Fara í efni

ÆTLAR VÆNTANLEGUR FRAMBJÓÐANDI EKKI AÐ FAGNA KRATASTEFNU?

Heill þér Ögmundur og gleðilega hátíð!
Nú er lag til að fagna. Ég og aðrir umhverfisverndarsinnar bíðum eftir því að þú fagnir þeirri ákvörðun Hitaveitu Suðurnesja að falla frá umsókn um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Það voru kratarnir í Hafnarfirði sem áttu stóran þátt í þessari ákvörðun HS. Bæjarstjórnin fagnaði ákvörðuninni og hvatti Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun til að falla einnig frá umsókn um rannsóknarleyfi. Þetta eru sömu kratarnir og ætla að láta bæjarbúa ákveða með atkvæðagreiðslu hvort af stækkun álversins í Straumsvík verði. Ég veit að VG hefur reynt að gera þá atkvæðagreiðslu torkennilega og kannski fer svo að eithvað sé rotið við þá ákvörðun að leggja til friðun Brennisteinsfjalla að ykkar mati.
Ég bíð eftir viðbrögðum væntanlegs frambjóðanda í mínu kjördæmi við þessari ákvörðun Gunnars Svavarssonar og annara stjórnarmanna HS.
Kveðja Sáfi

Ég fagna því svo sannarlega ef niðurstaðan verður sú að Brennisteinsfjöllum verði hlíft. Ég hef fjallað um þetta á síðunni og vitnað sérstaklega í Ómar Ragnarsson um nákvæmlega þetta efni. Þá hafði ég nýlega sótt stórfund í Hafnarfirði á vegum Ungra jafnaðarmanna þar sem fjallað var um stækkun álversins í Straumsvík. Þar voru fulltrúar "kratanna" sem þú nefnir svo og VG, fulltrúar Alcan og Sólar í Straumi. Nokkuð ljóst þótti mér vera hvernig línurnar lágu. En látum það vera. Þarna var einnig Ómar með kvikmynd sem hann hafði tekið í Brennisteinsfjöllum og opnuðust þá augu margra fyrir þessari náttúruperlu. Áður hafði ég stutt ályktanir frá VG í Reykjavík til verndar Brennisteinsfjöllum. VG í Hafnarfirði var, eftir því sem ég veit best, fyrst pólitískra félaga að fagna ákvöðrun um að falla frá rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Mér er sama hvaðan gott kemur og vonandi verða "kratarnir" umhverfisvænni en hingað til í slagnum um stækkun álversins í Straumsvík. Sá slagur er ekki án tengsla við Brennisteinsfjöll eða virkjanir í Þjórsá, Jökulsánna í Skagafirði, Skjálfandafljóti...
Sjá umfjöllun um hugleiðingar Ómars og fundinn í Hafnarfirði HÉR - HÉR , HÉR
og HÉR.
Með kveðju,
Ögmundur