16.10.2007
Ögmundur Jónasson
Sæll Ögmundur.Enn á ný fara nokkrir þingmenn á stað með frumvarp til laga til þess að heimila verslunum að selja léttvín og bjór. Einu rökin hjá þeim eru að viðskiptavinir geti keypt sér rauðvínsflösku með steikinni. Ef mig langar í rauðvín með steikinni munar mig ekkert um að fara í ÁTVR og kaupa flösku. Í dag eru í gildi lög sem banna að unglingum yngri en 18 ára megi selja tóbak og sama gildir um þá sem afgreiða tóbak. Nú er staðan þannig að mikið af afgreiðslufólki er undir þessum aldri og enginn gerir athugasemdir við að þessir ungu starfskraftar selji tóbak. Og eins verður það með áfengi, þessi börn verða farin að selja áfengi eftir stuttan tíma. Ég tel að með því að leyfa sölu á léttvíni og bjór í verslunum séum við að senda unglingum röng skilaboð um að það sé allt í lagi að drekka léttvín og bjór. Ég veit líka um foreldra sem finnst allt í lagi að gefa eða kaupa bjór eða léttvín handa börnum sínum,s em mér finnst skjóta skökku við á sama tíma og rekinn er áróður fyrir heilbrigðu líferni. Ég sem faðir þriggja barna og afi tveggja barna skora á þig og aðra þingmenn að fella þetta frumvarp. Áfengi er oft fyrsta skrefið að öðru og stærra vandamáli.