BURT MEÐ EFTIRLAUNALÖGIN
Sæll Ögmundur.
Ég er enn við sama heygarðhornið, búinn að senda þér fyrirspurn áður og búinn að ræða þetta persónulega við Atla Gíslason. þ.e. eftirlaunalögin frá 2003. Ég trúi ekki fyrr en ég fer í kjörklefan sem flokksbundinn VG að ég þurfi að snúa mér annað með atkvæði mitt þann 12.maí. Af hverju í ósköpunum takið þið ekki einn snúning á þessum ólögum, heitið að afnema þau, þið öll sem eitt. Þú sem aðrir verður að viðurkenna hverskonar mismunun þessi fjandi veldur bæði kynjaskipt, búsetuskipt og stéttskipt í þessu þjóðfélagi. Opnið nú augun, lofið þjóðinni þessu og þjóðin lofar ykkur með atkvæðum 12. maí. Loforð uppá 23-26% fylgi ef þið takið slaginn.
Kv.
Þórbergur Torfason, Hala
Heill og sæll Þórbergur. Ég vil byrja á því að biðja þig afsökunar á því að hafa ekki birt bréf þitt fyrir kosningar en því miður þá varð ekki úr því. Fyrir hönd frambjóðenda VG skrifaði ég hins vegar blaðagrein sem lýsti afstöðu okkar fyrir kosningarnar sbr. HÉR.
Því fer svo aftur fjarri að þetta sé úrelt umræða og því birti ég hér nú þín viðhorf. Sjálfur er ég hjartanlega sammála þér. Í mínum huga dugir ekkert annað en afnám þessara laga og er þar engin millileið að mínu mati.
Með bestu kveðju,
Ögmundur