ÖSSUR Í STUÐI – EN ÓNÁKVÆMUR
Nokkuð höfum við verið á öndverðum meiði á undanförnum dögum ég og minn góði vinur og baráttufélagi til margra ára,
Svo Össur sé látinn njóta sannmælis þá vil ég birta hér umfjöllun hans svo þar verði ekkert slitið úr samhengi. Pistill Össurar ber yfirskrifitina, Hvar er skoðanafrelsið Ögmundur? Hér fylgja skrif ÖS:
" Reykjavíkurlistinn var stofnaður til að vera listi fólksins gegn flokksvaldinu. Merki hans er regnboginn - og regnboginn var valinn sem tákn fjölbreytileikans. Hann var tákn fyrir samstöðu hinna fjölmörgu skoðana sem runnu í eitt litróf.
Reykjavíkurlistinn var í eðli sínu andstæða flokksræðisins sem einkenndi Reykjavíkurborg Sjálfstæðisflokksins - þar sem allir áttu að dansa eftir skoðanapípu lokaðrar forystu. Reykjavíkurlistinn stendur þessvegna fyrir umburðarlyndi, réttindi fólks - og frelsi.
Væri það ekki til marks um þau lokuðu vinnubrögð sem við höfum báðir barist gegn ef málefni Reykjavíkurlistans ætti að loka svo kyrfilega inni í reykfylltum bakherbergjum flokksmaskínanna að enginn mætti hafa skoðun. Jú - svo sannarlega. Það er ekki það sem okkar flokksmenn vilja.
En hvernig brást Ögmundur við þegar ég leyfði mér af einlægni að reifa skoðun sem fjölmiðlar tóku upp - og laut eingöngu að því hvernig ætti að haga framboði míns eigin flokks? Ég velti upp mínu viðhorfi um hvernig Samfylkingin ætti að haga eigin framboði ef hinir hrykkju úr skaftinu.
Við sáum viðbrögð Ögmundar í frétt í Morgunblaðinu af vefsíðu hans. Þar gerir hann "formúlu Össurar" að umræðuefni og segir:
"Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði höfum við farið mjúkum höndum um Samfylkinguna um nokkurt skeið. En svo má brýna deigt járn að bíti."
Hvað þýðir þetta, félagi Ögmundur? Hvað kölluðum við svona í þeim hundruðum ræðna sem Vg og Samfylkingin fluttu þegar við tókum slaginn saman í fjölmiðlamálinu?
Svona talaði miðstjórn sovéska kommúnistaflokksins. En sannur vinstri sinni getur ekki talað fyrir því að málfrelsið sé tekið af fólki sem hefur skoðanir."
Þetta var semsagt pistill Össurar. Hann birti ég til þess að
Nú vill svo til að þetta er alls ekki sannleikanum samkvæmt. Ádeila mín á hendur Össuri var fyrst og fremst vegna hugmynda sem hann hafði reifað í Fréttablaðinu um að Samfylkingin byði fram undir merkjum R-listans með eða án þeirra samstarfsflokka sem staðið hafa að listanum. Á forsíðu Fréttablaðsins 17. júlí birtist mikil frétt undir eftirfarandi fyrirsögn: Össur vill R-lista, með eða án samstarfsflokkanna. Í fréttinni er haft orðrétt eftir Össuri: "Ég tel að undir öllum kringumstæðum eigi Samfylkingin að bjóða fram sem Reykjavíkurlisti, þó að annar eða báðir samstarfsflokkanna vilji ekki vera með í slíkum lista."
Þetta er nokkuð afdráttarlaust og að mínu mati meira en lítið ósvífið. Össur samsamar Reykjavíkurlistann Samfylkingunni og telur greinilega ekkert við það að athuga að hún eigni sér heiti þessa sameiginlega samstarfsvettvangs þriggja flokka, auk fólks utan flokka. Ég reyndi fyrir mitt leyti að færa rök fyrir því að að R-listi, án þeirra vinstri manna sem er að finna í VG, væri allt annar en með þá innanborðs.( Sjá HÉR)
Við það sem haft var eftir Össuri um prófkjör í eigin flokki í umræddri Fréttablaðsgrein hafði ég ekkert að athuga. Ég hef hins vegar gagnrýnt harðlega hugmyndir sem fram hafa komið um sameiginlegt prófkjör um borgarstjórakandidat. Gagnstætt því sem haldið er fram í því samhengi, að þetta sé einkar lýðræðislegt, er það mín skoðun að slíkt fyrirkomulag sé til þess fallið að styrkja valdastöðu borgarstjóra á kostnað breiðara lýðræðis.
