ÁFRAM VEGINN Í VAGNINUM EK ÉG...
Í umræðu um frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra um nýja Sjúkratrygginga- og innkaupastofnun, staðhæfa stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að með því að færa heilbrigðiskerfið inn í viðskiptaumhverfi og nýta sér m.a. útboð á þjónustu muni heilbrigðisþjónustan eflast og verða fjölbreyttari og jafnframt ódýrari. Jafnvel er um það rætt að lítil sjúkrahús á landsbyggðinni muni eflast. Reynslan sýnir að ekkert af þessu muni ganga eftir.
Líklegt er að til verði nokkrar einokunarblokkir, öflugastar á höfuðborgarsvæðinu, draga muni úr getu almannaþjónustunnar og hagur smárra sjúkrahúsa á landbyggðinni versni. Þetta er því miður líklegt - þegar til lengri tíma er litið.
Staðreyndin er nefnilega sú að með markaðsvæðingu verða ekki til meiri fjármunir úr almannasjóðum heldur minni og allt tal um að beina fjármagni á Blönduós, Hólmavík eða til Hafnar er í hrópandi mótsögn við markaðs/útboðsmódelið.
Dæmin hræða. Árið 1996 var rafmagnseftirlitið í landinu einkavætt. Það heyrði þá undir þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Finn Ingólfsson. Hann vísaði á bug fullyrðingum okkar á þingi sem sögðum að einkavæðingin myndi leiða til þess að einkavæddir eftirlitsaðilar yrðu fáir og í einokandi stöðu, að öllum líkindum allir á höfuðborgarsvæðinu. Rafmagnseftirliti myndi jafnframt hraka. Finnur kvað þetta forpokaðar og fórdómafullar fullyrðingar, eftirlitsaðilar yrðu um allt land og eftirlitið myndi eflast.
Nú deila fáir um að eftirlitinu hefur stórhrakað. Og skattborgarinn fær minna fyrir hverja krónu. Tvö fyrirtæki í einokandi aðstöðu sinna þessu hlutverki. Hið stærra heitir Frumherji. Að sögn gerir eigandi Frumherja það gott í bransanum sem lítur eftir einkavæddu rafmagni. Hann heitir Finnur Ingólfsson.Bankarnir, rafmagnseftirlitið, síminn... og nú heilbrigðiskerfið.
Fjárfestar eru þegar komnir með vatn í munninn. Áfram veginn í vagninum ek ég söng Stefán Íslandi...
Sjá eldri umfjöllun hér um einkavæðingu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/svakalega-sattir-en-hvad-naest