Fara í efni

UM MIKILVÆGI MENNINGAR


Friðrik Rafnsson
, þýðandi, skrifaði í gær greinina sem ég tel einna mikilvægasta fyrir þessar kosningar. Hún hét Menningin er kjölfestan og birtist í Fréttablaðinu. Boðskapur Friðriks er af svipuðum toga og boðskapur Ólafs Kvaran, fyrrum Listasafnsforstjóra og lisfræðings, fyrir síðustu Alþingiskosningar. Sjálfur hef ég reynt að halda uppi málflutningi af þessu tagi og gleður það jafna hjarta mitt að heyra tekið í þessa strengi. Grein Friðriks í Fréttablaðinu í gær segir það sem segja þarf:   

 Menningin er kjölfestan
Öfugt við það sem ýmsir stjórnmálamenn halda er menningin ekki bara til skrauts og hátíðarbrúks. Menning hverrar þjóðar er undirstaða sjálfsskilnings hennar og sjálfsmyndar sem hún hefur þróað og fágað í gegnum aldirnar og lagað að sífellt nýjum og breyttum tímum. Hún er líka í senn bakhjarl og aðgöngumiði að samskipum við aðrar þjóðir. Án Íslendingasagnanna, Hallgríms Péturssonar, Halldórs Laxness, Kjarvals, Jórunnar Viðar og Bjarkar værum við óáhugavert og menningarsnautt hyski sem byggi í kuldalegum útnára norður í Ballarhafi.
Í því umróti sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum undanfarna mánuði (og á eflaust eftir að standa talsvert lengur) er því brýnna en nokkru sinni fyrr að efla lista- og menningarstarfsemi með öllum tiltækum ráðum. Styrkja þannig og efla kjölfestu þjóðarskútunnar. Þess vegna er sérlega þakkarvert og sýnir bæði framsýni og hugrekki að núverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að efla og fjölga listamannalaunum á komandi árum.
Þetta er merki um að nú sé gildismat hérlendis að skána á ný, hrímþursarnir séu á förum og manneskjur að taka við. Að yfirveguð rödd hins viti borna manns (homo sapiens) sé aftur farin að heyrast í gegnum öskur hagræna mannsins (homo economicus) sem hefur yfirgnæft allt annað undanfarin ár og komið okkur á kaldan klaka.

Sjá þessar slóðir: https://www.ogmundur.is/is/greinar/auglysir-eftir-umraedu-um-menningarpolitik
https://www.ogmundur.is/is/greinar/menning-og-lydraedi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ur-menningarfjarsjodi