Fara í efni

TVEIR LEIÐARAR OG EINN DV-PISTILL


Talsvert er nú fjallað um hugmyndir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavúk (með dyggum stuðningi Framsóknar) að gera Orkuveitu Reykjavíkur að hlutafélagi. Frá hendi verkalýðshreyfingarinnar, einkum BSRB, hafa verið færð fram rök gegn þessari hugmynd. BSRB hafa öðrum samtökum fremur haldið á loft því baráttumarkmiði evrópskrar verkalýðshreyfingar og hinnar alþjóðlegu hreyfingar að sama skapi, að grunnþjónusta á borð við vatn, rafmagn og fráveitur eigi ekki að einkavæða. Einmitt það óttast menn að á næstu árum kunni að vera á döfinni hvað OR varðar. Formúlan er alltaf eins: "Við erum bara að formbreyta, ekki stendur til að selja." Og síðan er selt.
Tveir leiðarahöfundar tóku málið til umfjöllunar í vikunni sem er nú á enda og einn fréttamaður. Örfá orð um þetta framlag til umræðunnar.

Morgunblaðsleiðari í hálfkveðinni vísu

Fyrst er það Morgunblaðið. Þar er sleginn góður varnaðartónn í upphafi leiðara um OR miðvikudaginn 5. sept. með hvatningu um málefnalega umfjöllun: "Allar ákvarðanir af þessum toga þurfa að vera vel ígrundaðar og ljóst að þær séu ekki aðeins gerðar breytinganna vegna."
Síðan er gerð grein fyrir helstu röksemdum fyrir formbreytingu án þess að djúpt sé kafað en síðan koma í lokin nokkuð sem í besta falli má skilgreina sem hálfkveðna vísu:
"Víða um heim er reynslan sú að erfitt er að knýja einkafyrirtæki til að veita almenna þjónustu þegar þau eru í einokunarstöðu eða markaðurinn skiptist upp. Bretar hafa til dæmis ekki farið vel út úr einkavæðingu á hlutum á rekstri lestakerfisins og ekki er langt síðan kreppa skall á í raforkumálum í Kaliforníu, sem rekja mátti til þess að einkafyrirtæki reyndu að hámarka gróða með því að leggja sem minnst í innviðina. Hins vegar er eðlilegt að eigendur Orkuveitunnar leiti leiða til að reka fyrirtækið með sem hagkvæmustum hætti, ekki síst með hagsmuni neytenda í huga. Verði hlutafélagavæðing Orkuveitunnar til þess er eðlilegt að láta af henni verða."

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sem við vitum ekki hver er, tekur skýrt fram að hann líti ekki svo á það skref sem nú er stigið jafngildi einkavæðingu. Reynslan kennir hins vegar annað. Nú leyfi ég mér að spyrja, varðandi síðustu setninguna í þessari tilvitnun í leiðara Morgunblaðsins, sem ég get ekki skilið öðru vísi en sem hvatningu að láta til skarar skríða um hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar: Hvílir ekki sönnunarbyrðin á stjórendum og Orkuveitu Reykjavíkur og ekki síst pólitískt kjörnum fulltrúum að sýna fram á með rökum að fyrirhuguð breyting sé tvímælalaust til góðs? Við erum ekki að tala um hvert annað fyrirtæki. Við erum að tala um vatnsból borgarbúa, Gvendarbrunnana og við erum að tala um Hellisheiðina, jarðvarmann sem þar er og einnig undir fótum okkar í Reykjavík, heitt vatn og kalt. Framtíð Orkuveitunnar á því ekki að afgreiða með svo yfirborðslegum hætti og mér sýnist raunin ætla að verða á. Fjölmiðlar verða að sjá til þess að sönnunarbyrðin verði látin hvíla á réttum aðilum. Því er hins vegar oftast öfugt farið! Andstæðingar einkavæðingar almannaþjónustunnar verða að færa rök fyrir því hvers vegna ekki eigi að einakvæða en hinir, sem stjórna, hafa öll ráð á hendi og taka ákvarðanirnar, komast upp með að fullyrða að þeir séu að gera rétt! Punktum basta. Engin rök. Bara fulllyrðingar.

