ESB REYNIR Á VG
Í dag var samþykkt á Alþingi að Ísland gengi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Vinstrihreyfingin grænt framboð á þingi klofnaði í málinu. Nokkrir þingmenn studdu tillögu um tvöfalda atkvæðagreiðslu, það er að fyrst yrði þjóðin spurð hvort hún vildi sækja um aðild og síðan yrði kosið um niðurstöðuna. Lengi vel var ég á þessu máli enda hef ég alltaf talið að í grundvallaratriðum lægi ljóst fyrir hvað í boði væri fyrir Ísland og þyrfti engar könnunarviðræður til að leiða það í ljós. En þótt ég hafi verið þessarar skoðunar hafa aðrir haft allt aðra sýn og viljað láta reyna á hvað við fengjum við viðræðuborð. En þótt ég sé á þessu máli eru margir annarrar skoðunar og vilja láta reyna á í viðræðum hvað við fengjum. Gott og vel, þá gerum við það. Þannig hef ég hugsað síðustu misserin. Þess vegna var ég reiðubúinn að fylgja þeirri tillögu að ná í samningsdrög til að kjósa um.
Í ræðu minni á Alþingi í gær gerði ég grein fyrir þessari afstöðu minni. Jafnframt því hve arfavitlaust ég teldi það vera að ganga inn í ESB.
Er einhver mótsögn í þessu? Nei, ekki nokkur.
Er ég að ganga á bak orða minna gagnvart kjósendum? Nei, þetta hef ég sagt frá því á síðasta ári og í aðdraganda kosninganna.
Tel ég þetta veikja stöðu ESB andstæðinga? Nei, þetta styrkir hana. Tvennar kosningar þar sem meirihlutinn hefði viljað "láta á reyna" hefði fært þröskuldinn niður og auðveldað ESB sinnum trúboðið.
Er ég viss um þetta? Já. Fyrir þessu hef ég sannfæringu.
Hinu breytir þetta ekki að í VG er margir annarrar skoðunar. Svo mikið reyndar að hriktir í. Það þykir mér slæmt og gerir mig dapran í sinni. En kemur dagur eftir þennan dag. Í baráttunni hafa leiðir nefnilega ekki skilið. Í stað þess að sundrast eigum við að þjappa okkur saman um sameiginlegt málefni. Sem aldrei fyrr!
Mín afstaða á þingi:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090715T174420&horfa=1
https://www.ogmundur.is/is/greinar/audvitad-kjosum-vid-um-evropusambandid
https://www.ogmundur.is/is/greinar/kjosum-um-nato