Fara í efni

BROTAVILJI ÁRIÐ 2002 OG ÁRIÐ 2017

Buntid
Buntid

Árið 2002 voru Búnaðarbankinn og Landsbankinn "seldir". Einkavæðing þessara ríkisbanka hófst í reynd árið 1998 með einkavæðingu Fjáfestingabanka atvinnulífsins sem síðar rann inn í Íslandsbanka. Í næsta stóráfanga voru Landsbankinn og Búnaðarbankinn einkavæddir þegar ríkið seldi eignarhaldsfélaginu Samson 45,8% hlut sinn í Landsbanakanum í október 2002  fyrir 12,3 milljarða. Í nóvember þetta ár  seldi ríkið 45,8% hlut sinn í Búanaðarbankanum til S-hópsins.

Þá breyttist eignarhaldið en margt hefur verið á huldu um tilfærslur í tengslum við þessi viðskipti, að ekki sé minnst á endanlegt uppgjör helstu gerenda sem enn virðast standa keikir þrátt fyrir hrun.

Í opinberri umræðu nú vegna ransóknar á tengslum þýska bankans Hauck og Afhäuser við einkavæðingu Búnaðarbankans, segjast ýmsir fyrrum ráðamenn koma af fjöllum, ekkert af þessu hafi verið vitað sem nú komi fram um sviksemi.

Vissulega eru nýjar staðreyndir að birtast okkur enda lágu þær ekki fyrir þegar rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér árið 2010. Hitt er ljóst að ámælisvert er, svo ekki sé dýpra tekið í árinni, af hve miklu alvöruleysi og linkind var tekið á þessum málum allar götur frá því einkavæðingin átti sér stað og fram undir hrun því grunsemdir og vísbendingar lágu allar í loftinu.

Sjálfur beindi ég á Alþingi fyrirspurn til viðskiptaráðherra um aðkomu Hauck og Afhäuser bankans að einkavæðingu Búnaðarbankansog, sem nú hefur verið afhjúpuð sem málamyndagerningur. Meira en það byggði á yfirveguðum ásetningi og brotavilja. Í svari ráðherra var vísað í eftirlitsstofnanir sem ekkert sáu aðfinnsluvert, sbr. http://www.althingi.is/altext/132/s/1273.html

Áður hafði ég í ótal greinum og í opinberri umræðu innan þings og utan vakið máls á tilfæringum í fjármálabraski, m.a. með opinberar eignir og læt ég hér fylgja tvær slóðir til að minna á viðfangsefni þessara skrifa en þetta er aðeins örlítið sýnishorn.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/framsoknarfolk-i-fyrirrumi

https://www.ogmundur.is/is/greinar/fjarfestingarmoguleikar-framundan-i-vatni-segja-framsoknarfjarfestar

Hin áleitna spurning nú er síðan þessi: Í ljósi þess að einkavæðing fyrri ára er eitt allsherjar spillingarklúður, hvers vegna er haldið áfram á þeirri braut? Hvers vegna selja banaka í eigu ríkisins. Brotavilji? Einbeitur brotavilji? Að þessu sinni af hálfu stjórnavala því nú verður ekki sagt, "þau vita ekki hvað þau gera!"

Rætt var við mig í morgunþættir Rásar 1 Ríkisútvarpsins í morgun rúmlega 20 mín. inn í þættinum: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/morgunvaktin/20170330