LÁNASJÓÐUR ÍSLENSKRA NÁMSMANNA OG ÓJÖFNUN MENNTUNAR-TÆKIFÆRA Í LJÓSI ENDURSKIL-GREININGAR
Nýlega lýsti framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, þeirri skoðun sinni að endurskoða þurfi hlutverk og útlánareglur lánasjóðsins. Þóttist menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, taka þann „bolta" af hendingu á lofti þótt þetta væri greinilega illa undirbúið leikrit (eitt af mörgum). Reynt var að þyrla upp moldviðri þess eðlis að afskriftir væru miklar hjá sjóðnum og hlutir væru ekki kallaðir sínu rétta nafni. Þar var átt við það að hluti lánanna væri í raun á formi styrkja þar sem vextir eru niðurgreiddir (miðað við markaðsvexti í glæpabankakerfinu). Áður hefur stjórnarformaður LÍN, Jónas Friðrik Jónsson, lýst áþekkum efasemdum.[i] Allt er þetta hluti af sama leikritinu.
Sumir fjölmiðlar virtust ekki sjá í gegnum þetta illa leikna leikrit sem þarna var kynnt til sögunnar og átta sig á því hvað raunverulega býr að baki. Sumir hagfræðingar létu jafnvel heimska sig með þessum áróðri. Í stuttu máli þá snýst þetta EKKI um fjárhag og fjárreiður LÍN. Það er allt annað sem þarna býr að baki.
Með því að koma í gang „umræðu" af þessu tagi er reynt á lævíslegan máta að sá fræjum tortryggni gegn námslánum og námsmönnum. Alltaf er einhver hluti fólks sem lætur teyma sig á asnaeyrunum og tekur yfirborði áróðursins sem hinu raunverulega innihaldi. Það sem hangir að sjálfsögðu á spýtunni er að tala LÍN niður og koma því inn hjá kjósendum og skattgreiðendum að sjóðurinn sé ekkert annað en byrði á þeim og beri því að leggja niður! Í framhaldinu verði boðin „námslán" í glæpabankakerfinu á okurvöxtum. Um það snýst þetta mál. Að skapa óánægju er alltaf fyrsta skrefið þegar eyðileggja þarf stofnanir og fyrirkomulag. Þá er hægt að réttlæta niðurrifsstarfsemi í kjölfarið með þeim „rökum" að „mikil óánægja sé með kerfið". Fyrst er búið til vandamál og síðan boðið upp á „lausnir".
Þar með væri kippt algerlega grunninum undan jöfnum aðgangi til náms á Íslandi og erlendis sem er og hluti ætlunarverksins. Græðgisfólk í þjóðfélaginu vill að sjálfsögðu hafa sína aðstöðu í friði fyrir „ásælnum almenningi" sem gerir kröfur um jafnan aðgang til menntunar og atvinnu. Þáttur í því er að leggja niður stofnanir sem stuðlað geta að jöfnun námstækifæra. Þannig fæst „betra skipulag" á stéttaskiptinguna sem aftur gerir „duglegu" græðgisfólki mun auðveldar fyrir að deila og drottna. Hafi fólk ekki þegar áttað sig á þessu væri ráð að gera það sem fyrst. Enda þarf meiriháttar sjálfsblekkingu til þess að komast að annari niðurstöðu. Raunar ætti íslensk verkalýðshreyfing að láta málið til sín taka enda mikið hagsmunamál fyrir þá sem henni tilheyra, ekki síður en húsnæðismálin.
Endurskilgreiningaraðferðin
Ein af þeim aðferðum sem oft hefur verið beitt undanfarna áratugi á Íslandi er „endurskilgreiningaraðferðin". Oft hafa áróðursmenn í hópi þingmanna og ráðherra beitt þeirri aðferð sem og embættismenn. Aðferðin felst í stuttu máli í því að snúa staðreyndum á hvolf og „skilgreina sig" út úr „vandanum". Skulu hér nefnd nokkur dæmi um þessa áhrifaríku aðferð. Fyrsta dæmi: „Áróðursráðherra" kemur fram með þá fráleitu fullyrðingu að fjöldi eldri borgara (67 ára og eldri) á Íslandi sé orðinn „áhyggjuefni" og að bregðast verði við „vandanum" sem sé að gera útaf við íslenskt samfélag. Þá er spurningin sú hvernig beita má „endurskilgreiningaraðferðinni" á „vandamálið". „Lausnin" felst í því að endurskilgreina hugtakið „eldri borgari" upp á nýtt með því að færa aldursviðmiðið aftar. Setja markið t.d. við 80 ára aldur. Þar með „fækkar" eldri borgurum sjálfkrafa með einu pennastriki. Aldurssamsetning þjóðarinnar er að vísu sú sama og áður en það skiptir ekki máli þegar endurskilgreiningaraðferð er beitt.