Fréttablaðsritstjórinn og einka-eignarrétturinn

Sl. miðvikudag skrifaði Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins leiðara í blað sitt um þetta sama efni. Hann rifjar upp að árið 2001 hafi Orkuveitan verið gerð að sameignarfyrirtæki en þá hafi OR í reynd verið færð undir markaðsreglur. Starfsmenn hafi hætt að vera opinberir starfsmenn og fyrirtækið verið slitið úr tengslum við stjórnsýslulög. Þetta hafi verið gert með samþykki allra flokka. Það er rétt nema minna má á að þetta var málamiðlun því VG í Reykjavík lagðist þá einn flokka gegn hlutafélagavæðingu en sætti sig skár við sameignarformið.  
Síðan segir Þorsteinn: "Deilan um hugsanlega einkavæðingu, sem allir segjast vera andvígir, sýnist því sviðsett til þess að draga athyglina frá þeim raunverulega skipulagsvanda sem við er að etja á þessu sviði. Sá vandi snýst annars vegar um neytendahagsmuni og hins vegar um viðurkenndar samkeppnisreglur. Neytendahagsmunir eru hér í húfi bæði vegna ábyrgðar skattborgaranna og vegna verðmyndunar.
Samkeppnishagsmunirnir eru í uppnámi með því að viðurkenndum reglum þar að lútandi hefur á þessu sviði verið vikið til hliðar. Hér fléttast saman víðtækir almannahagsmunir.
Starfsemi Orkuveitunnar er tvískipt. Önnur hliðin lýtur að almannaþjónustu með einokunarrekstri á hitaveitu og vatnsveitu. Hin snýr að samkeppnisrekstri með raforkusölu meðal annars til stóriðju og mjög áhugaverðum áhættuverkefnum erlendis.
Að formi til afléttir hlutafélagsformið ábyrgðum af herðum skattborgaranna. Svo er hins vegar ekki í reynd. Rati fyrirtækið í fjárhagserfiðleika sem rekja má til samkeppnisrekstrar neyðast fulltrúar skattborgaranna til að koma því til hjálpar fyrir þá sök að þeir eru ábyrgir fyrir því að almannaþjónustan raskist ekki.
Meðan almannaþjónustureksturinn sem er einokunarstarfsemi er ekki skilinn frá samkeppnisrekstrinum breytir hlutafélagsvæðingin því litlu sem engu um raunverulega ábyrgð skattborgaranna. Sú virka ábyrgð er og verður í fullu ósamræmi við þær leikreglur sem gilda eiga um samkeppnisreksturinn.
...Þegar Alþingi fær þetta mál nú til meðferðar að frumkvæði Orkuveitunnar gefst færi á að láta nútímasjónarmið um samkeppnisreglur og almannahagsmuni ráða för með fullum aðskilnaði milli einokunar og samkeppni..."
Þessi leiðari er í anda höfundar síns. Hann er málefnalegur. Ég er honum hins vegar ekki sammála. Það er eflaust vegna mismunandi stjórnmálaviðhorfa okkar. Þorsteinn hefur meiri trú á einkaeignarrétti þegar raforkugeirinn er annars vegar en ég hef. Þorsteinn vill láta aðgreina það sem hann kallar einokunarþætti, vatn og hitaveitu frá samkeppnisrekstri, raforkunni. Hún eigi að vera sér á báti bæði vegna þess að tryggja verði jafnræði á markaði gagnvart samkeppnisaðilum og svo vegna hins að unnt verði að taka þátt í útrás án þess að það verði íþyngjandi fyrir skattborgarann.
Þorsteinn Pálsson gefur sér að hér eigi eftir að skapast samkepnnismarkaður með rafmagn. Vandinn er sá að þrátt fyrir tilraunir til að koma á fót raforkumarkaði bæði vestan hafs og austan, hefur það ekki tekist, fyrirtækjum hefur fækkað, þau hafa aftur og ítrekað orðið uppvís að samráði í stíl við olíufélögin okkar íslensku. Ýmsir aðrir alvarlegir skafankar hafa fylgt markaðsvæðingunni, kerfin hafa drabbast niður þegar stjórnendur hafa reynt að tryggja eigendunum hámarks skammtímagróða; eigendum sem síðan eru flognir ef meira kjöt er á beini annars staðar. Um þetta eru óteljandi dæmi og hef ég tilgreint mörg þeirra á þessum vettvangi.

