MÁLALIÐAR FJÁRMAGNSINS OG LOFORÐ RÍKISSTJÓRNARINNAR
Svokölluð matsfyrirtæki eru rammpólitískar stofnanir sem reynslan kennir að stilli sér upp hverju sinni þar sem þau telja að verja þurfi hagsmuni fjármagnsins gegn almannahagsmunum. Enginn skyldi vanmeta áhrif þeirra sem starfa innanborðs hjá þessum fyrirtækjum. Þeir gefa nefnilega merkjasendingar inn til félaga sinna á fjármálamarkaði um hverjir skuli vera þar velþóknanlegir á hverjum tíma og hverjir ekki. Þegar matsfyrirtækin gefa einstökum ríkjum einkunn -lánshæfismat - þá skal þeim veitt fyrirgreiðsla í samræmi við það. Góðu hlýðnu ríkjunum er auðvelduð aðkoma að lánsfjármagni en hinum sem talin eru draga taum almeninngs skal refsað með háum vöxtum. Völd og áhrif þessara fyrirtækja eru því raunveruleg.
Þegar allt lék í lyndi ...
Í aðdraganda hrunsins á Íslandi, þegar allt lék í lyndi fyrir peningamenn, blómstraði Ísland hjá matsfyrirtækjunum. Og ekki síður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD. Það var helst að fundið væri að því að ekki gengi nógu hratt að einkavæða heilbrigðiskerfið og húsnæðiskerfið. Við þekkjum þetta af skýrslum þessara aðila og sjálfur þekki ég þetta vel af samtölum.
Það er nánast spaugilega að matsfyrirtækið Standard &Poor´s, sem nú vill láta lækka Ísland í lánshæfismati vegna fyrirsjáanlegs tilkostnaðar ríkisins við niðurfærslu lána í anda Framsóknar, hótaði því í byrjun árs 2010 að lækka lánshæfismat Íslands ef Íslendingar samþykktu ekki Icesave þótt slíkt hefði aukið skuldir ríkisins verulega!
Með öðrum orðum, klyfjar á almening þóknanlegar kapítalismanum, skerða ekki lánhæfismat ríkja, en ef gengið er á hagsmuni fjármagnsins eða þeirra sem fara með völdin í hinum kapítalíska heimi, skal annað gilda.
Skilaboðin eru þannig kýrskýr: Ef stýrt er í anda fjármagnseigenda mega ráðamenn ganga að því sem vísu að fá hagstætt lánshæfismat. Hið gagnstæða er svo líka uppi á teningnum ef gengið er á þeirra hlut. Mér þótti Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, orða þetta vel í fréttum í gær þegar hún vísaði í mismunandi hagsmuni sem lægju að baki stjórnvaldsákvörðunum í lánamálum. Umfjöllunarefnið var gagnrýni fyrrgreinds matsfyrirtækis, S&P, á þann ásetning stjórnvalda að standa við fyrirheit ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um lækkun skulda.
Er meiningin að hrekja Framsókn frá völdum?
Gegn almennri skuldaniðurfærslu beitti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér alla tíð og beygði Ísland sig undir það illu heilli. Sjálfum fannst mér sú leið rædd til þrautar haustið 2010 og hef ég margoft gert grein fyrir því sjónarmiði mínu, sbr. t.d. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hage-thakkad-og-svarad
Ég verð hins vegar aldrei í hópi þeirra sem andmæla kosningaloforði Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar um að komið verði til móts við skuldug heimili og eintaklinga sem voru hlunnfarin í verðbólguskotinu í kjöfar hrunsins.
Þau eru hins vegar ófá sem gera það og beinlínis hvetja ríkisstjórnina til að svíkja. Innan Sjálfstæðisflokksins er andmælendur að finna á þingi og í ríkisstjórn og utan þings hefur Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður flokksins, farið í broddi fylkingar þeirra sem vilja að Framsókn svíki, sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/thorsteinn-vill-hjalpa-framsokn-ad-svikja og hér
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-flyja-lofordin
Loforðin og völdin
Það yrði afdrifaríkt ef niðurfærlsuloforðin yrðu svikin því ekki fæ ég annað séð en að þá yrði Framsóknarflokkurinn að ganga út úr ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn er nefnilega kominn í Stjórnarráðið á grundvelli loforða Framsóknarflokksins. Það er þess vegna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nú forsætisráðherra og einnig Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Ekki gleyma því! Þeir eru báðir í Stjórnarráðinu vegna loforða Framsóknarflokksins um skuldaniðurfærslu.
Svíki þeir loforð sín myndi það því sannast að þeir hefðu logið sig til valda. Ekki hef ég trú á því að menn séu ekki vandari að virðingu sinni en svo að þeir séu tilbúnir að sitja að völdum á slíkum forsendum.