VG OG STÓRIÐJAN
Kæri Ögmundur.
Finnst þér ekki að Haffi, sem skrifar sem lesandi, sé á hálum ís þegar hann dregur í efa afstöðu Samfylkingarinnar til álvers í Helguvík? Haffi vísar til ummæla vesæls iðnaðarráðherra, og miklu kokhraustari umhverfisráðherra á Alþingi þegar spurt var út í byggingu álversins. Sjálfum finnst mér ádeila Haffa á hálum ís því stefna Samfylkingarinnar er nákvæmlega hin sama og VG í þessu efni. Við höfum sagt, að ekki verði gefin út frekari leyfi til rannsókna og nýtinga á óröskuðum svæðum fyrr en fyrir liggi rammaáætlun um náttúruvernd og nýtingu. Við höfum líka sagt, að ríkisstjórnin muni ekki leggja fram sérstakt frumvarp sem bannar beinlínis tilteknar framkvæmdir. Hið merkilega er, að þetta er nákvæmlega það sem formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, sagði í stórmerku viðtali við Stöð 2, sem Stöðin túlkaði svo að væri bónorð til Sjálfstæðisflokksins um myndun ríkisstjórnar. Þar sagði Steingrímur svart á hvítu, að VG myndi reyna að fara eins langt og það gæti, en ekki setja neitt "ultimatum." Efnislega sagði Grímur, að ef ekki væri hægt tæknilega og lagalega að koma í veg fyrir Helguvík þá yrði svo að vera. Það er ekki hægt að túlka öðru vísi en svo að Steingrímur hafi fortakslaust svarið af VG áform um að banna Helguvík - enda kom ekkert slíkt frumvarp fram á vorþingi frá ykkar góða flokki. Steingrímur hefur þar að auki fyrir 2 árum blessað í bak og fyrir þá virkjunarkosti sem er að finna í neðri Þjórsá, en um orkuna þaðan eru Helguvíkurmenn einmitt að slást. Svo ef einhver hefur tekið á sig ábyrgð varðandi Helguvík í bak og fyrir, þá er það Steingrímur J. Sigfússon fyrir hönd VG. Bestu kveðjur til þín og lesenda þinna.
Össur.
Heill og sæll og þakka þér fyrir bréfið. Sannast sagna standa menn nú agndofa yfir því sem er að gerast hér í stóriðjumálum. Stóriðjan er á flugi sem aldrei fyrr. Rembingurinn og hrokinn í Alcanforstjóranum í íslenskum fjölmiðlum undanfarna daga vekur mér óhug. Ég sakna þess mjög að ríkisstjórnin skuli enga tilburði sýna til að stöðva þennan mannskap. Umhverfisráðherrann situr á áhorfendabekk og iðnaðarráðherrann, Össur Skarphéðinsson, segist vona að orkufyrirtækin selji orku til fjölbreytilegs kaupendahóps en einblíni ekki á stóriðjuna. En þá spyr ég: Stóð ekki til að berjast með oddi og egg fyrir stóriðjustoppi í fimm ár?
Þú manst: Fagra Ísland!
Er það allt gleymt?
Hvað Steingrím J. Sigfússon áhrærir þá hefur hann barist af meiri krafti en flestir aðrir gegn stóriðjubrjálæðinu. Vissulega kunna því að vera einhver takmörk sett hvað hægt er að stöðva - en frumskyldan er að reyna. Það gerir Samfylkingin ekki. Í þessu efni geta menn gert meira en í veðri er látið vaka. Þegar talað er um hugsanlega skaðabótaskyldiu ríkisins gagnvart Landsvirkjun liggur við að ég skelli upp úr. Erum það ekki við sem eigum Landsvirkjun, þjóðin? Erum það ekki við sem ráðum þessu? Ætlum við að lögsækja okkur sjálf? Ennþá erum það við sem getum ráðið. Það er ekki enn búið að selja Landsvirkjun. Hvað ætlar Samfylkingin að gera í því efni? Við Steingrímur J. Sigfússon og félagar erum í stjórnarandstöðu. Samfylkngin flýr ekki sjálfa sig með árásum á okkur. Það er hins vegar greinlega stefnan. Sú stefna kann ekki góðri lukku að stýra, hvorki fyrir Samfylkinguna né Fagra Ísland.
Ögmundur
Bréf Haffa sem Össur vísar til er HÉR