Fara í efni

PERSÓNUR OG PÓLITÍK


Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fannst ég fara harkalegum orðum um Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA,  og nefnd sem hann stýrir á Landspítala háskólasjúkrahúsi, sem hefur það hlutverk að ná niður kostnaði.  Af störfum þessarar nefndar höfum við fengið fréttir í fjölmiðlum að undanförnu. Nefndin hefur lagt til að fylgt verði strangri aðhaldsstefnu og niðurskurði þrátt fyrir alvöruþrungin varnaðarorð forsvarsmanna spítalans.  Vilhjálmur og félagar virðast virða algerlega að vettugi staðhæfingar stjórnenda á sjúkrahúsinu um að lengra verði ekki gengið í niðurskurði án þess að hann bitni á þjónustunni og þar með á sjúklingum.  Af þessu fáum við nær daglega fréttir, nokkuð sem ég reyndi að bera inn í umræðu um fjárlög ríkisins á komandi ári síðustu dagana fyrir þinghlé. Ég fór yfir skýrslur um fjárhag  Landspítalans svo og athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Þar kemur fram að frá því fyrir aldamót hefur orðið stöðug „framleiðniaukning" sem þýðir á mannamáli að álagið hefur verið aukið á starfsfólkið þótt eitthvað megi eflaust rekja til endurskipulagningar til að ná fram meiri hagkvæmni. Hitt þekki ég vegna kynna af starfsfólki  sem formaður BSRB að álagið er löngu orðið óbærilegt hjá stórum hópum starfsmanna.
Ég  hef sannfæringu fyrir því að kröfur um frekari samdrátt séu sjúkrahúsinu beinlínis hættulegar, auk þess sem ég hef fært fyrir því rök að áframhaldandi niðurskurður sé til þess fallinn að knýja heilbrigðiskerfið út í einkarekstur. Við lok umræðunnar á Alþingi - undir þinglokin - óskaði ég eftir því að forsætisráðherra svaraði fyrir stefnu stjórnarinnar í þessum efnum.
Lítið var á svörum hans að græða. Hann sakaði mig  um útúrsnúninga og kvað ummæli mín um störf framkvæmdastjóra SA á Landsspítalanum  vera einkar ósmekkleg án þess þó að færa fyrir því málefnaleg rök.  Röksemdum mínum svaraði hann ekki.  Lét nægja að beina að mér ásökunum.
Hvað Vilhjálm Egilsson áhrærir, kvaðst ég þekkja hann sem gegnumheilan og vandaðan mann, reyndar væri hann góður vinur minn. Því má bæta við að Vilhjálmur stýrði lengi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis  þar sem ég átti sæti og kynntist ég honum vel þar. Var hann sérlega lipur og réttsýnn í því starfi.  
En þótt Vilhjálmur Egilsson fái þannig í mínum kladda ágætiseinkunn sem mannpersóna þá gegnir öðru máli um pólitíkina sem hann rekur. Það er stefna ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Sú stefna er grimm einkarekstrarstefna. Forsætisráðherrann lagði áherslu á mikilvægi þessarar stefnu, þ.e. einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu, við flokkssystkini sín í Valhöll nú í haust. ( sbr, hér).
Þegar Geir H. Haarde nú stendur fyrir fjársveltistefnu gagnvart almannareknum sjúkrahúsum og fær bardagamanninn frá Samtökum atvinnulífsins til að fara um ganga Landspítalans með niðurskurðarsveðjuna á lofti , má spyrja hvort forsætisráðherra hafi búist við þögn og samþykki. Það kann að vera þagað við ríkisstjórnarborðið. Sama gildir ekki þegar fulltrúar VG eiga í hlut. Jafnvel þótt um niðurskurðarsveðjuna haldi góðir drengir, má Geir H. Haarde, forsætisráðherra vita að ég mun einskis láta ófreistað svo þeir verði stöðvaðir í að fremja pólitísk voðaverk. Annað væri að rugla saman persónum og pólitík.