstefna - kynferdisbrot IRR
Radstefna - kynferdisbrot IRR

„Innanríkisráðuneytið og Lagadeild Háskóla íslands munu halda áfram samstarfi til að stuðla að opinni, gagnrýnni og uppbyggilegri umræðu um meðferð kynferðisbrota innan réttarkerfisins og vilja þannig leggja sitt af mörkum til áframhaldandi vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi í íslensku samfélagi. Ráðstefnan sem hér er vitnað til bar þess merki að ríkur vilji sé til slíks samtals en það eitt og sér er mikilvægur áfangi í langri vegferð."

Þetta eru niðurlagsorð í grein eftir samstarfskonu mína í Innanríkisráðuneyti, Höllu Gunnarsdóttur og Róbert Spanó, forseta Lagadeildar Háskóla íslands, sem ber heitið Áskorun réttarkerfis og samfélags. Ráðstefnan sem vísað er til var haldin í janúar en að henni stóðu auk Innanríkisráðuneytis og Lagadeildar HÍ, Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr.

Guðrún Agnarsdóttir, læknir og fyrrum þingkona, sem hefur meiri reynslu af aðkomu heilbrigðiskerfisins að kynferðisafbrotum, sagði mér eftir ráðstefnuna, að hún væri í sínum huga söguleg fyrir þær sakir að þarna hefði farið fram frjó umræða á milli grasrótarsamtaka, réttarkerfisins, heilbrigðiskerfisins, löggæslunnar og menntakerfis. Erlent fræðafólk sem sótti ráðstefnuna tók í sama streng og tjáði mér  að samtal sem þetta væri forsenda þess að efla meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Fulltrúi innanríkisráðherra og forseti Lagadeildar Háskóla Íslands staðfesta þetta samfélagssamtal  með gein sinni í dag.

Fyrir ári síðan tók ég undir þær raddir sem sögðu að á skorti að „kerfin töluðu saman" í málefnum sem lúta að kynferðisbrotum. Ekki voru allir alls staðar sáttir við slíkar staðhæfingar og að ráðuneytið skyldi taka frumkvæði að þessari umræðu. Þær raddir hafa þagnað og samtalið er hafið. Það er gleðilegt því með slíku samtali eyðast fordómar og misskilningur og nýr veruleiki verður til.

Það er sá veruleiki sem ungur drengur kallaði eftir á ráðstefnu sem ég sótti suður í Rómarborg fyrir rúmu ári og skrifaði ég m.a. eftirfarandi:  

„...Um síðustu helgi sótti ég fund Evrópuráðsins um réttindi barna. Þessi ráðstefna var eins konar framhald á ráðstefnu sem ég sótti í Róm á síðasta ári. Sú ráðstefna hafði mikil áhrif á mig og þá ekki síst vegna þess að á henni komu fram ungmenni sem beitt höfðu verið kynferðislegu ofbeldi í æsku og sögðu sögu sína. Sérlega minnisstæður varð mér ungur franskur maður, Gael að nafni, sem sagði frá þrautagöngu við að fá mál sitt tekið fyrir dóm og þeim erfiðleikum sem hann þurfti að ganga í gegnum meðan á málsmeðferð stóð. En áður en að þessu kom hafði hann án árangurs beðið  „kerfið" um hjálp. Ekkert svar, engin viðbrögð, enginn sem hafði tekið í útrétta hönd hans.
Í framhaldinu varð þetta mér tilefni - margoft - til að efna til umræðu við fulltrúa íslenska réttarkerfisins um hvort og hvernig tekið væri í leitandi útrétta, barnshönd sem bæðist hjálpar hér á landi; værum  við nægilega vel vakandi?..."
sjá nánar:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/evropuradid-og-rettindi-barna