FORÐUMST ALHÆFINGAR - LÍKA UM DAVÍÐ!
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á stjórnkerfi Seðlabankans. Í nýlokinni viku fór fram fyrsta umræða af þremur á Alþingi um frumvarpið. Í því er m.a. gert ráð fyrir því að stjórendum bankans verði fækkað. Það hefur í för með sér að stöður þeirra sem nú gegna störfum seðlabankastjóra verða lagðar niður.
Litið var rætt um inntak þessa frumvarps af hálfu Sjálfstæðisflokks (sem nú er að reyna að læra að vera í stjórnarandstöðu og gengur illa).
Engin annarleg sjónarmið
Sjálfstæðismenn telja að frumvarpið sé fyrst og fremst sett fram til að koma Davíð Oddssyni seðlabankastjóra frá völdum. Ég skil þessar vangaveltur en ætla að frábiðja allar aðdróttanir um annarleg sjónarmið af minni hálfu. Ég var sérstaklega kallaður til umræðunnar af hálfu einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, spurður um hvort ég ætlaði ekki að verja seðlabankastjóra einsog ég gerði jafnan þegar launafólk ætti í hlut. Ég kom til þings og svaraði fyrir mig. (http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090206T133253&horfa=1) Það gladdi mig þegar lesandi síðunnar vakti einmitt athygli á því að varla yrði ég sakaður um að láta ekki málefnaleg sjónarmið ráða í samskiptum við menn, þar á meðal seðlabankastjóra(https://www.ogmundur.is/is/greinar/ad-kunna-sig-og-ekki ).
Gerður að blóraböggli
Hitt er svo annað mál að ég hef um áratugaskeið verið í hópi eindregnustu gagnrýnenda Davíðs Oddssonar enda var hann forsætisráðherra þegar einkavæðingunni var ruddur farvegur. Fyrir þetta gagnrýndi ég Davíð Oddsson stöðugt og mjög ákveðið. Að mínu mati var sú gagnrýni ekki að ósekju. Síðan er að því að hyggja að margir telja sig hafa fyrir því málefnaleg rök að heppilegt sé að skipta um æðsta stjórnanda í Seðlabanka. Ósætti um Seðlabankastjóra sé beinlínis skaðlegt. Þessi skoðun er hvorki ómálefnaleg né illa grunduð og þarf ekkert að hafa með óvild út í einstaklinga að gera. Ég vil þó gjarnan að sú skoðun mín komi fram að á síðustu vikum, mánuðum og misserum hefur mér stundum þótt sem Davíð Oddsson væri gerður að blóraböggli fyrir sitthvað sem hann hefur ekki átt beina sök á. Fyrrverandi ríkisstjórn þótti held ég ágætt að hafa seðlabankastjórann til staðar að taka við gagnrýni sem stundum átti betur heima innan fjármálafyrirtækja og í Stjórnarráði fremur en í Svörtuloftum Seðlabankans.
Allir njóti sannmælis!
Þannig er það grunur minn að seðlabankastjóri hafi þegar allt kemur til alls - alla vega í seinni tíð - verið hinn raunverulegi andstæðingur hávaxtastefnunnar og staðið þar gegn sérfræðingaveldi hagfræðinganna innan sem utan Seðlabankans. Eitt er víst að stýrivaxtahækkunin í haust var runnin undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sú hækkun var blessuð af ríkisstjórninni - gegn mótmælum seðlabankastjóra Davíð Oddssyni.
Verk Davíðs Oddssonar, sem annarra manna, á að meta á málefnalegum forsendum. Það finnst mér ekki alltaf vera gert þessa dagana. Hvorki af viðhlæjendum né andstæðingum.
Allir menn eiga að njóta sannmælis. Líka Davíð Oddsson.