Annað dæmi: Ofstækisfullur frjálshyggjumaður á þingi lýsir áhyggjum sínum af því að fjöldi sjúklinga sé að sliga heilbrigðiskerfið og að bregðast verði við „vandanum". Aftur kemur endurskilgreiningaraðferðin að góðu haldi. Frjálshyggjumaðurinn leggur auðvitað til að skilgreiningu á hugtakinu „sjúklingur" verði breytt, þannig að enginn falli undir hugtakið nema að hann sé bundinn við hjólastól. Þar með telur frjálshyggjumaðurinn að „vandinn" hafi verið leystur á snjallan og skilvirkan hátt og fjöldi sjúklinga minnkaður að „þörfum atvinnulífsins". Flokks- og skoðanabræður frjálshyggjumannsins taka auðvitað undir það, allir sem einn.
Skoðum nú hvernig beita má endurskilgreiningu á „vandamálið" LÍN. Eins og reglur sjóðsins hafa verið lengi er talsvert mikil breidd í því hvað telst lánshæft nám og hverjir uppfylla skilyrði til töku námslána. Þriðja dæmi: Frjálshyggjuþingmaður á Alþingi kveður sér hljóðs og segir kostnað skattgreiðenda af LÍN alveg að sliga þá. Námsmenn séu bara að leika sér árum saman, skili engum árangri, og læri þar að auki tóma vitleysu sem gagnist þjóðfélaginu lítið sem ekkert. Þetta sé veruleg vá fyrir þjóðfélagið. Frjálshyggjuþingmaðurinn leggur til „lausn" á „vandamálinu". Hún sé fólgin í endurskilgreiningu, þannig að námsmaður samkvæmt reglum LÍN sé einungis sá sem leggur stund á nám á Íslandi, í fjórum greinum, þ.e. lögfræði, viðskiptafræði, hagfræði og læknisfræði. Þá sé það gert að skilyrði að námsmaður sé eigi eldri en 50 ára[ii] til þess að fá námslán. Með þessu móti hefur mestur hluti „vandans" verið „skilgreindur" í burtu. Síðar setur sami frjálshyggjuþingmaður auðvitað fram þá tillögu að LÍN verði lagður niður og verkefni hans færð þeim sem „allt gera betur en hið opinbera" þ.e. einkaglæpabankarnir.
Vandkvæðin við endurskilgreininguna
Vandkvæðin við endurskilgreiningaraðferðina eru augljóslega þau að aðferðin breytir nákvæmlega engu um raunverulega stöðu mála í samfélaginu. Enda ljóst að aðferðinni er ekki beitt í þeim tilgangi að leysa einhver raunveruleg vandamál, heldur búa til „vandamál" og draga úr rétti og tækifærum almennings í kjölfarið þegar „lausnirnar" eru komnar til framkvæmda. Þeir sem aðhyllast endurskilgreininguna virðast telja sjáfum sér trú um að hægt sé að komast fram hjá lögfestum mannréttindum[iii] einungis með því móti að klæða niðurrifsstarfsemi í annan búning - endurskilgreina rétt til menntunar í tilviki LÍN.[iv]
Með öðrum orðum, þótt endurskilgreiningin breyti engu á meðan hún er einvörðungu fræðilegt skilmingarvopn þá er henni ætlað að hafa áhrif í reynd sem umturna samfélaginu og hafa um leið mikilvæg réttindi af almenningi. En endurskilgreiningarsérfræðingarnir hylja raunverulegan tilgang þoku þangað til allt er um seinan. Markvisst er unnið að því að etja saman þjóðfélagshópum og reyna þannig að splundra samstöðu um ákveðin gildi og eyðileggja stofnanir innan frá. Gott dæmi um það er Landspítalinn.
Rekinn er áróður þess efnis að „hver standi sjálfum sér næstur" og eigi ekki að „greiða fyrir aðra" þótt þeim „þóknist" að verða veikir! Þannig er reynt að höfða til eigingirni og síngirni hvers og eins. Þeir sem láta blekkjast lifa í voninni um að verða aldrei veikir sjálfir og greiða því ekkert nema því aðeins að þeir þurfi heilbrigðisþjónustu af einhverju tagi. En til þess er samtrygging viðhöfð að lágmarka áhættu (kostnað) hvers og eins enda ljóst að enginn veit fyrirfram hvort hann eða hún þarf heilbrigðisþjónustu.
