Fara í efni

HVERNIG Á AÐ LÝÐRÆÐISVÆÐA LÍFEYRISSJÓÐINA?

Lýðræði jpg
Lýðræði jpg

HVERNIG Á AÐ LÝÐRÆÐISVÆÐA LÍFEYRISSJÓÐINA?
Á Alþingi er nú eina ferðina enn komin fram tillaga um að lögþvingað verði að lífeyrisþegar kjósi stjórnir lífeyrissjóða sinna beinni kosningu í stað þess að stjórnir eða þing verkalýðsfélaganna sem þeir eiga aðild að kjósi stjórnarmenn og þá samtök atvinnurekenda að sama skapi. Síðara fyrirkomulagið verður þá væntanlega bannað með lögum.Markmiðið með þessari tillögu er gott, að stuðla að frekari lýðræðisvæðingu sjóðanna og beintengja þá einstaklingum sem greiða í þá og njóta síðan lífeyris frá þeim. Um getur verið að ræða tugþúsundir einstaklinga. Finnst mörgum þetta vera lýðræðislegra fyrirkomulag og félagslega heppilegra en það skipulag sem við búum við nú. Sjálfur tel ég það ekki vera einsýnt og myndi ekki greiða slíkri tillögu atkvæði mitt.

Að mínu mati er hins vegar rétt að íhuga að settar verði reglur sem stuðla að meiri hreyfanleika í stjórnum sjóðanna – einhvers konar tímamörk – en hvað varðar beina kosningu utan félagslegs umræðuvettvangs  hef ég efasemdir. Ég tel að það myndi ekki fela í sér þá lýðræðisbót sem sumir ætla og efast ég um að það yrði raunverulega til góðs.
Um fá mál er meira rætt í stjórnum og á þingum verkalýðssamtaka en einmitt lífeyrismál og í fáum málum er eins rík lýðræðisleg aðkoma. Þetta þekki ég vel af eigin reynslu.Sjálfur var ég formaður í heildarsamtökum launafólks, BSRB,  í langan tíma og sat jafnframt í stjórn lífeyrissjóðs opinberra starfsamanna, LSR. Á fjölda stjórnarfunda, öllum aðalfundum og að sjálfsögðu á þingum BSRB, voru lífeyrismálin mál málanna og tel ég að beintenging þarna á milli hafi verið mikilvæg. Alla tíð leit ég á lífeyrisréttindi sem grundvallarhagsmunamál  launafólks. Bæði við, okkar megin frá, og atvinnurekendur sín megin frá, tefldum lífeyrisréttindunum inn á kjarasamningaborð okkar. Menn skoðuðu laun, iðgjöld og réttindi samtímis. Hærri iðgjöld þýddu lægri laun og öfugt. Innan verkalýðshreyfingarinnar var ekki alltaf samkomulag um hvar áherslurnar ættu að liggja. En mikilvægi umræðunnar fór aldrei á milli mála.Mér komu þessar áherslur í hug þegar talsmenn eins lífeyrissjóðsins vöktu opinberlega máls á því í vikunni sem leið, hve stórvarasamt það væri ef ríkið hætti stuðningi vegna örorkubyrða sjóðsins. Ef ég heyrði rétt, námu örorkugreiðslurnar úr þessum sjóði meira en þriðjungi af öllum greiðslum úr honum. Þetta er nokkuð sem án efa verður tengt þeim  kjaraviðræðum sem nú fara fram því það fylgdi sögunni að ef ekki yrði framhald á stuðningi ríkisins myndu réttindin verða rýrð yfir línuna hjá sjóðsfélögunum. Árið 1996 kom fram frumvarp á Alþingi sem hefði kollvarpað lífeyriskerfi opinberra starfsmanna ef það hefði náð fram að ganga. Við efndum til breiðrar samstöðu til varnar kerfinu en settumst síðan að samningaborði sumarlangt og náðum samkomulagi sem bæði við, annars vegar, og ríkið og sveitarfélögin hins vegar, gátu sætt sig við. Þetta hefði síður gerst ef búið hefði verið að fjarlægja okkur, sem baráttuhreyfingu, lífeyrissjóðunum. Það leyfi ég mér að fullyrða. þess má geta að þegar að þessum samningum kom höfðum við átt ótal fundi með félagsmönnum, smáa og stóra til að undirbúa okkur undir samningsgerðina. Við höfðum á að skipa sveit manna sem gerþekkti lífeyrismálin úr stjórnum lífeyrissjóða svietiarfélaganna og ríkisins svo og frá deildum lífeyrisþega. Aðuvitað má til sanns vegar færa að allt þetta mætti gera þótt vali á stjórnarmönnum væri öðru vísi háttað. Ég er einvörðungu að benda á að með kerfislægri nánd er ábyrgðin færð nær verkalýðshreyfingunni annars vegar og atvinnurekendum hins vegar, en báðir aðilar tel ég að eigi áfram að eiga aðild að stjórnum lífeyrissjóðanna. Ekki aðeins verkalýðshreyfingin heldur einnig atvinnurekendur verða að finna til sinnar ábyrgðar.  Síðan er það annað mál hvernig við viljum haga lífeyrisfyrirkomulaginu til framtíðar; hvort þar sé þörf á breytingum. Ég tel tvímælalaust svo vera.

Í kjölfar hrunsins setti ég  fram ýmsa þanka þar að lútandi og hvatti til umræðu um framtíð lífeyriskerfisins.
Einnig hef ég lýst áhyggjum yfir því hvernig lífeyrissjóðirnir fara með vald sitt í atvinnulífinu. Þar höfum við nýleg dæmi um ákvarðanir um arðgreiðslur og stjórnarlaun annars vegar og afstöðu til kröfugerða launafólks hins vegar. Þá er ljóst að fulltrúar skipaðir af lífeyrissjóðum í atvinnufyrirtækjum þurfa að vera undir skærara kastljósi en þeir eru nú. Þar fara þeir með vald sem mér sýnist þeir ekki alltaf beita af ábyrgð. Þarna þarf líka íhuga reglur um tímamörk.  Um þessa þætti þarf að taka góða og djúpa umræðu. En að mínum dómi lögum við málin EKKI  með því að skera á tengsl verkalýðshreyfingarinnar og lífeyriskerfisins.

Ef eitthvað er, þá hafa sjóðirnir fjarlægst rót sína með auknum umsvifum í atvinnurekstri. Við því er það að gera að rótartengja þá enn betur við lýðræðislegan vettvang launafólks og gera þann vettvang frjórri og gjöfulli í stað þess að líta á það sem allra meina bót að kjósa nokkra einstaklinga til stjórnarsetu á einhverra ára fresti þar sem hver og einn sjóðsfélagi  tekur afstöðu án tengsla við hinn félagslega umræðuvettvang.

Sjá vangaveltur um framtíð lifeyrissjóðanna:

 
https://www.ogmundur.is/is/greinar/lifeyriskerfid-tharf-ad-endurmeta

https://www.ogmundur.is/is/greinar/framtid-lifeyriskerfisins https://www.ogmundur.is/is/greinar/lifeyriskerfid-tharf-ad-stokka-upp