EGILL OG BJÖRN Í SILFURSPJALLI
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, átti síðasta orðið í Silfri Egils í dag nema það hafi verið Egill sjálfur. Þeir voru nokkuð sammála félagarnir, höfðu miklar skoðanir, ekkert síður þáttastjórnandinn en gestur hans, þegar þeir ræddu um alþjóðastjórnmál, "brjálæðinginn", sem er forseti Írans, eins og Egill komst að orði, "öfgasamtökin" Hamas í Palestínu, nauðsyn á greiningardeild Björns Bjarnasonar hjá lögreglunni sem á að fjalla um landráð og greina hættur sem að okkur kunna að steðja í framtíðinni. Það síðastnefnda var í framhjáhlaupi og tjáði Egill sig ekki um það efni en fróðlegt hefði verið að heyra Björn færa rök fyrir því að stóri forræðishyggjubróðir hafi puttann á púlsinum – okkur til verndar gegn öllu illu með sérstakri greiningar- og landráðadeild innan lögreglunnar.
Reyndar varð Birni Bjarnasyni tíðrætt um mikilvægi þess að virða mismunandi menningarheima og þar með trúarbrögð. Hann bætti því við að þar með væri ekki sagt að við mættum ekki gagnrýna önnur trúarbrögð og isma. Eins gott að þetta fylgdi með því ella væri dómsmálaráðherrann heldur betur kominn í mótsögn við sjálfan sig eða hvað finnst lesendum um eftirfarandi ummæli ráðherra kirkjumála á fundi hjá KFUM hinn 17.mars í fyrra: "Enginn hér inni efast… um yfirburði kristinnar trúar gagnvart öðrum trúarbrögðum. Enginn krefst þess, að við séum umburðarlyndir gagnvart einræðisherrum en samkvæmt íslenskum stjórnlögum ber okkur hins vegar að virða önnur trúarbrögð eins og okkar eigin..." Í þessari ræðu sinni talaði Björn Bjarnason um stjórnarskrárvarinn rétt allra trúarbragða en mismunandi trúarfylkingum stillti hann engu að síður upp sem andstæðingum, samanber eftirfarandi: " Nú sækja aðrir ismar en marxisminn að kristnum viðhorfum og gildum, ekki síst í Evrópu. Með engum rökum er unnt að segja þann isma, sem mest lætur að sér kveða, standa nálægt kristni, miklu nær er að líta á hann sem andstæðing hennar. Líklegt er, að nú verði meira en áður hlustað eftir leiðsögn kristinna forystumanna…Við þurfum enn leiðtoga, sem ekki eru hálfvolgir í áhuganum, heldur brennandi í andanum - stórríka af heillandi gleði og lærisveina himnaríkis." (Sjá nánar HÉR)
Vill leggja mörg fangelsi niður!
Jónína Bjartmarz alþingismaður, Framsóknarflokki, mun hafa orðað það í Silfri Egils fyrir nokkru að Íslendingar ættu að krefjast þess að fangelsi Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu yrði lokað og skal engan undra. Ekki var laust við undrunarsvip á Birni Bjarnasyni. Þessi ummæli framsóknarþingmannsins höfðu farið framhjá dómsmálaráherra og sú spurning vaknaði hjá honum hvaða rök væru fyrir þessari afstöðu. Tilgreindi hún ástæður fyrir þessari afstöðu, spurði Björn Bjarnason! Síðan sagði hann áheyrendum að það væru mörg fangelsi í heiminum sem hann vildi loka og hvergi væru þessi fangelsismál meira umrædd en í Bandaríkjunum. Það er nú svo. Á æðstu stöðum, á meðal þeirra sem bera ábyrgð á pyntingunum í Guantanamó, er ekki gagnrýni fyrir að fara enda væri þá búið að loka fangelsunum. Verð ég að segja að furðu sætir að íslenskur ráðherra skuli ræða hin svívirðilegu mannréttindabrot Bandaríkjamanna í Guantanamó og annars staðar af eins miklu alvöruleysi og hér var gert.
