Fara í efni

GEGN ÓBILGIRNI OG ÖFGUM

Illugi II
Illugi II
Illugi Jökulsson, rithöfundur, gerir mér þann heiður að skrifa til mín opið bréf á Eyjunnni. Þar segir hann meðal annars:
„„Ögmundur sagði „árásargjarna menn" hafa vegið grimmilega að kirkjunni og rofið samstöðu kirkju og þjóðar." Ég trúi því eiginlega ekki að þú hafir sagt þetta. Enda hlýtur víðsýnn og vel upplýstur maður eins og þú að vita betur en þetta. Því langar mig að varpa til þín þeirri spurningu hvort ekki hafi örugglega verið rangt eftir þér haft? Og ef svo ólíklega vill til að þú hafir virkilega sagt þetta, þá væri vissulega fróðlegt að fá að heyra nánari skýringar þínar á þessu."
Neðanmáls segir Illugi síðan: „ Það skal tekið fram að það hvarflaði ekki eitt augnablik að mér að blaðamenn DV hefðu haft vitlaust eftir. Þetta orðalag var stílbragð, eins og ég hélt að lægi í augum uppi."
Nú er úr vöndu að ráða. Á að svara spurningunni samkvæmt orðanna hljóðan eða á að svara stílbragðinu. Ætli ég fari ekki bil beggja.
Það er rétt eftir mér haft Illugi á vefsíðu DV. Orðrétt sagði ég: „Árásargjarnir menn neyttu færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og varð um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar."
Þetta er engan veginn öll skýringin á vandræðum kirkjunnar því fer fjarri að svo sé. Á bloggsíðum hafa menn gert því skóna að ég hljóti að vera með einhver samtök í huga þegar ég tala um árásargjarnt fólk. Hið rétta er að ég er að horfa til liðinna missera og ára þar sem mér hefur þótt umræða um trúmál oft vera ofsafengin og hatursfull. Ég tel mig geta haft þá afstöðu án þess að þurfa standa Illuga Jökulssyni skil þeirrar skoðunar minnar og orða.
Mér hefur  hefur aldrei fallið ofsafengin umræða um trúmál, hvort sem það er af hálfu þeirra sem trúa eða hinna sem trúa ekki. Þetta hafa mér þótt vera greinar af sama meiði. Þessi afstaða hefur síðan mótað viðhorf mitt til Þjóðkirkju. Ég hef litið á hana sem vörn gegn allsherjar trúvæðingu samfélagsins. Slík kirkja verður að vera öfgalaus, opin og umburðarlynd.    
Fyrst Illugi Jökulsson lætur svo lítið að skrifa mér opið bréf þá langar mig til að biðja hann að sýna mér þann sóma að hlaupa yfir þrjú sýnishorn af innlegi sem frá mér hefur komið um trúmál og lífsskoðunarfélög á síðustu misserum. Þar kem ég m.a. inn á það sem ég kalla trúvæðingu samfélagsins og hvernig sporna megi við henni. Það sem fyrir mér vakir er að styrkja hófsemdaröfl en hvorki ofsatrúarmenn né ofsafengna trúleysingja. Þeir finnst mér ekki vera til eftirbreytni.
Af mjög mörgum greinum og ræðum er að taka en ég læt þetta nægja.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/i-upphafi-kirkjuthings

https://www.ogmundur.is/is/greinar/trufrelsi

https://www.ogmundur.is/is/greinar/sidmennt-aldrei-gengid-a-rett-annarra

Opið bréf Illuga Jökulssonar:
http://blog.pressan.is/illugi/2012/07/14/opid-bref-til-ogmundar-2/
Örvitinn: http://www.orvitinn.com/2012/07/13/16.10/#comment-36499