Um þetta hef ég sagt hér á síðunni eftirfarandi : "Varðandi tal sem heyrst hefur um "leiðtogapró fkjör" verð ég að segja að í mínum eyrum hljómar það eins og kall aftan úr fornöld, úr hálsi þeirra sem vilja foringjaræði. Krafa um leiðtogaprófkjör er krafa um foringjaræði: Kjósum foringjann, hlýðum honum svo! Þetta er þröng og í raun mjög andlýðræðisleg hugsun. Lýðræði 21. aldarinnar á að byggja á opinni og breiðri ákvarðanatöku allt kjörtímabilið, ekki þröngri persónupólitík eins og mér sýnist hér lagt upp með. "Leiðtogaprófkjör" er leið til að taka völd og áhrif frá fjöldanum og færa þau í hendur hins útvalda foringja. Seint myndi ég skrifa upp á slíkt."
Vissulega er þetta skoðun. En er ekki leyfilegt að hafa skoðun? Um það erum við altént sammála ég og
Þó ekki um" útvarpsstjóramálið". Hinn afkastamikli pistlahöfundur ÖS skrifar mikinn pistil um þær hugmyndir sem ég hef viðrað hér á síðunni um embætti útvarpsstjóra og hver væri best fallinn til að gegna því embætti. Össur leggst í miklar djúpsálarfræðilegar stellingar og kemst að þeirri niðurstöðu að ég vilji helst fá sjálfstæðismann til starfans. Sannast sagna nefndi ég tvö nöfn, þeirra Þorsteins frá Hamri og Jóhönnu Kristjónsdóttur og á heimasíðunni í dag tek ég undir með lesanda að séra Gunnar á Reynivöllum væri einnig álitlegur kostur. Marga aðra gæti ég nefnt áður en ég nefndi sjálfstæðismenn til sögunnar. Og enn á ég eftir að sjá lista yfir þá sem sækja um starfið og kunna þar að vera ágætir umsækjendur.
Ég er hins vegar að leggja á það áherslu að um Ríkisútvarpið þarf að ríkja breið sátt. Til að það geti gengið eftir þarf að fullnægja ákveðnum forsendum sem ég tilgreini. Ef menn gangast inn á þessar forsendur gæti ég fyrir mitt leyti orðið sáttur þótt fyrir valinu yrði pólitískur andstæðingur minn. Enginn flokkur á að hafa tilkall til þessa embættis en það á heldur ekki að útiloka neinn. Með öðrum orðum, það á ekki að skipa í embættið flokkspólitískt. Á þetta er ég að leggja áherslu í pistli mínum. Í þessu felst engin skoðanakúvending af minni hálfu eins og Össur heldur fram. Þessar skoðanir hef ég meira að segja haft um áratugaskeið! Varðandi "stuðning" minn við Markús Örn Antonsson er það að segja að menn verða að geta rætt menn og málefni efnislega. Ég sagði að Markúsi Erni hefði ekki reynst það fjötur um fót að eiga sér pólitískan bakgrunn, þegar hann á annað borð sýndi að hann léti ábyrgð sína gagnvart Ríkisútvarpinu hafa forgang. Þetta átti við á fyrstu árum Markúsar Arnar í embætti og nefndi ég þetta röksemdafærslu minni til stuðnings um að pólitísk afskipti ættu ekki að útiloka fólk fyrir lífstíð hvorki til þessa embættis né annarra. Því má bæta við að flest erum við pólitísk og ekki einhlítt að þeir sem aldrei gefa sig upp séu ópólitískari en hinir sem flagga skoðunum sínum.
