BER STJÓRNMÁLA-MÖNNUM AÐ STANDA VIÐ GEFIN LOFORÐ?
Undanfarnar vikur hefur komið berlega í ljós að „loforð" er ekki það sama og loforð. Ýmsir sem nú sitja í ríkisstjórn sögðu fyrir kosningar að kosið yrði um áframhald viðræðna við Evrópusambandið [hér eftir nefnt ESB]. Augljóslega var það gert í þeim tilgangi að afla fylgis og halda í fylgi. Tal um meintan „ómöguleika" nú hefur holan hljóm, sökum þess að sá sami „ómöguleiki" hlaut þá að hafa legið fyrir þegar loforðin voru gefin kjósendum. Mun líklegra er að þetta sé dæmigerð eftiráskýring. Hvað sem líður afstöðu fólks til inngöngu í ESB þá snýst málið um trúverðugleika; hvort yfirleitt er hægt að taka mark á loforðum stjórnmálamanna. Eftir að fréttastofa RUV sýndi viðtöl, fyrir síðustu kosningar, við núverandi ráðherra, ætti engum að þurfa að dyljast að loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu voru gefin. Um það er ekki hægt að deila. Spurningin er einungis sú hvaða gildi, ef eitthvað, slík loforð hafa.
Loforð í skilningi laga
Til frekari útskýringa er ekki úr vegi að skoða lögfræðilegar skilgreiningar á hugtakinu loforð. Hér þarf að vísu að fara varlega í samanburð enda „pólitísk loforð" um margt annars konar en loforð í skilningi samningaréttar. Skilgreining á loforði er samkvæmt orðabók Mozley & Whiteley´s: „Skuldbinding aðila gagnvart öðrum aðila, af frjálsum vilja, til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Það er frábrugðið samningi að því leyti að samningur inniheldur hugmynd um gagnkvæmni[i] sem loforð gerir ekki."[ii] Í þessu felst að loforð getur verið einhliða en samningur byggir á því að báðir (eða fleiri) aðilar taka á sig skyldur.
Sé þetta skoðað í samhengi við kosningaloforð er ljóst að stjórnmálamaður sem gefur loforð lofar kjósendum einhliða að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. En vert er að athuga að kjósandinn ynnir af hendi þá borgaralegu „skyldu" sína á móti loforði stjórnmálamannsins að kjósa hann! Tengslin eru því í raun tvíhliða [enda þótt fé, eða annars konar greiðsla, gangi ekki á milli aðila fyrir atkvæðið!]. Hins vegar skiptir máli í samningarétti hvað sá hefur í huga sem gefur loforð (loforðsgjafi) sem og sá sem loforð beinist að (loforðsmóttakandi). Nú kann einhver að benda á það að kjósendur viti, eða megi vita, að „aldrei sé neitt að marka kosningaloforð" og því geti þau aldrei verið bindandi á nokkurn hátt. En málið er ekki alveg svo einfalt. Hér koma tvær kenningar til skoðunar. Á íslensku eru þær gjarnan nefndar viljakenningin og traustskenningin.
Viljakenningin snýr að því hvað loforðsgjafi hafði í huga þegar hann gaf loforð. Traustskenningin fjallar hins vegar um það traust eða væntingar sem ætla má að loforð hafi skapað hjá loforðsmóttakanda.[iii]
Stjórnmálamaður sem gefur kosningaloforð gefur það til alls „mengis kjósenda" en ekki gagnvart ákveðnum kjósendum. Hins vegar má vel hugsa sér að umtalsverður hluti kjósendanna í því sama mengi hafi þær væntingar að loforðið verði efnt að kosningum loknum (sbr. og réttmætar væntingar - legitimate expectations) og hyggist kjósa á þeim forsendum. Sé litið þannig á málin, má segja að loforðið sé bindandi fyrir þann sem það gefur. Og þá í raun kominn á „samningur" á milli stjórnmálamannsins annars vegar og kjósenda hins vegar.[iv]
Í fordæmisrétti (common law) er til hugtakið „promissory estoppel" [Reliance-based estoppel]. En sá kunni breski dómari, Lord Denning, endurvakti og mótaði hugtakið í málinu Central London Property Trust Ltd v High Trees House Ltd, frá 1947. Denning skilgreinir „estoppel" þannig að um sé að ræða loforð sem ætlað er að mynda lagalegt samband sem, með vitund loforðsgjafa, gagnaðili reiði sig á. Það er að segja, hafi loforðsmóttakandi reitt sig á loforðið, að það yrði efnt, þá er loforðsgjafinn bundinn af loforðinu. Það er kjarni málsins. Og þótt samband stjórnmálamanns og væntanlegs kjósanda sé ekki lagalegt samband í „hefðbundnum skilningi" er alls ekki úr vegi að beita þessari nálgun. Enda má vel spyrja: ef aldrei er hægt að að treysta neinu um efndir kosningaloforða, til hvers gefa menn þá slík loforð? Er það virkilega markmiðið að hafa kjósendur að fíflum?
