PÓLITÍSKT GÓÐVERK
Egill Helgason á lof skilið fyrir viðtalsþátt sinn við slóvenska heimspekinginn Slavojs Zizek í þætti sínum Kiljunni í vikunni. Hið góða við viðtalið var krafturinn, hugmyndaauðgin og skemmtilegheitin sem þar birtist. Með viðtali af þessu tagi er unnið pólitískt góðverk á þjóðinni. Hún sofnar ekki undir Zizek heldur glaðvaknar. Það er ekki bara gott. Það er lífsnauðsynlegt!
Um margt var ég sammála Zizek, um annað síður. Ólíkur uppruni okkar Zizeks skýrir hugsanlega sumt í mismunandi sýn. Þannig fannst mér Zizek ýja að því að vinstri sinnar hefðu á tíunda áratug síðustu aldar verið býsna nærri Fukuyama hinum japanska, sem boðaði endalok sögunnar með „sigri" kapitalismans á kommúnismanum; ágreiningur væri þar með úr sögunni. Úrlausnarefni mannkynsins yrðu hér eftir engin sem flokka mætti undir „söguleg" átök heldur aðeins ákvarðanir á markaðstorginu: Á ég að kaupa Sparr eða Omó- þvottaefni?
Zizek sagði eitthvað í þá átt í þættinum, að vinstri sinnar á tíunda áratugnum hefðu verið farnir að sætta sig við þau endalok að fá kapitalsima með örlítið meiri velferð og umhverfisvernd! Svona talar marður nýsloppinn undan alræðiskerfi. Það geri hins vegar ekki ég sem upplifði í aldarlokin tangarsókn kapitalismans gegn velferðarkerfinu undir gunnfánunum sem Thatcer/Reagan/Friedaman/Hólmsteinn/Hayek o. fl. höfðu dregið að húni. Í þessu samhengi vísa ég í stórgott Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um síðustu helgi þar sem m.a. var fjallað um þetta málefni. Þar var vitnað í Naomi Klein og bók hennar Shock Doctrine þar sem hún segir að kapítalisma í sinni hráustu mynd hafi enginn kosið yfir sig. Í Chile á dögum Pinochets þar sem Friedman-kenningunni hafi verið framfylgt til hins ítrasta, hafi þurft að koma á fasískri alræðisstjórn til að svo mætti verða! (Hér má lesa umrætt Reykjavíukurbréf: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thorf-a-lydraedislegri-umraedu-um-utanrikismal)
Umhugsunarverð var hugleiðing Zizeks um Kína og rofið sem kynni að vera yfirvofandi á milli kapítalisma og lýðræðis. Í því samhengi rifjaði hann upp þá staðreynd að líberalismi var í öndverðu byggður á hugmynd um frelsi markaðar og fámennisvald - ekki lýðræði.
Haukur Már Helgason kom fram í Kiljunni en hann hefur þýtt bók Zizeks, Órapláguna. Fyrir það á hann þakkir skildar. Ég hlakka til að lesa bókina og mun fjalla um hana hér á síðunni að lestrinum loknum.
Til gamans læt ég fylgja slóð á umsögn mína um bók þar sem Zizek kemur við sögu og fer ég þar nokkrum orðum um kenningar hans: https://www.ogmundur.is/is/greinar/af-okkur-thokkum-blandin-gagnryni