Fara í efni

STUNDUM EIGA RÁÐHERRAR AÐ ÞEGJA

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, blés mikinn í hádegisfréttum í dag. Athygli vekja þau orð sem ráðherrann notaði um það athæfi starfsmanna Vegagerðarinnar að flagga í hálfa stöng vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að skera niður samgönguáætlun á Vestfjörðum. Þetta hefði verið "hneykslunarvert", þarna hefðu verið að verki "undirmenn" vegamálastjóra sem hefði yfir þeim "húsbóndavald"; hann hlyti að kalla þá fyrir enda kvaðst ráðherrann mjög "hneykslaður".
Sturla Böðvarsson er hins vegar ekki hneykslaður á eigin athæfi. Sturlu Böðvarssyni væri hollt að hugleiða að fólkið er að mótmæla svikum hans og ríkisstjórnarinnar á marggefnum loforðum og heitstrengingum fyrir síðustu alþingiskosningar. Það er ekkert skrítið að fólk mótmæli slíku; það ber vott um að það er ekki dautt úr öllum æðum, enn er sem betur fer lífsmark með þjóðinni. Það finnst ríkisstjórninni greinilega skelfileg tilhugsun og þurfi nú að beita "húsbóndavaldi."
Hvers vegna skyldi eiga að skera niður vegaáætlun? Ástæðan liggur í stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Vestfirðingum og fólki á norð-austurhorninu er ætlað að súpa seyðið af þeirri stefnu. Í henni liggur þensluvaldurinn sem ætlunin er að slá á.
Í hádegisfréttum RÚV var rifjuð upp aðför umhverfisráðherra á sínum tíma gegn landvörðum sem mótmæltu stórfelldum náttúruspjöllum við Kárahnjúka. Þeir létu stjórnast af tilfinningum og réttlætiskennd. Ég var í hópi þeirra sem tók ofan fyrir þeim og fagnaði framtaki þeirra. Þeim var hins vegar hótað öllu illu af yfirvöldum, sem sýndu smæð sína og virðingarleysi gagnvart skoðunum og tilfinningum annarra.  
Stundum eiga ráðherrar að þegja. Það hefði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra betur gert í dag.
Sjá HÉR og HÉR