Hættum að alhæfa um útrás

Varðandi útrásina vil ég taka undir með ritstjóra Fréttablaðsins að því leyti að hún getur verið spennandi. En gagnstætt því sem hann gefur í skyn þá tekur hún ekki einvörðungu til raforkunnar heldur einnig vatnsins, hvort sem það er heitt eða kalt. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu í lögum og reglugerðum að OR eigi aðild að dótturfyrirtækjum í útrás einsog núverandi. Þannig er þetta líka í reynd.
En hvað þá með ábyrgð skattborgarans? Þorsteinn Pálsson horfir framhjá því að ábyrgðin verður á hendi samfélagsins hvert sem eignarhaldið á orkufyrirtækjunum verður. Raforkufyrirtæki er ekki bara hús og fólk að störfum, heldur auðlindir, vatnið, jarðhitinn, fallvatnið...Lendi fyrirtæki, sem hefur þennan rekstur með höndum, í vandræðum versnar þjónustan og verði fyrirtækið gjaldþrota, kennir reynslan að hið opinbera verður að koma til skjalanna. Þetta þekkjum við af reynslu frá Evrópu, Bandaríkjunum og öðrum heimsálfum.
Ég segi að útrás geti verið æskileg og jafnvel spennandi. Gætum okkar þó á alhæfingum í þessu efni. Ekki var ég í hópi þeirra sem hrifust af yfirgangi Íslendinga í Búlgaríu þegar símanum þar var nánast stolið af þjóðinni. Ekki held ég að allt útrásarbrölt Íslendinga þoli stranga skoðun. Íslenskir kapitalistar virðast mér ekkert síður harðdrægir og ósvifnir en annarra þjóða kapítalistar. Ekki fá þeir stuðningstimpil og húrrahóp frá mér fyrir það eitt að vera Íslendingar. langt í frá.
Útrás til að græða og maka krókinn er eitt, útrás á grundvelli samhjálpar og samstarfs er allt annað. Ég er hlynntur útrás á síðari forsendum en hef efasemdir um fyrri þáttinn og tel vafasamt að nota eigi samfélagsþjónustuna og sameiginlegar auðlindir til að hlaða undir fjármálamenn sem hafa ekkert annað að leiðarljósi en að tryggja eigin hag.
Sjá t.d. HÉR og HÉR og HÉR og HÉR.

"Nútímaleg" fréttamennska

Ritstjóri Fréttablaðsins auglýsir eftir því að við gerumst "nútímaleg." Í mínum huga gerumst við þá fyrst "nútímaleg" að við horfumst í augu við allar staðreyndir og hliðar á álitamálum samtímans. Hinn raunsæi nútímamaður í mínum huga forðar okkur frá því að selja frá okkur grunnþjónustufyrirtæki samfélagsins, að ekki sé minnst á þær auðlindur sem þau búa yfir.
Og hver er þá hinn "nútímalegi" fréttamaður? Það er sá maður sem kafar í málin, les sér til og færir okkur fróðleik með umfjöllun sinni. Hinn nútímalegi fréttamaður þorir að vekja máls á atriðum sem ekki endilega falla í kramið hjá valdhöfum hverju sinni. Mér þykja skrif Jóhanns Haukssonar í DV að undanförnu vera í þessum anda. Í grein sem birtist eftir hann sl. fimmtudag, er að finna margt athyglisvert, sem m.a. lýtur að útrás í orkugeiranum en þar vísar JH í fjárfestingar sænska orkurisans Vattenfall á meginlandi Evrópu. Vattenfall gengur ágætlega. En ekki sænskum raforkukaupendum, almenningi, mér og þér. Mogginn og Fréttablaðið þurfa að taka einsog einn leiðara um þetta.
----------------------------------------------------------------------------------------

Eftrifarandi er grein Jóhanns Haukssonar í DV 6. september:
DV – kjallaragrein – fimmtudagur 6. september –
Jóhann Hauksson

Áleitnar spurningar
Íslensk orkufyrirtæki, sem til þessa hafa verið í eigu sveitarfélaga eða ríkis, hafa gott af útrás. En útrás þeirra verður aldrei með sama sniði og hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Það stafar af legu Íslands langt frá meginlandi Evrópu.
Finnskt orkufyrirtæki ræður nú til að mynda allri raforkusölu í Stokkhólmi, höfðuðborg Svíþjóðar.
Sænska raforkurisanum Vattenfall hefur verið komið undan regluverki ríkisins og breytt í hlutafélag en er þó enn að fullu í ríkiseign. Fyrirtækið ræður nú allri raforkusölu í Berlín og Varsjá svo nokkuð sé nefnt.
Heima sitja Svíar og spyrja sig hver ávinningurinn af bröltinu hafi í raun verið. Raforkuverðið til sænskra heimila hefur hækkað gríðarlega síðan raforkufyrirtækin í landinu voru losuð undan stjórn ríkis og sveitarfélaga og breytt í hlutafélög. Sveitarfélög sem í fjárhagskröggum seldu raforkurisunum veitufyrirtæki sín naga sig nú í handarbökin vegna kvartana sem berast frá heimilum og fyrirtækjum um firnamikla hækkun raforkuverðs.
Einn helsti fylgifiskur hlutafélgavæðingar orkufyrirtækjanna á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum á umliðnum árum er einmitt veruleg hækkun raforkuverðs til heimila og fyrirtækja og gríðarleg launahækkun forstjóranna. Sums staðar hefur þjónustan einnig versnað til muna eins og frægt varð í Kaliforníu á síðasta áratug. Frjálshyggjupostularnir komu þar í raun óorði á markaðshyggjuna með því að hækka raforkuverð og draga úr afhendingaröryggi á rafmagni. 
Það er full ástæða fyrir skattborgara þessa lands að gjalda varhug við þessari þróun. Nær væri að reyna að læra af mistökum annarra en hengja sig í trúarhugmyndir frjálshyggjunnar, en hennar bíða þau örlög að falla úr tísku eins og flest annað.

