AF HVORU KYNI?
25.10.2008
Sæll Ögmundur,. Ég hef frá fyrstu tíð tekið þátt í jafnréttisbaráttunni, en á mínu heimili hefur kvennabarátta alltaf verið hluti af stéttarbaráttunni. . Að sjálfsögðu eiga konur að hafa sömu tækifæri og karlar á öllum sviðum þjóðfélagsins en ég get ekki séð að samfélagið sé eitthvað betur sett þótt konur gegni ákveðnum valdastöðum í samfélaginu eða stjórni fyrirtækjum.. Það er að mínu mati mikilvægara að rýna í skoðanir fólks en kynferði. . Er það styrkur fyrir jafnréttisbaráttuna að Valgerður Sverrisdóttir eða Margrét Thatcher hafi gegnt valdastöðum?Hverju breytir það að Ingibjörg Sólrún er kona? Ég er jafn ósátt við skoðanir hennar og væri hún karl.. Í pólitísku tilliti á ég ekkert sameiginlegt með Ástu Möller, Ingibjörgu Sólrúnu, eða Valgerði Sverrisdóttur frekar en þú með Geir Haarde, Davíð Oddsyni eða Bjarna Benediktssyni.. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þótt við konurnar höfum ekki haft sömu tækifæri og þið karlarnir til þess að setja mark okkar á valdakerfi og viðskiptalíf landsins á undanförnum árum séum við þar með betur til þess fallnar að takast á við þau verkefni sem nú liggja fyrir. . Ég skil ekki það kall sem heyrist nú úr öllum áttum um að "nú sé röðin komin að konunum"!. Þess vegna skil ég heldur ekki hvernig það má vera að nýir stjórnendur Glitnis og Landsbanka skuli taldar yfir gagnrýni hafnar og að því er virðist sjáfvirkt hæfar til sinna starfa vegna þess að þær eru konur. . Höfum við ekkert lært?. Nú þarf að spyrja:. Hvert var hlutverk þessara stjórnenda í gömlu bönkunum? . Af hverju fáum við ekki að vita hvað þær hafa í laun?. Er það rétt að Elín Sigfúsdóttir sé einn af hugmyndasmiðunum á bakvið Icesave? . Það er enginn aðili að gamla valdaaðlinum, hvorki í viðskiptum né pólitík, yfir gagnrýni hafinn!. Farsæl framtíð Íslands mun ekki byggjast á því hvort það verða konur eða karlar sem stjórna.