HÆKKUN SJÁVAR-MÁLS KALLAR Á NÝJA HUGSUN VIÐ FRAM-KVÆMDIR
Því er spáð að fari fram sem horfir, muni ýmsar strandborgir og eyjar fara undir sjó á næstu áratugum. Rannsóknir vísindamanna benda til þess að sjávarmál hafi hækkað um 3.5 millimetra á ári síðan um 1990. Þróunin er tengd hnattrænni hlýnun.[i]
Taka þarf mið af aðstæðum
Umræðan um flugvöllinn sýnir vel að mikið skortir á framtíðarsýn. Helst er rætt um „færslu flugvallarins" sem skipulagsmál og hagfræðilegt viðfangsefni. Það er fráleit nálgun. Fjölmargir þættir koma þar fyrr við sögu. Í fyrsta lagi vistfræðilegir þættir, atriði sem snúa að vistkerfi Vatnsmýrarinnar og nálægu umhverfi. Í öðru lagi jarðfræði svæðisins. Í þriðja lagi verkfræðin og í fjórða lagi hagrænir þættir og skipulagsmálin. En ljóst má vera að standist svæðið ekki kröfur sem gera verður í ljósi vistfræði, jarðfræði og verkfræði er tómt mál að tala um kostnað og skipulagsmál, enda þá svæðið ónothæft sem byggingarland. En á það hefur Jón Hjaltalín Magnússon nýlega bent í ágætri, nýlegri grein í Fréttablaðinu.[ii]
Rannsóknir benda til þess að landið sem um ræðir sígi um 3 millimetra á ári, sbr. viðtal Jónasar Jónassonar við Einar Pálsson verkfræðing, þann 29. febrúar árið 2008.[iii] En í viðtalinu kemur fram að lægsti punktur á svæðinu sé við gamla Reykjavíkurapótek. Það er því ljóst að ekki verður einungis við hækkun sjávar að etja, heldur er landið sem um ræðir allt á „niðurleið". Að ætla sér að ráðast í umtalsverðar byggingaframkvæmdir í botnlausri mýri, sem þar að auki gæti orðið náttúruöflunum að bráð á næstu áratugum, getur vart talist góð eða skynsamleg ráðstöfun. Þrengslin, og skortur á landsvæði, á Íslandi eru tæplega slík að kalli á „lausnir" sem þessar. En framkvæmdir í Vatnsmýri kunna einnig að snerta alþjóðlegar skuldbindingar. Þar er að sjálfsögðu átt við Ramsar sáttmálann[iv] um verndum votlendis.[v]
Þessu til viðbótar verður varla ráðið af „umræðunni" um flugvöllinn að raunhæf staðsetning sé tilgreind (enda þótt fyrir liggi skýrsla um málið). En í því sambandi þarf mjög að huga að aðflugsskilyrðum, veðurfari, möguleikum nýs vallar sem varaflugvallar og fjölmörgum öðrum atriðum. Núverandi flugvöllur uppfyllir nefnd skilyrði. En svo virðist sem ýmsir borgarfulltrúar, fyrrverandi og núverandi, séu algerlega úti að aka í þessum efnum öllum og líti eingöngu á málið sem pólitískt viðfangsefni.
Að hugsa í nýjum lausnum
Á sama tíma og íslenskir stjórnmálamenn [sumir hverjir] telja brýnt að ráðast í byggingaframkvæmdir í mýrinni á flugvallarsvæðinu, hugsa hollenskir arkitektar á allt öðrum nótum. Þeir hugsa til lengri tíma, hanna og þróa framtíðarbyggðina á floti. En eins og flestum er kunnugt, þá er land af skornum skammti í Hollandi (eins og miklu víðar). Hækkun sjávarmáls er mætt með því móti að láta hús og mannvirki fljóta.[vi]
(Heimild: http://www.ecoboot.nl/artikelen/floating_houses.php)
Um þetta má lesa á heimasíðu „ecoboot". Öldum saman hafa menn barist í Hollandi gegn innrás vatns með landfyllingum, stíflum og stíflugörðum. En heimspekin er að breytast í kjölfar hlýnunar sem kennt er um 20 cm hækkun sjávarmáls á síðustu öld. Í stað þess að losa sig við vatnið, reyna Hollendingar að búa ofan á því. Og þar sem rignir orðið meira, hefur vatnsmagn aukist í landinu sem er að hálfu undir sjávarmáli eins og menn vita. Þannig hefur þróast hugmyndin um fljótandi þorp á vatni.[vii]
Lausnir sem þessar kunna að virðast fjarstæðukenndar á Íslandi, enn sem komið er, en það gæti breyst. Eðli málsins samkvæmt, mun áhrifanna gæta á láglendi, við strendur. Blanda af „Feneyjum" og flotbyggð gæti orðið „framtíðin" í „Vatnsmýrinni". Löngusker væru ekki lengur inni í myndinni sem flugvallarstæði, nema þá fyrir „flotflugvöll"[viii]. Sama gildir um núverandi flugvallarstæði. Við þessar aðstæður þarf að hugsa allt skipulag og hönnun mannvirkja uppá nýtt. En að ætla sér að afmá núverandi flugvöll (hafandi ekki raunhæfan valkost í sjónmáli) fyrir byggingar sýnist að flestu leyti galin hugmynd. „Að fortíð skal hyggja þá framtíð skal byggja".[ix]
Meira um það síðar.
[i] Sjá t.d.: http://ocean.nationalgeographic.com/ocean/critical-issues-sea-level-rise/
[ii] http://www.visir.is/vatnsmyrin-er-votlendi-og-ohentugt-byggingarland/article/2013710049983
[iii] http://podcast.ruv.is/kvoldgestir/2008.02.29.mp3
[iv] http://www.ramsar.org/cda/en/ramsar-home/main/ramsar/1_4000_0__
[v] Hvers konar svæði teljast mikilvæg í þessu sambandi er matsatriði. Sjá einnig: http://www.birdlife.org/action/change/ramsar/
[vi] Sjá t.d.: Floating Architecture for a Changing Climate. http://www.youtube.com/watch?v=De9NX0VMB2g
[vii] http://www.ecoboot.nl/artikelen/floating_houses.php
[viii] http://www.industrytap.com/a-look-at-the-20-billion-dollar-floating-airport/6644
[ix] Í þessu tilviki væri réttara að segja: „Að framtíð skal hyggja þá fortíð skal byggja"