SIGURÐUR INGI: NÆSTA SJÚKRAHÚS Á KELDUM(?)!
Það gladdi hjarta mitt að sjá að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, skyldi lýsa því yfir þegar kynntur var samgöngu-“sáttmálinn” margrómaður, að hann teldi líkur á að næsta sjúkrahús verði reist á Keldnalandinu, sem ríkið er hins vegar, illu heilli, í þann veginn að selja frá sér í hendur Reykjavíkurborgar svo reisa megi þar íbúðir fyrir þá sem njóta munu annars meints sáttmála, “lífskjarasáttmálans”, í bílalausu íbúðahverfi.
Samgönguráðherra sagði að hvort tveggja gæti lifað með hinu, sjúkrahúsið og bílasnauða byggðin. Þetta kostaði hins vegar fyrirhyggju í skipulagi.
Eitthvað vantar þó enn upp á fyrirhyggjuna því þær teikningar sem mér er sagt að sést hafi af Borgarlínunni á þessu svæði sýni hana ganga þvert í gegnum friðað hús Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum. Hef ég grun um að arkitektinum sé órótt í gröf sinni. Allt er þetta þó meira og minna óstaðfest. Augljóst er þó að talsvert skorti á fyrirhyggju í þessum áformum – þar til nú að Sigurður Ingi kallar einmitt eftir fyrirhyggju!
Láti gott á vita. Þetta er í fyrsta skipti sem ráðherra í núverandi ríkisstjórn orðar þessa hugmynd um sjúkrahús framtíðarinnar á Keldnalandinu. En hvers vegna þá selja? Þeirri spurningu verður að svara á sannfærandi hátt.
Hugmyndina um sjúkrahús á Keldnalandinu orðaði í mín eyru fyrst Guðjón heitinn Magnússon, aðstoðarlandlæknir með meiru. Ég sannfærðist - og það á við um marga fleiri - nú síðast sá ég Sigmund Davíð Gunnlaugsson, alþingismann, sem að öðrum ólöstuðum hefur verulega glöggt auga fyrir borgarskipulagi enda hans sérgrein, ítreka enn einu sinni þá skoðun sína í blaðagrein að gera ætti ráð fyrir sjúkrahúsi á Keldum.
Við Keldur mætast Suðurlandsvegurinn og Vesturlandsvegurinn og það meira að segja í sjálfum byggðakjarna suðvesturhornsins þar sem steinsnar er í Grafarholtið, Garfarvoginn, Breiðholtið, Árbæinn og Mosfellsbæinn og nú er boðuð Sundabraut sem kæmi til með að liggja þarna skammt undan.
Ég minnist þess að Guðjón Magnússon lagði áherslu á að byggja ætti upp í loftið, með hraðskreiðum lyftum, svo ekki þyrfti hálftíma gang á milli legudeilda og skurðdeilda. Það er að vísu mitt orðalag ekki hans. En hugsunin er þó hans.
Það er rétt sem skilja mátti á samgönguráðherra að fyrirhyggju væri þörf. Og hennar er þörf NÚNA. Því þótt einhverjir sætti sig við bílleysi við heimili sín verður að gera ráð fyrir talsverðum bílastæðum við nýtt sjúkrahús.
Enda þótt ég telji Keldur besta kostinn fyrir höfuðsjúkrahús landsmanna lét ég ógert að stöðva áform um uppbyggingu á Landspítalareitnum þegar ég gegndi embætti heilbrigðisráðherra í átta mánuði á árinu 2009.
Um þetta skrifaði ég eftirfarandi á meðal annars: https://www.ogmundur.is/is/greinar/langtimasatt-um-landspitala