Ég hef stutt Ríkisútvarpið eins og mér hefur frekast verið unnt um langt árabil og ekki látið það á mig fá þótt ég og skoðanasystkin mín hafi iðulega orðið undir þegar stöðuveitingar hafa verið annars vegar. Hef ég sjálfur komið við sögu í slíku samhengi. Margt hefur mér vissulega mislíkað við Ríkisútvarpið í áranna rás og stuðningur minn við þessa stofnun er algerlega undir því kominn að tiltekin grundvallarsjónarmið séu virt. Á þessu hef ég hamrað fyrr og nú. Oft hefur mér þótt RÚV komið út á ystu nöf og hvað stjórnvöldin áhrærir þá mun ég af athygli fylgjast með því hvort ríkisstjórninni er alvara að veikja tengsl almennings við þessa stofnun eins og fólst í stjórnarfrumvarpi um RÚV í vor. Þá verður spurt hvort ríkisstjórnin leggi meira upp úr þröngri pólitískri hugmyndafræði sinni eða breiðri samstöðu og sátt. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Ekki veit ég hvað
Hvað á
Samskipti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við alla flokka hafa verið hrein og bein. Oft hefur stjórnarandstaðan glímt sameiginlega við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Allt of oft hefur VG verið eitt á báti. Nefni ég þar ýmis einkavæðingaráform, stóriðjustefnuna og virkjun við Kárahnjúka, afstöðu til aðildar Íslands að NATÓ og ýmsu því sem það bandalag hefur tekið sér fyrir hendur. Á milli Sjálfstæðisflokks/Framsóknar og VG hefur verið mun lengra bil en á milli Samfylkingar og þessara aðila. Aldrei hefur mér þótt það boða gott þegar stjórnarmeirihlutinn og Samfylkingin hafa náð vel saman svo ég fái frasann að láni frá Össuri og kemur það úr hörðustu átt að væna VG um daður við pólitík Sjálfstæðisflokksins..
Hitt hefur mér þótt betra þegar stjórnarandstöðunni hefur lánast að ná vel saman. Vonandi lánast okkur það á komandi misserum. Þá skiptir öllu að virða skoðanafrelsið og takst á um málefnalegan ágreining, því það er engum til góðs að sópa honum undir teppið.
Þess vegna langar mig til að enda þennan pistil á málefnalegri nótu og þar sem farið er að fjalla um skoðanir væri fróðlegt að heyra útleggingu Össurar Skarphéðinssonar á eftirfarandi ummælum hans um væntingar til nýs útvarpsstjóra: "Næsti útvarpsstjóri þarf að vera fær um að rífa RÚV framúr þeirri stöðnun sem þjakar stofnunina, finna henni traustan fjárhagsgrundvöll og slíta af henni pólitísku fjötrana".
Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur sett fram frumvarp um nákvæmlega hvernig hægt sé að ná þessum markmiðum. Hvað nákvæmlega vill Össur og Samfylkingin í þessu efni?
Lesendum bendi ég á vefslóð Össurar. Hún er HÉR. Eftirfarandi er pistill Össurar um útvarpsstjóramálið og HÉR er slóðin á pistil minn
Ég vona að Össur erfi það ekki við mig að ég birti pistil hans hér án leyfis:
Útvarpsstjóri og hrossakaup
Páll Magnússon hvarf af mikilli skyndingu frá 365-miðlum án þess að hægt væri að skilja af frásögnum nákvæmlega hvað bar á milli. Hugsanlega er hann orðinn leiður á því að hafa Gunnar Smára Egilsson sem Drottinn allsherjar yfir smáu og stóru og ráða litlu sjálfur. En í kjölfarið bárust svo merkileg tíðindi af fundi hans og menntamálaráðherra. Blöðin segja að búið sé að ganga frá því að Páll verði ráðinn útvarpsstjóri. Ég er ekki alveg viss um að þetta verði svona. Ég hef enga trú á því að Þorgerður Katrrín lofa svona upp í ermina á sér án þess að hafa hreinsað það mál við Þann Sem Öllu Ræður.
Mér þótti í ljósi þess síðasta fróðlegt að lesa síðasta pistil Ögmundar Jónassonar á heimasíðu hans - sem fjallar einmitt um næsta útvarpsstjóra. Í honum setur hann fram merkilegar formúleringar sem líta má á sem pólitíska krossgátu með vísbendingum. Ég hafði gaman af að spreyta mig á að ráða hana.
Ögmundur - sem hefur barist fyrir því að losa útvarpið undan pólitísku oki og haldið um það margar ræður á Alþingi - segir nú að hann sé reiðubúinn til að samþykkja útvarpsstjóra sem komi "úr heimi stjórnmálanna." Þetta er út af fyrir sig merkileg breyting á afstöðu - en auðvitað hafa allir rétt til að skipta um skoðun.
Ögmundur segir líka að hann geti vel fellt sig við að sá sem til starfans veljist sé pólitískur andstæðingur hans.
Í pólitísku merkjafræðinni þýða þessi skilaboð að Ögmundur er fyrir hönd VG reiðubúinn til að sætta sig við að Sjálfstæðismaður verði næsti útvarpsstjóri. Hann verður hins vegar "...að vilja Ríkisútvarpið í almannaeign og undir almannastjórn."
Þegar svona fána er skotið upp þýðir það vanalega að einhvers staðar á ósýnilegu dýpi hafa pólitískir fálmarar VG og Sjálfstæðisflokksins snerst og byrjað að þreifa á einstaklingi sem gæti orðið samkomulag um - án þess að mikill darraðardans byrji. Eftir fíaskóið með fréttastjórann hefur stjórnarliðið ekki efni á öðrum skandal - þó furðu gegni að Ögmundur lýsi sérstöku trausti á Markús Örn sem skaut þó mesta pólitíska feilskotinu sem ég man eftir úr sögu RÚV.
Sjálfstæðismaðurinn sem Ögmundur er að gæla við gæti tæpast verið virkur lengur í pólitík því um slíkan yrði aldrei samstaða. Hann má heldur ekki vera frjálshyggjumaður. Ögmundur segir í pistlinum að hann hafi "engan áhuga á hlýðnum já-karli eða já-konu." Það þýðir á ögmynnsku að viðkomandi þarf að hafa verið í andstöðu við forystu Sjálfstæðisflokksins. Kandídatinn þarf þó að njóta trausts í hans röðum - vera ágætlega þokkaður í Framsókn - og náttúrlega hafa virðingu stjórnarandstöðunnar.
Það þarf ekki mikla leikni í pólitískri krossgátu til að sjá hvaða kandídatar passa inní formúleringuna sem eimast úr gambra Ögmundar. Þar eru tveir einstaklingar sem falla einsog flís við rass að formúlu Ömma frænda. Þetta eru þau Inga Jóna Þórðardóttir og Þorsteinn Pálsson. Ég læt svo lesendum eftir að geta sér til um hvort þeirra Ögmundur vildi heldur.
En þetta er auðvitað skákin sem VG var byrjað að tefla í pistli Ögmundar við einhverja í Sjálfstæðisflokknum - þegar Páll Magnússon kom óvænt inn í spilið með fund sinn við Þorgerði.
Það verður gaman að sjá hvernig þessu vindur fram. Nú er það svo að ég held að sá útvarpsstjóri sem RÚV þarf á að halda eigi ekki endilega að vera sá sem allir geta fellt sig við - hvað þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn og VG. Það boðar nú sjaldnast gott þegar þeir tveir flokkar fara að pukrast saman.
Næsti útvarpsstjóri þarf að vera fær um að rífa RÚV framúr þeirri stöðnun sem þjakar stofnunina, finna henni traustan fjárhagsgrundvöll og slíta af henni pólitísku fjötrana. Ráðning útvarpsstjóra á því að falla að þörfum stofnunarinnar en ekki einhverra stjórnmálaflokka - jafnvel þeirra sem alltaf unnast á einhvern skrítinn hátt en ná vonandi aldrei að eigast.
Ég veit að Ögmundur er hestamaður góður og nýkominn úr löngu hestaferðalagi með vinum sínum. Það þýðir þó ekki að ráðning útvarpsstjóra eigi að ráðast af pólitískum hrossakaupum.
- Össur