Fara í efni

ÓSKAÐ EFTIR FRAMHALDSFRÉTT


Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu í dag var haldin enn ein vakningarsamkoman um einkarekstur. Samfylkingarmógúllinn Ágúst Einarsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi rektor í Bifröst, vitnaði og sagði, samkvæmt fréttavef RÚV, „að við blasti að leita eftir einkarekstri í menntamálum, heilbrigðismálum og í samgöngum." Þessu fylgdi formaður SVÞ eftir í fréttaviðtali við RÚV (sbr. fréttir kl. 18) og fullyrti þar að hægt væri að spara 1.6 milljarð á fjórum árum í heilbrigðiskerfinu með útboðum! Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, tók undir þessi sjónarmið: Með útvistun og einkarekstri mætti ná hagkvæmni og sparnaði og nefndi þar sérstaklega samgöngur og menntamál.

Nú skora ég á fréttastofu RÚV að láta þessa aðila standa fyrir máli sínu og færa sönnur á að staðhæfingar þeirra standist. Þeir nota völd sín til að keyra samfélagsþjónustuna inn í einkarekstur í sífellt ríkari mæli og á þeim hvílir því þung sönnunarbyrði. Okkur ber að knýja þá til að koma með sannfærandi rök fyrir því að þessar kerfisbreytingar hafi þau áhrif sem þeir staðhæfa.

Byggja þeir á rökum og reynslu erlendis frá? Gætum við fengið skjöl og skýrslur þar að lútandi? Byggja þeir á rökum og reynslu hér innanlands? Gætum við fengið skjöl og skýrslur þar að lútandi? Til að byrja með vil ég benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutafélagið Sóltún hvað varðar heilbrigðisgeirann og hvað varðar samgöngur nýlega úttek sömu stofnunar á einkavæðingu vegasamgangna. Þessi gögn og önnur þyrftu fjölmiðlar að fara rækilega í saumana á.

En til að byrja með mætti spyrja Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar hvort yfirlýsingar hans á aðalfundi SVÞ séu fráhvarf frá fyrri stefnu í menntamálum og minni ég þar t.d. á að flokkur hans lagðist á sveif með VG um að koma í veg fyrir að einkarekinn barna- og unglingaskóli yrði settur á laggirnar í Hafnarfirði. Þá væri fróðlegt að heyra álit rektorsins í Bifröst hvort honum finnist eðlilegt að allir sem setja á fót háskóla eigi rétt á aðkomu að veski okkar skattgreiðendanna? Telur hann að nægileg umræða fari fram um ráðstöfun fjárins þegar um er að ræða aðila sem ekki lúta stjórnsýslulögum og annarri umgjörð almannareksturs? Og Sigurð Jónsson framkvæmdastjóra SVÞ þarf endilega að fá til að útskýra fyrir okkur hvernig hann hyggist spara 1,6 milljarð í heilbrigðiskerfinu á fjórum árum með einkavæðingu. Hvað, hvernig? Er til of mikils mælst að þetta fólk sem nú stýrir Íslandi færi rök fyrir máli sínu áður en það bregður hnífnum á velferðarkerfið. Er nóg að mæta í hljóðstofu og staðhæfa eitthvað út í loftið? Yfirskrift fréttarinnar á RÚV var staðhæfing: „SVÞ: Einkarekstur er hagkvæmari." Er hann það? Hver segir það? Hvar? Alls staðar? Alltaf? Framhaldsfrétt óskast.

Ég man eftir mörgum messíösum sem hingað hafa komið erlendis frá með boðskap af þessu tagi, pantaða pólitíska fordóma sem engin innistæða var fyrir.
Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvers-vegna-faum-vid-ekki-ad-heyra-sannleikann
Fyrir nokkrum árum kom hingað fyrirlesari á vegum Viðskiptaráðsins sem áður hét Verslunarráðið, en sá maður taldi að einkavæðing heilbrigðiskerfisins væri allra meina bót. Þessi maður hét Eamonn Butler og var - og er hugsanlega enn - framkvæmdastjóri Adam Smith Institute í London. Ég skrifaði nokkrar blaðagreinar og pistla um þessa heimsókn og læt ég slóðir á einhverja þeirra  og tengt efni fylgja hér: HÉR og HÉR og HÉR og HÉR.