Sama viðhorf er að sjálfsögðu uppi hvað menntun snertir og LÍN. Reynt er að koma því inn hjá fólki að „hver standi sjálfum sér næstur" og eigi ekki að greiða fyrir „menntun annara" eins og það er kallað. Alltaf látið eins og samfélagið sé ekki til og þetta sé einungis spurning um geðþótta hvers og eins. Endurskilgreining[v] er því lævís aðferð til þess að læðast aftan að fólki.
Vilji fólk „kalla hlutina sínu rétta nafni" væri ráð að skýra fyrir þjóðinni hvaða áform eru raunverulega í gangi með áróðri sem rekinn er gegn ýmsum opinberum stofnunum á Íslandi s.s. LÍN. Tilraunir til glæpavæðingar samfélagsins munu halda áfram svo lengi sem einhverjar ríkisstofnanir eru eftir. Glæpaöflin komust með eftirminnilegum hætti í fiskveiðiauðlindina og bankakerfið. Næsta orusta mun standa um orkuauðlindirnar,[vi] að verjast því að þjóðin verði rænd enn eina ferðina. Þá verður miskunnarlaust beitt blekkingum og endurskilgreiningaraðferðin notuð til þess. Glæpabankakerfið[vii] vill að sjálfsögðu ná til sín þeirri lánastarfsemi sem LÍN sinnir nú. Það má ljóst vera. Við það myndi hagur námsmanna hins vegar versna stórlega enda þá um algera grundvallarbreytingu að ræða. Það er nærtækt að rifja upp hvernig glæpabankarnir[viii] fyrir hrun reyndu að kaffæra Íbúðalánasjóð. Húsnæðiskaupendur á Íslandi högnuðust ekki á því þegar upp var staðið!
Þegar allt kemur til alls snýst málið um það hvort menn vilja reka siðað samfélag á Íslandi, með því sem til þarf, EÐA hvort græðgisfólk og fjárglæframenn, innan og utan glæpabanka, fá að fara sínu fram og stjórna Íslandi eins og „spilavíti" þar sem „hver og einn er sjálfum sér næstur" og keppir um að troða skóinn af öðrum. Það er „ógeðslegt þjóðfélag" eins og ágætur og þjóðþekktur maður lét hafa eftir sér.
Hið jákvæða í málinu er, þrátt fyrir allt, að þjóðin er miklu mun betur á verði nú en áður, enda illa brennd af allri þeirri glæpamennsku sem viðgengist hefur, árum saman, og lætur ekki lengur bjóða sér hvað sem er.
[i] Sjá t.d. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/21/rikid_leggi_lin_til_meira_fe_3/
[ii] Skilyrði sem reyndar felur í sér mismunun á grundvelli aldurs en dæmigerður frjálshyggjuþingmaður hefur engar áhyggjur af því.
[iii] Sjá t.d. 2. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu (Right to education). Þessi réttur skv. 2. gr. hefur þó verið skilgreindur sem „neikvæður" fremur en „jákvæður" í þeim skilningi að engum skuli synjað um rétt til menntunar, fremur en tryggður réttur til menntunar.
Sjá einnig: http://www.echr.coe.int/Documents/Research_report_cultural_rights_ENG.pdf
Réttur til menntunar er enn fremur skilgreindur undir 13. og 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Sjá: http://www.ohchr.org/EN/ProfessionalInterest/Pages/CESCR.aspx
[iv] Sjá einnig: http://www.dailykos.com/story/2014/10/03/1334013/-Germany-just-eliminated-tuition-while-Americans-are-drowning-in-1-2-trillion-student-loan-debt
[v] Eins og margir þekkja hefur endurskilgreiningaraðferðinni lengi verið beitt innan glæpabankakerfisins. Þar eru innanbúðarbankarán kölluð fínum nöfnun eins og kaupaukar og „árangurstengdar greiðslur".
[vi] Og Landsvirkjun.
[vii] Bankakerfið er ein birtingarmynd íslensku mafíunnar sem teygir anga sína víða um samfélagið. Það er í því ljósi sem skoða þarf vinnu sérstaks saksóknara - sem baráttu gegn mafíustarfsemi.
[viii] Sjá enn einnig: http://www.globalresearch.ca/the-basel-committee-and-the-global-banking-mafia/5334459