Fara í efni

ENGIN SKERÐING?

snoðkollur 2
snoðkollur 2

Á fundi fulltrúa fjármálaráðuneytisins með stjórnarandstöðunni á Alþingi í dag, var okkur kynnt nýtt samkomulag, um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Sagt var að samkomulagið væru gleðileg tíðindi því ekki hafi þurft að „fórna neinum réttindum."

Þetta er rétt. Það er að segja ef átt er við samningafólkið beggja vegna borðsins. Það fórnar engu. Það er hins vegar fórnað á kostnað komandi kynslóða og hlýtur að teljast nokkur nýlunda.

Á móti lífeyrisskerðingunni - sem enginn deilir um að er gríðarleg og talin í milljarðatugum - eiga að koma vélrænar kauphækkanir til opinberra starfsmanna til að jafna stöðu þeirra á við það sem gerist á almenna markaðnum. Ekki hef ég trú á slíku vélgengi. 

Vandinn er svo sá að stórir hópar hjá hinu opinbera eru vissulega lakar settir en gerist á almennum markaði en hið gagnstæða er líka til í dæminu. Ef alhæft er, þá er hærri hluti launakerfisins hjá hinu opinbera sennilega lakar settur en hið gagnstæða á við um þá lægri. Þetta er ekki algild regla en vegna þessa hafa samtök langskólafólks yfirleitt verið hlynntari samræmingu en samtök þeirra, sem standa vörð um lágtekjufólkið.

Nú virðast heildarsamtökin hafa náð saman. En um hvað? Að verja eigin kjör? Mér sýnist það.

Sjá ennfremur: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-skerda-lifeyrisrettindin 
https://www.ogmundur.is/is/greinar/viljum-vid-vera-vel