GYLFA ARNBJÖRNSSYNI SVARAÐ
Engir óvinir erum við Gylfi Arnbhjörnsson, forseti ASÍ, þótt stundum séum við ósammála. Við erum hins vegar ekki vinir á fésbók. Þess vegna fóru framhjá mér skrif sem hann sendi frá sér eftir að ég skrifaði hugleiðingar um kjaramál í pistli í helgarblað Morgunblaðsins nýlega. Þennan pistil minn má lesa hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thingmenn-akvedi-eigin-kjor
Ég frétti hins vegar ekki af svari Gylfa fyrr en nýlega en það var eftirfarandi:
„Ögmundur Jónasson, fyrrum formaður BSRB og alþingismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið í dag og sendir mér sneið undir yfirskriftinni ,,Þingmenn ákveði eigin kjör!''. Nú er það ekki í fyrsta sinn að Ögmundur sendir mér sneið, og vafalítið ekki sú síðasta. Það er allt í lagi - við Ögmundur höfum löngum verið ósammála um leiðir í kjaramálum og á því hefur ekki orðið nein breyting eftir að hann hætti sem forystumaður í BSRB og haslaði sér völl sem þingmaður að fullu (gengið þingstörfum lengi jafnhliða formennsku í BSRB sem þótti barasta eðlilegt). Nú er Ögmundur hins vegar eftirlaunaþegi, bæði sem fyrrverandi formaður BSRB (lífeyrisréttindi í B-deild LSR m.v. 65 ára lífeyristökualdur) og sem fyrrverandi þingmaður í lífeyrissjóði Alþingismanna (sem reyndar er bara ein lína í skuldabókhaldi ríkisins en ekki sjálfstæður sjóður). Ögmundur fer hins vegar mikinn í gagnrýni sinni á ASÍ fyrir þá ósvífni að ætlast til þess að viðsemjendur okkar - þ.e. atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög - meðhöndli félagsmenn ASÍ sem hjá þeim starfa ekki lakar en aðra starfsmenn sína. Reyndar er það svo að umrætt ákvæði sem við byggjum okkar málflutning á er að finna í Rammasamkomulagi ASÍ og BSRB við fyrrgreinda viðsemjendur okkar. Það er því athyglisvert að Ögmundur - sem er jú fyrrverandi formaður BSRB - kýs að nefna ekki í umfjöllun sinni hvaðan þetta ákvæði kemur. Ég ætla honum ekki að vera annarrar skoðunar á aðkomu BSRB að þessu forsenduákvæði en okkur á ASÍ. Það er því aldeilis ljóst að hér velur Ögmundur að snúa baki við fyrrum félögum sínum og samherjum og ganga í lið þeirra þingmanna, sem ekki vilja axla ábyrgð á niðurstöðu kjararáðs. Við gætum kallað þennan hóp ,,Þingmenn sem verja eigin kjör!'' og hér kemst félagi Ögmundur ekki upp úr þeim sporum að með úrskurði kjararáðs jukust lífeyrisréttindi hans um marga tugi prósenta. Það verður fróðlegt að sjá ríkisreikning vegna ársins 2016 þegar búið verður að leggja tryggingafræðilegt mat á þessa miklu hækkun grunnlauna þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna því reikningurinn fyrir það verður sendur beint til skattgreiðenda."
Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð en nokkur þó.
1) Gagnrýni á lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru engin nýlunda úr þessari átt því miður. Lengi vel þótti ýmsum forsvarsmönnum ASÍ opinberir starfsmenn leggja of mikið upp úr lífeyrisréttindum og vildu að kjörin yrðu jöfnuð niður á við. Þetta tókst næstum því árið 1989 og aftur 1996. BSRB vildi hins vegar jafna lífeyriskjörin en að þau yrðu jöfnuð upp á við og hefur almenni markaðurinn notið góðs af þrákelkni BSRB í því efni. Um það verður varla deilt.
