Fara í efni

STALDRAÐ VIÐ YFIRLÝSINGAR FRÁ LANDSVIRKJUN, RÍKISSTJÓRN OG SVEINI VALFELLS

Hörður - Sveinn - Ragnheiður Elín
Hörður - Sveinn - Ragnheiður Elín

Stöð 2 birti athyglisverða frétt um lagningu sæstrengs til Bretlands og að fjármögnun væri vel á veg komin. Fréttamaður vitnaði í nýlega umfjöllun á Kjarnanum. Sjónvarpsáhorfandinn sat uppi með þá tilfinningu að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, væri yfir sig ánægð yfir gangi mála og sömu sögu væri að segja um Landsvirkjun, en framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs þar á bæ, Björgvin Skúli Sigurðsson, segir þetta „gott fyrir Ísland".  Áður hefur forstjórinn, Hörður Arnarson, talað um sæstreng sem öryggistæki fyrir Ísland.

Talsmaður Landsvirkjunar í frétt Stöðvar 2, sagði þó að enn væri verið að skoða málið. Sama hefur verið viðkvæðið hjá forstjóranum þegar eftir hefur verið leitað. En þarf  þjóðin ekki líka að koma að málinu og skoða það? Hún á auðlindirnar -  eða hvað? Í ljós kom í fréttinni á Stöð 2 að iðnaðarráðherra hefði nýlega  átt fund með breskum starfsbróður sínum þar sem báðir aðilar virðast hafa lýst ánægju með gang mála. Og þegar þessi góði gangur mála liggur í því að „fjármögnun er vel á veg komin" þá getur það hæglega hent að illa verði aftur snúið svo mikill verði þrýstingurinn, annars vegar frá hendi fjárfestanna og hins vegar gráðugasta hluta íslensku þjóðarinnar sem ekki kallar allt ömmu sína eins og við þekkjum af reynslunni !  
Hvorki Landsvirkjun né ríkisstjórnin hefur rétt á að ráðstafa orkunni og ákveða að virkja inn í framtíðina eftir geðþótta! Lagning sæstrengs er ávísun á stórfelldar virkjanir fyrir útflutningsmarkað. Það mun kosta umhverfisfórnir á Íslandi.
Á þessu eru hliðar sem snúa að náttúruvernd, umhverfi, efnahag, stjórnmálum og siðferði. Ágúst Valfells hefur fjallað um þessa þætti á hnitmiðaðan hátt í blaðagreinum og hef ég vitnað til skrifa hans. Ég hvet fólk til að fara inn á þessar slóðir og kynna sér vangaveltur og rök Sveins Valfells.

Sjá hér tilvitnaða frétt:  http://www.visir.is/fjarmognun-raforkusaestrengs-komin-a-fullan-skrid/article/2014140519067

Vitnað í Svein Valfells:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/radherra-kynni-ser-spurningar-sveins-valfells-og-svor

https://www.ogmundur.is/is/greinar/saestreng-til-ad-flytja-inn-rafmagn