Talið barst að gagnrýni Japanans Fukyama á innrásirnar í Afganistan og Írak. Fukyama varð heimsfrægur þegar hann setti fram þá kenningu að heimssögunni væri lokið og átti þá við að með sigri kapítalismans yfir sósíalismanum væri átakasögu mannkynsins lokið, samstaða væri um þann farveg sem framvindunni hefði verið beint inn í. Nú mun Fukyama hafa sagt að Vestrið hafi klúðrað sínum málum vegna þess hve illa innrásirnar hefðu verið unidirbúnar auk þess sem Vesturlandabúar ættu ekki að reyna að flytja út lýðræði með valdi. (Ég hef ekki lesið þessa krítík Fukyamas en á þessa leið var greint frá henni í þættinum eða þannig skildi ég það. Þetta er vissulega í samræmi við hugmyndir Japanans því hann trúir því að vestrænar hugmyndir um lýðræði og markaðshyggju muni sigra vegna yfirburða sinna, nokkuð sem margir, þar á meðal Harvard maðurinn, Samuel P. Huntington, höfundur The Clash of Civilizations and the Remaking of World Order telur alrangt. Hann staðhæfir: "The West won the world not by the superiority of its ideas or values or religion (to which few members of other civilizations were converted) but rather by its superiority in applying organised violence. Westerners often forget this fact; non-Westerners never do." Vestrið sigraði heiminn ekki vegna yfirburða í hugmyndum, gildum eða trúarbröðum (sem fáir snerust til fylgilags við) heldur vegna yfirburða í skipulögðu ofbeldi. Þessu gleyma Vesturlandabúar iðulega, aðrir gleyma því ekki.
Í þættinum voru þeir Björn Bjarnason og Egill Helgason helst á því að bandarískir ráðamenn hefðu verið of bjartsýnir, trúað því að allir myndu sjá ljósið þegar Bandaríkjamenn og fylgiríki þeirra mættu á vettvang með alla fínu hugmyndafræðina og allt manngildið. Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hvort menn séu virkilega búnir að gleyma því að Bush og félagar réðust inn í Írak í eiginhagsmunaskyni – til að styrkja heimsyfirráð Bandaríkjamanna. Hvað hugsjónir og manngildi snertir má að vísu ekki gleyma því að Bush telur sig vera einn af sendiboðum himnaríkis. Þetta er til skjalfest í bak og fyrir. Um þetta hefur margoft verið fjallað í heimspressunni en það er eins og það fari inn um eitt eyrað og út um hitt hjá fjölmiðlamönnum í okkar heimshluta. Getur verið að áform Bush klíkunnar hafi verið of ótrúlega bíræfin til þess að menn leggi á þau trúnað? Hér er ein af mörgum umfjöllunum um þetta efni HÉR á síðunni.
Ofstæki Hamas
Hamas samtökin í Palestínu hafa löngum haldið uppi harðri baráttu gegn ísraelska hernámsliðinu þar. Hamas hefur viljað eitt ríki í Palestínu, regnhlíf yfir bæði Palestínumenn og Ísraela. Um eins árs skeið hefur Hamas hins vegar virt einhliða vopnahlé – einhliða því ekki hefur verið látið af árásum ísraelska hersins á stöðvar og forsvarsmenn Hamas. Ismail Haniya, leiðtogi Hamas segist vilja frið. Hið sama segir þorri kjósenda Hamas samkvæmt skoðanakönnunum. Ismail Haniya verðum við að taka trúanlegan, sagði ég nýlega í pistli hér á síðunni, einfaldlega vegna þess að það hefðu Pelstínumenn gert í nýafstöðnum lýðræðislegum kosningum: "Horfum í eigin barm. Hvernig værum við stemmd ef hvað eftir annað hefði verið ráðist á heimili okkar með eldflaugaárásum; sonur okkar myrtur og eiginkona lömuð. Við hefðum síðan orðið sigurvegarar í frjálsum kosningum þar sem þátttaka var 77% við eins erfiðar aðstæður og hugsast getur. Að kosningum loknum hefði okkur verið meinað að sækja þingfund – allt þetta af erlendu hernámsliði, sem segði að ófært væri að ræða við okkur því við neituðum að afvopnast! Nákvæmlega þetta er hlutskipti leiðtoga Hamas, Ismail Haniya."
Þetta er sjónarhorn sem ég saknaði í umræðum þeirra Egils Helgasonar og Björns Bjarnasonar í Silfrinu í dag. Annað sem hefði að sjálfsögðu mátt nefna, fyrst ofstæki og ofbeldi í Palestínu var til umræðu, er að sá sem fyrst og fremst hlýtur að teljast ábyrgur í þessu efni er Ísraelsríki sem um áratugaskeið hefur haldið stórum hlutum Palestínu hernumdum og íbúunum í gíslingu, með gegndarlausu ofbeldi þvert á samþykktir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðaskuldbindingar um mannréttindi. Sjá nánar HÉR.