Hefur borgarstjórinn stefnu?

Það var bjargfastur skilningur Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra, að orkuveitur séu öryggisfyrirtæki í þágu borgaranna, tilheyri grunngerð samfélagsins og falli illa að samkeppnisrekstri. Þannig bæti það samkeppnisstöðu fyrirtækja við önnur lönd að verð á raforku og húshitun verði áfram með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum. Vilhjálmur hefur af þessum sökum verið mótfallinn því að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur þótt hann segist nú vera hlynntur því að breyta henni í hlutafélag.
Borgarstjórinn má vita, að meginreglan í öllum nálægum löndum hefur verið sú, að örfáum misserum eftir hlutafélagavæðingu opinberra fyrirtækja hafa hin nýju hlutafélög verið einkavædd.
Veit borgarstjórinn ekki, að það var einmitt hlutafélagaform Hitaveitu Suðurnesja sem varð til þess að engu munaði að það kæmist í meirihlutaeign einkaaðila fyrr í sumar með fulltingi Árna Sigfússonar, flokksbróður hans í Reykjanesbæ? Hvernig stendur á því að hann mælir með því nú að Orkuveitu Reykjavíkur verði breytt í hlutafélag? Vill hann bjóða þeirri hættu heim hjá Orkuveitunni sem hann afstýrði hjá Hitaveitu Suðurnesja?

Skattabölið

Hvernig stendur á því að forstjóri og aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur leggja til að fyrirtækinu verði breytt í hlutafélag? Ef allt fer sem annars staðar í Evrópu, mun það gerast með vissu að laun þeirra hækka með formbreytingunni og orkuverðið til fyrirtækja og heimila mun hækka. Eru þeir ekki í raun að biðja um umtalsverða launahækkun?
Og hvernig stendur á því að Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, býður Reykvíkingum upp á þá röksemd í fullri alvöru að það sé eftirsóknarvert að breyta Orkuveitunni í hlutafélag vegna þess að þá lækki skattar sem á hana eru lagðar. Er það ekki einmitt hagur skattborgaranna að fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur þoli og beri sem mesta skatta og standi undir eins mikilli velferð og þjónustu við borgarana og unnt er? Því lægri gæti skattbyrði heimilanna verið.

Aðför að velferð?

Hefur rekstur og rekstrarform Orkuveitu Reykjavíkur verið í ólagi?  Varla. Fyrirtækinu hefur tekist að bjóða almenningi eitt lægsta orkuverð sem um getur á Vesturlöndum.
Halda menn í alvöru að Evrópusambandið telji það skaðvænlegt að rekstur, sem er illa fallinn til samkeppni, fái lán á lægri vöxtum en önnur skyld fyrirtæki vegna ábyrgðar borgarsjóðs?  Þarf ekki að sýna fram á að orkuframleiðslan og orkudreifingin lúti lögmálum samkeppninnar? Áreiðanlega væri fínt að taka tilboði fyrirtækisins A hf um lagningu á skolpleiðslu að húsi mínu. En hvað ef mér bærist annað betra tilboð frá B hf?  Ætti ég þá að fá B hf til þess að leggja aðra skolplögn að húsi mínu?
Eins er farið með önnur veitufyrirtæki og samkeppnina.  Hér blasir við munurinn á rekstri þeirra og til dæmis ríkisbanka sem sjálfsagt var að breyta í hlutafélög og einkavæða.
Hugleiðum orð breska sérfræðingsins Dexters Whitfield í bók hans um almannaþjónustu og velferð á skilmálum fyrirtækjanna: “Einkavæðing er annað og meira en að svipta almenning eignum sínum. Hún er umfangsmikið herbragð til þess að endurskipuleggja velferðarþjóðfélagið á varanlegan hátt í þágu auðmagnsins.”

.