Fara í efni

HVAÐ SEGIR VG UM PALESTÍNU?

Sæll Ögmundur.
Hver er stefna ykkar varðandi deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna? Teljið þið það mikilvægt að viðurkenna tilvist Palestínu sem sjálfstæðs ríkis?
Með bestu kveðju,
Guðbjörn Dan Gunnarsson

Þakka þér fyrir bréfið Guðbjörn Dan. Stefna VG er mjög afdráttarlaus. Við teljum að viðurkenna eigi Palestínu sem sjálfstætt ríki. Mig langar til að gera að mínum orð Sveins Rúnars Haukssonar, formanns Félagsins Ísland-Palestína í orðsendingu sem hann sendi frá sér á Sumardaginn fyrsta um þetta efni. Mér er óhætt að segja að VG geti tekið þar undir hvert orð enda er Sveinn Rúnar á framboðslista flokksins:
"Það eru góð tíðindi og gleðileg sumarkveðja að taka eigi upp eðlileg samskipti við þjóðstjórn Palestínumanna . Einangrun Palestínu sem Ísraelsstjórn hefur tekist að viðhalda með stuðningi Bandaríkjastjórnar og Vesturlanda er ómannúðleg og ólýðræðisleg og hefur leitt til stöðugt versnandi ástands á herteknu svæðunum. Það er því afar mikilvægt að rjúfa hana. Noregsstjórn tók frumkvæði í því að viðurkenna þjóðstjórnina og aflétta viðskiptabanni. Það er fagnaðarefni ef Ísland fylgir því fordæmi og í samræmi við yfirlýsta stefnu Alþingis frá 1989 sem  með samhljóða ályktun lagði áherslu á að viðurkenna bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilvistarrétt Ísraelsríkis. "
Sjálfur hef ég talsvert skrifað um málefni Palestínu og vísaði ég nýlega í sjálfsstjórnarmálin á heimasíðu minni, sjá HÉR
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson