ÞRÖNGT SJÓNARHORN
Helgi vinur minn Guðmundsson veltir því fyrir sér í grein á Ögmundi.is hvort íslenskt þjóðfélag sé kynskipt eða stéttskipt. Er á honum að skilja að þjóðfélagið sé ekki lengur álitið stéttskipt heldur sé það með röngu talið kynskipt. Og að þetta hörmungarástand sé helst “talsmönnum kvenna” að kenna. “Svo vel hefur talsmönnum kvenna tekist upp í að halda jafnréttisumræðunni vakandi að því er líkast að þjóðfélagið sé ekki lengur stéttskipt heldur kynskipt,” skrifar Helgi. Af þessu leiði rangar áherslur í baráttunni fyrir betri heimi auk þess sem karlar séu ýmist hafðir fyrir rangri sök eða að hlutur þeirra sé fyrir borð borinn. Afleiðingin sé sú að fólk sem tekur þátt í og stýrir umræðunni, líti fram hjá slæmum hlut láglaunafólks, þar sem fyrir má finna, konur, karla og útlendinga.
Mér finnst þessi grein Helga vera allsérkennileg samsuða. Á meðan að það er hægt að taka undir ákveðnar meiningar,- eins og það að umræða um stéttskiptingu þjóðfélagsins og afleiðingar þeirrar skiptingar sé og hafi verið í skötulíki og að afleiðingar þeirrar hugmyndafræði séu víðtækari en sést fyrir endan á í fljótu bragði, þá kemur það undarlega fyrir sjónir að “talsmenn kvenna” séu á einhvern hátt ábyrgir fyrir því ástandi. Eða að af umræðu um stöðu kvenna hljóti að leiða neikvæðar afleiðingar fyrir stöðu láglaunafólks. Þetta er álíka þröngt sjónarhorn eins og ef að t.d. smiðir eða rafvirkjar litu umræðu um stöðu annarra faghópa en þeirra eigin hornauga og teldu að þar með væri verið að skerða þeirra hlut. Það skortir eitthvað á yfirsýnina hér.
Auðvitað er íslenskt þjóðfélag, rétt eins og önnur, kynskipt. Það er líka stéttskipt. Og aðhyllist maður réttlæti og þar með jafnrétti, þá snýst spurningin um hvaða afleiðingar þessar “skiptingar” hafa og hvernig má breyta því sem miður er talið. Ef að maður aðhyllist réttlæti og jafnrétti að þá getur barátta fyrir umbótum á einu sviði varla talist vera myllusteinn um háls þeirra sem vilja beita kröftum sínum á einhverju öðru sviði þar sem leiðréttingar er þörf.
Ef að feminsmi er skilinn sem barátta fyrir jafnrétti kynjanna, og hafi maður þá meginafstöðu að vilja telja sig jafnaðarmann, þá hlýtur sú barátta vera bæði konum og körlum til góðs og um leið vera baráttumál beggja kynja. Þess vegna er feminsti mannvera, ýmist kona eða karl, sem vill berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Feminsti er því ekki rétt skilgreindur sem “kona að berjast fyrir sérhagsmunum síns kyns”. Skili barátta feminista árangri kemur hún væntanlega bæði konum, körlum og útlendingum til góða, hvar í stétt sem þau standa. Þess vegna er ótti við og andúð á baráttu feminsta augljóslega ástæðulaus – sé maður jafnréttissinni á annað borð. Og það er ekki eins og baráttan fyrir góðum málum sé í fyrirfram takmörkuðu upplagi. Að ef barist sé á einum vígstöðvum hljóti að draga úr baráttunni annars staðar. Þvert á móti, barátta á einu sviði elur af sér baráttu á öðru sviði. Aukin virkni á einum stað hvetur til meiri virkni annars staðar og niðurstaðan verður lýðræðislegra þjóðfélag.
Mér finnst einhvern vegin eðlilegra að snúa bökum saman með þeim sem vilja færa heiminn til betri vegar, fremur en að beina spjótum að þeim. Andstæðingarnir eru til staðar – og fyrir jafnaðarsinna og baráttumann úr verkalýðshreyfingunni – teljast hvorki konur né feminstar til þeirra. Eða hvað, Helgi?
-phh
Grein Helga Guðmundssonar er HÉR