Mótmæli fólks fyrir framan Alþingishúsið, undanfarnar vikur, benda til þess að margir kjósendur hafi haft þær væntingar að stjórnmálamenn stæðu við sín kosningaloforð, s.s. um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Að þeir telji sig í raun illa svikna. Hafi þessir kjósendur kosið á þeim forsendum, og í þeirri góðu trú, að kosningaloforðin yrðu efnd, má segja að reiði og óánægja sömu kjósenda sé fullkomlega skiljanleg og eðlileg - réttmæt. Þjóðaratkvæðagreiðsla væri því í raun ágæt mæling á þjóðarviljann, sértaklega ef kosningaþátttaka yrði góð. En í því sambandi verður aldrei of oft áréttað að þingmenn og stjórnvöld sækja umboð sitt til kjósenda, en ekki öfugt.
Þá verður að taka undir það sem bæði Þorsteinn Pálsson og Sigurður Líndal hafa sagt, um að þingið geti bundið sjálft sig [bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla]. Tal um tæknilegan mun á þingsályktun og lögum, sem aðrir halda fram, er í raun útúrsnúningur. Sá munur skiptir nákvæmlegra engu máli í þessu sambandi. Enda mætti sem best hafa yfirlýsingu á kjörseðlinum, þess efnis að þing og stjórnvöld skuldbittu sig til þess að lúta niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar en boða ella til kosninga.[v] Með því móti færi enginn kjósandi í grafgötur um það að þjóðaratkvæðagreiðslan væri bindandi. Slíkt fyrirkomulag væri hreinlegt og heiðarlegt gagnvart kjósendum. Framhald viðræðna við ESB er ekki einkamál stjórnvalda heldur mál allrar þjóðarinnar.
Nokkrar slóðir sem tengjast efninu
Ali, Driss Ben. „A New Social Contract between Government and Citizens." Zawaya. N.p., n.d. Web. 10 Mar. 2014. <http://zawaya.magharebia.com/old_zawaya/en_GB/zawaya/opinion/483.html>.
BAGCHI, ADITI. „SEPARATING CONTRACT AND PROMISE." FLORIDA STATE UNIVERSITY LAW REVIEW 38 (n.d.): 709-58. 2011. Web. 10 Mar. 2014. <http://www.law.fsu.edu/journals/lawreview/downloads/384/Bagchi.pdf>.
Fried, Charles. Contract as Promise. Cambridge, Massachusetts: Harvard UP, 1981. Web. 10 Mar. 2014. <http://www.law.harvard.edu/programs/about/privatelaw/contract.as.promise.1.56.fried.pdf>.
KITSCHELT, HERBERT. „LINKAGES BETWEEN CITIZENS AND POLITICIANS IN DEMOCRATIC POLITIES." COMPARATIVE POLITICAL STUDIES 33.6/7 (2000): 845-79. Sage Publications, Inc. Web. 10 Mar. 2014. <http://chenry.webhost.utexas.edu/core/Course%20Materials/Kitschelt/CFB47C5882ABD9F5108854435730C7EF39626DE168.pdf>.
„Political Promises Must Be Treated As Legally Binding Contracts." There Will Be Truth RSS. N.p., 1 Nov. 2008. Web. 10 Mar. 2014. <http://www.therewillbetruth.com/?p=100>.
Rauscher, Frederick. „Kant's Social and Political Philosophy." Stanford University. Stanford University, 24 July 2007. Web. 10 Mar. 2014. <http://plato.stanford.edu/entries/kant-social-political/>.
Standler, Ronald B. „Promises by Political Candidates Not Legally Enforceable in the USA." N.p., 29 Apr. 2012. Web. 10 Mar. 2014. <http://www.rbs2.com/elecprom.pdf>.
„The Doctrine of Consideration." Insite Law. N.p., n.d. Web. 10 Mar. 2014. <http://www.insitelawmagazine.com/ch5consideration.htm>.
[ii] Penner, J. E. (2001). Mozley & Whiteley´s Law Dictionary. 12th Edition. Bls. 278.
[iii] Sjá einnig: http://legal-dictionary.thefreedictionary.com/contracts
[iv] Sjá t.d: http://conservativehome.blogs.com/files/a-contract-with-the-voters-1.pdf
[v] Sjá enn fremur: http://www.vilaweb.cat/noticia/4173308/20140214/enough-already-with-saying-the-referendum-is-illegal.html