09.01.2018
Ögmundur Jónasson
Fróðlegt er að fletta svokölluðu „dagatali íslenskra vísindamanna" þar sem segir frá viðfangsefnum þeirra. Á slóð sem leiðir inn í þennan heim segir að vísindamennirnir séu "valdir af stjórn Vísindafélagsins og ritstjórn Vísindavefsins, í samráði við forstöðumenn háskóla og rannsóknastofnana, með það fyrir augum að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hér á landi og þýðingu þess fyrir samfélagið allt.". Frábært þykir mér þetta framtak, kannski ekki síst vegna þess að ég kannast við fleiri en eitt nafn á listanum og hef því á honum sérstakan áhuga.