Um þetta hef ég skrifað aragrúa greina. Set hér tvær slóðir valdar nánast af handahófi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/veit-althydusamband-islands-hvert-forinni-er-heitid
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvernig-a-ad-leidretta-misrettid
2) Um áramótin síðustu voru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hins vegar færð niður á við, illu heilli. Forseti ASÍ talar með nokkrum þjósti um 65 ára lífeyristökualdur þingmanna. Staðreyndin er sú að lífeyristökuréttur opinberra starfsmanna - eða öllu heldur árið sem notað er sem viðmiðun á útreikningi til ávinnings eða taps ef farið var fyrr eða síðar á lífeyri, einskonar reikniregluár - var fram að síðustu áramótum 65 ár fyrir alla opinbera starfsmenn í A-deild LSR. Um þetta var samið í árslok 1996 þegar A-deildin var mynduð. Þetta viðmiðunarár á líka við um alþingismenn. Sjálfur átti ég sem formaður BSRB hlutdeild í samningunum haustið 1996 og harmaði ég mjög þegar Alþingi, að kröfu/með samþykki verkalýðshreyfingarinnar, breytti þessari viðmiðun í 67 ár með það fyrir augum að hækka hana enn síðar meir. Í þessu felst nefnilega umtalsverð kjaraskerðing og tel ég þetta hafi verið illa ráðið: sjá slóðir, https://www.ogmundur.is/is/greinar/aetlar-althingi-ad-skerda-lifeyriskjor-opinberra-starfsmanna
3) Lífeyrisréttindi þingmanna hef ég alla tíð viljað jafna til samræmis við það sem almennt gerist hjá opinberum starfsmönnum. Að sama skapi hef ég alla tíð talað fyrir því að þingmenn tækju ábyrgð á eigin kjörum eins og ég tala fyrir í pistli mínum sem varð kveikjan að viðbrögðum forseta ASÍ. Eftirfarandi sagði ég í þinginu í desember 2003 þegar lífeyriskjör þingmanna, ráðherra og formanna flokka voru stóraukin. http://www.althingi.is/altext/130/12/r11145202.sgml. Í kjölfarið beitti ég mér fyrir breytingu á lífeyirsrétti þessara aðila þar til þau voru að fullu samræmd lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna árið 2009.
4) Aðdróttanir um að ég telji ekki aðfinnsluvert að félagar í ASÍ séu meðhöndlaðir lakar en opinberir starfsmenn byggir á ósannindum. Ég ítreka hins vegar að kröfum um samræmingu niður á við hef ég alltaf hafnað og barist gegn. Alla tíð hef ég beitt mér fyrir kjarabótum til lágtekju- og millitekjuhópa og hef ég viljað setja þak á kjaramun hinna lægstu og hinna hæstu, sbr. til dæmis hér: http://www.althingi.is/altext/145/s/1539.html
https://www.ogmundur.is/is/greinar/varnarvisitala-laglaunafolks-komin-fram-a-althingi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/log-a-akvordun-kjararads-eda-hinir-laegstu-fai-milljon-a-manudi
http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/11/01/187718/
5) Fullyrðingu um að ég hafi ekki viljað axla ábyrgð á eigin kjörum vísa ég til föðurhúsanna. Þetta hefur þvert á móti alla tíð verið baráttumál mitt og flutti ég fyrst um þetta þingmáli í upphafi þingferils míns þegar ég andæfði ákvörðun um fasta tölu starfskostnaðar sem ég þáði reyndar aldrei sem slíkan sjálfur, allan minn þingmannsferil. Ég fékk greitt fyrir vefsíðukostnað samkvæmt reikningi, punktur basta. http://www.althingi.is/altext/120/s/0086.html
Gylfi Arnbjörnsson býr til sérstakan hóp manna sem hann segir að vilji „verja eigin kjör". Vill hann stinga mér þar inn. Hér verður hver og einn að horfa til eigin gjörða og það treysti ég mér ágætlega til að gera.
Læt ég hér órædd launakjör forseta ASÍ og tvískinnunginn í málflutningi hans og annarra gagnvart kjörum alþingismanna nema talið sé að framlag stéttarfélagsforingja til samfélagsins sé merkilegra en þeirra og verðskuldi umfram umbun. Illa er komið ef forysta verkalýðshreyfingarinnar telur sig standa utan þjóðfélagsins í siðferðilegum skilningi. Vitað var að forystumenn atvinnurekenda hafa löngum talið sig geta móralíserað um „óhóflegar" kröfur fólks sem þó aðeins hefur brotabrot af því sem þeir skammta sjálfum sér.
6) Að ég snúi baki við félögum mínum í BSRB, einsog Gylfi Arnbjörnsson dylgjar um, er að sjálfsögðu út í hött. Mitt framlag til umræðunnar hefur alla tíð miðað að því að verja og bæta kjör fyrrum félaga minna í BSRB og reyndar launafólks almennt, einkum í lágtekju- og meðaltekjuhópum. Þar með taldir eru öryrkjar og aldraðir sem fyrst og fremst þurfa að reiða sig á alltof lágar greiðslur almannatrygginga.
Mínar ær og kýr hafa verið kjarajöfnun og þá hugsjón læt ég forseta ASÍ ekki sverta eða taka frá mér án þess að ég bregðist við.