Auglýsingavald – Að kaupa sjálfan sig - Er vilji til enn meiri framfara?
Hér á síðunni voru fyrir nokkrum dögum reifaðar keninngar um valdatafl í Norðurljósum – og Stjórnarráði. Lesandi hafði spurt hvort verið gæti að sáttagjörð væri í smíðum á milli Norðurljósa og Stjórnarráðsins og væri þar komin skýringin á brottvikningu Sigurðar G. Guðjónssonar frá Norðurljósum. Í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu um síðustu helgi eru líkur leiddar að því að einmitt þetta hafi verið að gerast. En það var margt annað merkilegt og umhugsunarvert sem fram kom í grein Agnesar. Ég staldraði t.d. við eftirfarandi í framhaldi af vangaveltum Agnesar um fyrrnefnda kenningu: Aðrir gefa lítið fyrir kenningu sem þessa og segja að Jón Ásgeir hafi aldrei verið sáttur við Sigurð og að sú andúð eigi sér alllanga sögu. Meðal annars hafi Jón Ásgeir verið síður en svo ánægður með viðtal sem þau Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Þórhallur Gunnarsson áttu við Jóhannes í Bónus um verðlagningu, í þættinum Ísland í bítið, eftir að Sigurður varð forstjóri og Jón Ásgeir brást við með þeim hætti að hóta því að Baugur og fyrirtæki hans hættu að auglýsa hjá Stöð 2. Eigendavald skiptir máli. Auglýsingagavald skiptir máli. En hvort skyldi skipta meira máli eigendavald eða auglýsingavald?
Þegar keypt er með hlut í sjálfum sér
... Það var Jón Ásgeir sem átti hugmyndina að því að Norðurljós fjárfestu í bréfum Og Vodafone. Menn gátu séð skynsemi í því, að Norðurljós, sem ljósvakafyrirtæki, ættu hluta í símafyrirtæki og öfugt, þótt ekki væru allir sannfærðir um ágæti þess að símafyrirtækið ætti ljósvakafyrirtækið með öllu, eins og nú er orðin raunin... Það vakti mikla athygli að Norðurljós skyldu hafa burði til slíkrar fjárfestingar, jafn skuldsett og félagið var. Það skal upplýst hér, að það var Landsbankinn sem lánaði Norðurljósum 70% þeirrar upphæðar, eða 3,6 milljarða króna... og Baugur sjálfur lánaði það sem á vantaði, eða 1,6 milljarða króna. Síðan voru Norðurljós seld Og Vodafone á 3,6 milljarða króna í októberlok og Og Vodafone greiddi fyrir þau kaup með hlutabréfum í sjálfu sér...
Eins og lesa má út úr þessu á sér stað geysileg verðmætaaukning í atvinnulífinu. Menn fást við að skapa verðmæti frá morgni til kvölds...
Það hlýtur að teljast afar líklegt, að kaupverðið hafi verið of hátt, því samkvæmt árshlutareikningi Norðurljósa 30. september sl. kemur fram að taprekstur samstæðunnar fyrstu níu mánuði þessa árs nam 1,9 milljörðum króna og hafði meira en fjórfaldast frá árinu 2003, þegar tapið nam 450 milljónum króna. Aðalskýring þessa mikla taps er tap á sölunni á hlutabréfum Skífunnar/BT, liðlega 1,2 milljarðar króna, sem voru sameinuð seld á um 2,6 milljarða króna, en Jón Ólafsson hafði selt Norðurljósum Skífuna á 2,8 milljarða króna og Norðurljós höfðu greitt einn milljarð króna fyrir BT. Samtals hafði þessi fjárfesting kostað Norðurljós 3,8 milljarða króna. Auk þess eru menn almennt sammála um að kaupverðið á Frétt hafi verið mörg hundruð milljónum króna of hátt...
Þarf ekki að drífa í því að einkavæða Ríkisútvarpið svo einnig þar verði hægt að skapa verðmæti og leggja grunn að enn stórstígari framförum í útvarps- og sjónvarpsrekstri?
Hér er fyrri umfjöllun.