HERFILEG MISTÖK
Fyrir fáeinum dögum hélt forseti Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands, suður til Istanbúl, Miklagarðs, sem áður hét, til að láta tyrkneska mannréttindabrjóta næla á sig heiðursmedalíu.
Ég hef verið í talsvert miklum samskiptum við tyrknesk mannréttindasamtök og þá sérstakelga þau sem komið hafa að málum Kúrda sem hafa sætt grófum mannréttindabrotum, ofsóknum svo hrikalegum að orð fá þeim varla lýst.
Þessu hef ég gert rækilega grein fyrir hér á heimasíðunni, í blaðagreinum, á fundum sem ég hef boðað til og í opnu bréfi til ríkisstjórnar Íslands með ákalli um aðstoð við fórnarlömb tyrkneskra stjórnvalda og fordæmingu á böðlunum. https://www.ogmundur.is/is/greinar/opid-bref-til-rikisstjornar-islands
Viðbrögð hafa verið lítil sem engin enda Tyrkland í NATÓ, bandalaginu “okkar” sem segist vera að passa upp á frelsið og mannréttindin í heiminum.
Ég segi herfileg mistök.
Ekki hef ég ástæðu til að ætla annað en að Róbert Spanó sé velviljaður maður. Og þá einnig að gott eitt hafi vakað fyrir honum þegar hann lagði land undir fót suður til Tyrklands. Það breytir því ekki að þessi ferð átti að vera sú ferð sem aldrei var farin. Hún var illa ráðin, herfileg mistök.
Öllum geta orðið á mistök þótt undarlegt megi heita að ekkert hald sé í hemlum í heilum mannréttindadómstól.
Ég sé það ekki alveg í hendi mér hvernig best verði bætt fyrir þessi mistök. Kannski með því að taka af sér vettlingana þegar tekist er á við illskeytta ofbeldismenn sem reka og fangelsa alla þá sem ekki beygja sig undir vald þeirra, jafna bæi og borgir við jörðu, myrða, nauðga og ofsækja einstaklinga, hópa og heil þjóðarbrot. Nákvæmlega þetta hafa hinir silkiklæddu og mjúkmálu orðuveitendur forseta Mannréttindadómstóls Evrópu gert.
Íslenskir lögmenn og dómarar sem og alþjóðasamtök lögmanna og dómara hafa gagnrýnt tyrknesk yfirvöld harðlega á undanförnum árum fyrir að vega að þessum stéttum með ofbeldi til að kúga þær til hlýðni og undirgefni. Skúli Magnússon gagnrýndi þannig tyrknesk stjórnvöld sem formaður Dómarafélags Íslands og í framhaldinu aftur nú:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/motmaelum-tyrkneskum-fasisma
https://www.visir.is/g/20202008878d/tyrk-lands-heim-sokn-og-a-synd-mann-rettinda-dom-stolsins